mime003                mime004

Stjórn Neyðaraðgerða VST_Hefti_15032010 Kennslurit í vettvangsstjórn

Stjórnstig í almannavarnaástandi eru þrjú. Aðgerðastjórn, Vettvagnsstjórn og Samhæfingarstöð.
Á öllum stjórnstigum er S Á B F verkþáttaskipuritið notað við stjórn aðgerða.

 • Aðgerðastjórn.  Aðgerðastjórn er sameiginleg aðgerðastjórn viðbragðsaðila.Stjórn aðgerða í héraði þegar almannavarnaástand ríkir er í höndum lögreglustjóra í viðkomandi lögregluumdæmi. Hann situr í aðgerðastjórn ásamt fulltrúa almannavarnanefndar, fulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar, fulltrúa Rauða krossins, slökkviliðs og heilbrigðisstarfsmanna auk hlutaðeigandi viðbragðsaðila, sbr. viðbragðsáætlun, svo og öðrum hlutaðeigandi aðilum sem tengjast aðgerðum hverju sinni. Viðbragðsaðilar almannavarna eru skilgreindir í reglugerð nr. 100/2009.
  • Aðgerðastjórn fær umboð frá almannavarnanefnd til að skipuleggja og undirbúa viðbragðsáætlanir  og verklagsreglur vegna neyðaraðgerða í umdæmi nefndarinnar í samræmi við hættumat, og leggur þær fyrir almannavarnanefnd til staðfestingar. Henni er jafnframt falin verkefni frá almannavarnanefnd varðandi skipulag almannavarna í héraði, t.d. að gera tillögur að skipulagi fjarskiptamála, búnað aðgerðastjórnar, aðstoða fyrirframskipaðra vettvangsstjórna þéttbýliskjarna við undirbúning og skipulagningu neyðaraðgerða á sínu svæði, o.fl.
   Aðgerðastöð aðgerðastjórnar skal vera staðsett í þeim byggðarkjarna sem lögreglustjóri situr, nema að viðkomandi ákveði annað.  Almannavarnanefnd ákveður húsnæði aðgerðastjórnar að fengnum tillögum viðbragðsaðila.  Fulltrúar í aðgerðastjórn skulu vera búsettir í nánd við aðgerðastöðina. Aðgerðastjórn kallar fólk til starfa í aðgerðastöð, eftir eðli og umfangi útkallsins.
 • Vettvangsstjórn: Lögreglustjóri tilnefnir vettvangsstjóra sem fer með stjórn og samhæfingu á vettvangi. Vettvangsstjórnir þéttbýliskjarna skulu bregðast tafarlaust við áföllum í heimabyggð, sem eru umfangsmeiri en svo, að dagleg neyðarþjónusta anni þeim og takast á við vandamál sem skapast í þéttbýliskjarnanum og verkefnum sem eru úthlutuð frá aðgerðastjórn.  Einnig að sinna verkefnum sem lúta eingöngu að byggðinni þó svo að aðgerðastjórn taki ekki til starfa, t.d. aðgerðir vegna óveðurs.
 • mynd_SÁBF
  • Ákveða skal vettvangsstöð og tryggja fjarskiptasamband við aðgerðastöð umdæmisins.  Fulltrúar í vettvangsstjórnum þéttbýliskjarna skulu vera fulltrúar mikilvægra starfseininga og búsettir í þeim og skulu sýna frumkvæði við að taka til starfa ef þeir verða varir við hættu- eða neyðarástand í sinni byggð. Aðilar með sérþekkingu, t.d. snjóflóða- athugunarmenn geta einnig verið skipaðir í vettvangsstjórn. Vettvangsstjórn kallar fólk til starfa í vettvangsstöð eftir eðli og umfangi útkallsins.
   Auk fyrirframskipaðra vettvangsstjóra þéttbýliskjarna eru skipaðir vettvangsstjórar eftir aðstæðum þegar slys eða vá ber að höndum utan þéttbýliskjarna, samkvæmt venju.
 • Samhæfingarstöð almannavarna: Í Samhæfingarstöðinni fer fram samhæfing og yfirstjórn almannavarnaaðgerða með hliðsjón af almannavarnastigi og viðeigandi viðbragðsáætlun og er stöðin virkjuð þegar nauðsyn krefst. Einnig getur viðbragðsaðili eða almannavarnanefnd óskað eftir því að Samhæfingarstöðin annist stjórn vegan tiltekinnar hættu.
  •  Samhæfingarstöðin er ekki ofan við aðgerðastjórn heldur frekar til hliðar og og starfa þessar einingar saman í almannavarnaástandi.  Lögreglustjórar fara með stjórn almannavarna hver í sínu umdæmi.
  • Sérstök stjórn ræðir og tekur ákvarðanir um innra skipulag og samstarf viðbragðsaðila og rekstur stöðvarinnar, en samhæfing eða framkvæmd aðgerða er ekki á verksviði stjórnarinnar.
Síðast uppfært: 8. september 2016 klukkan 11:40