Fundur vísindamannaráðs almannavarna 3. september 2014

Fundi vísindamannaráðs Almannavarna sitja vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra

Á fundi vísindamannaráðs í morgun kom eftirfarandi fram:

  • Skjálftavirkni heldur áfram, um 160 skjálftar hafa mælst frá miðnætti. Flestir skjálftar mælast á nyrsta hluta Dyngjujökuls. Kl. 03:08 mældist skjálfti að stærð 5,5 norðantil í Bárðarbunguöskjunni.
  • GPS mælingar sýna að berggangurinn hefur stækkað frá því að gosið hófst, það bendir til að meiri kvika hafi farið inn í ganginn en upp úr honum í gosinu.
  • GPS mælingar sýna að hægt hefur á jarðskorpuhreyfingum í kringum bergganginn sem hefur verið að myndast frá því að atburðir hófust.
  • Radsjármyndir sýna 0,5 – 1 km breiðan sigdal sem hefur myndast fyrir framan og undir Dyngjujökli. Greina má merki sigs tæpa 2 km inn undir jökul. Þykkt jökulsins dregur úr sýnilegum ummerkjum sigsins svo líklega nær sigið lengra undir jökulinn.
  • Í ljósi gagna frá GPS mælingum, radsjármyndum og jarðarskjálftamælingum þá minnkar ekki hætta á að gos brjóti sér leið suður frá gossprungunni og upp undir Dyngjujökul. Þeirri atburðarrás fylgir bráð flóðahætta á flæðum framan við Dyngjujökul. Í ljósi þess verður farið yfir hættumat fyrir vísindamenn sem starfa á svæðinu.
  • Eldgosið heldur áfram í Holuhrauni, meginhrauntungan stefnir í ANA.
  • Kl. 08:00 í morgun var heildarflatarmál hraunsins áætlað 7,2 km2.
  • Engar tilkynningar um öskufall hafa borist. Öskuframleiðsla er lítil sem engin.
  • Brennisteinsdíoxíð mælist í kringum eldstöðina. Gosmökkur berst til norðausturs við gosstöðvarnar.
  • Fjórir möguleikar eru taldir líklegastir um framvindu:

o   Að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út og ekki komi til annars eldgoss.

o   Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist, jafnvel á nýrri sprungu. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.

o   Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.

o   Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jökulhlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli. Mestar líkur eru á að hlaup kæmi niður Jökulsá á Fjöllum, en ekki er hægt að útiloka aðrar hlaupaleiðir: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Skaftárkatla og Grímsvötn.

Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.

Frá Veðurstofu Íslands: Litakóði fyrir flug er appelsínugulur fyrir Bárðarbungu og gulur fyrir Öskju.

avdlogo09-150x151