Flatarmál hraunberiðunnar í Holuhrauni er nú 78,6 ferkílómetrar að stærð

Hraunbreiðan í Holuhrauni heldur áfram að stækka jafnt og þétt. Eins og fram hefur komið hefur gengið heldur illa að afla nákvæmra upplýsinga um rúmmál hraunbreiðunnar og helgast það af því hve erfitt er að framkvæma nákvæmar mælingar á glóandi hrauninu. Ekki er mögulegt að ganga með mælitæki yfir hraunbreiðuna og mælingar úr flugvél eru vandasamar sökum hitauppstreymis frá hrauninu. Nýjustu mælingar gefa þó til kynna að hraunið sé yfir einn rúmkílómetri að stærð en óvissan í þeim mælingum er veruleg.

Annað gildir um mælingar á flatarmáli hraunbreiðunnar. Þar er hægt að notast við gervihnattamyndir með mjög mikilli nákvæmni. Á myndunum hér fyrir neðan má sjá hvernig hraunið hefur breitt úr sér frá því 2. desember síðastliðnum. Hraunbreiðan er nú alls 78,6 ferkílómetrar að stærð. Einnig má sjá að eyjan, eða hæðin, sem fram til þessa hefur staðið uppúr hraunbreiðunni miðri, er nú þakin hrauni. Þetta virðist hafa gerst þann 12. desember síðastliðinn. Nú eru því einungis tveir litlir hólar sem standa uppúr hraunbreiðunni.

Á hitamyndinni koma hitafrávik fram sem rauðir litir, en heitustu svæðin eru mjög ljós eða alveg hvít. Myndin er byggt á nokkrum MODIS og NOAA AVHRR hitamyndum, sem eru í 1km rúmfræðilegri upplausn.
Samkvæmt myndunum er enn hraunrennsli við eða nálægt miðjum norðurjaðri hraunsins og einnig norðaustantil í hrauninu.

Á neðstu myndinni, sem unnin er af Jarðvísindastofnun HÍ, má sjá samanburð á flatarmáli hraunbreiðanna í Holuhrauni, Laka (1783-1784) og Eldgjá (934-940).

Að lokum má geta þess að Vísindamannaráð almannavarna kom ekki saman til fundar í dag. Næsti fundur Vísindamannaráðs er á morgun, þriðjudaginn 16. desember.

 

Yfirlitskort_20141212

Holuhraun 12.12.2014, flatarmál alls 78,6 ferkílómetrar. Kort Jarðvísindastofnun HÍ.

S1_20141212

SENTINEL 1 gervihnattarmynd frá ESA 12.12.2014. Jarðvísindastofnun HÍ.

Hitamynd_20141215

Hitamynd frá 15.12.2014 frá NASA. Mynd Jarðvísindastofnun HÍ.

Eldgja-Laki-Holuhraun_comparison_20141114

Samanburður á stærð hraunbreiðanna í Holuhrauni, Laka og Eldgjá. Kort Jarðvísindastofnun HÍ.