Drögum úr áhrifum hamfara

10. október 2017 10:03

Alþjóðadagur Sameinuðu þjóðanna um mótvægisaðgerðir og áhættuminnkun vegna hamfara er 13. október (UNISDR). Áhersla er lögð á að takmarka tjón vegna hamfara með vörnum og viðbúnaði og vitundarvakningu íbúa vegna áhættu sem jafnan fylgir hamförum.    Að þessu sinni er áhersla lögð á að fjöldi þeirra einstaklinga sem hamfarir snerta eða hafa áhrif á verði mun færri en verið hefur síðari ár, en það er eitt af  sjö markmiðum Sendai rammaáætlunarinnar.    Lagt er til að þessu markmiði verði náð fyrir árið 2030.

Sendai rammaáætlunin um áhættuminnkun vegna hamfara er til 15 ára (2015 – 2030) og var samþykkt á alþjóðlegri hamfararáðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 2015, sem haldin var í borginni Sendai í Japan og innanríkisráðherra Íslands tók þátt í. Markmið áætlunarinnar er að draga verulega úr áhrifum allra hamfara og takmarka tjón íbúa, á líf þeirra, heilsu og lífsviðurværi. Í áætluninni eru sett fram sjö alþjóðleg markmið og fjórar forgangsaðgerðir til að ná þessum árangri fyrir árið 2030.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vinnur meðal annars að því að vekja íbúa til vitundar  um áhættuna sem fylgir hamförum. Í fyrstu grein laga um almannavarnir segir“ markmið almannavarna er að undirbúa, skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir og takmarka, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni, eða umhverfi eða eignir verði fyrir tjóni, af völdum náttúruhamfara eða af mannavöldum, farsótta eða hernaðaraðgerða eða af öðrum ástæðum og veita líkn í nauð og aðstoð vegna tjóns sem hugsanlega kann að verða eða hefur orðið“.

Síðast uppfært: 10. október 2017 klukkan 10:22