Sjö ár frá öflugum jarðskjálfta á Haiti

12. janúar 2017 09:42

Jarðskjálfti af styrkleika rúmlega 7,0 varð á Haiti 12. janúar, 2010. Talið er að yfir 250.000 byggingar hafi hrunið í jarðskjálftanum og manntjón varð gífurlegt. Erfitt hefur verið að staðfesta heildarfjölda látinna í hamförunum en yfirvöld á Haiti telja að um 316.000 manns hafi látist.   Haiti, sem er eitt af fátækustu löndum heims, var engan veginn í stakk búið til að takast á við afleiðingar jarðskjálftans.  Fjöldi hjálparsamtaka aðstoðaði við leit og björgun og vann að uppbyggingu eftir skjálftann. Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin brást skjótt við og var skipulagt hjálparflug til Port au Prince strax í kjölfar skjálftans. Íslenska sveitin mætti á skaðasvæðið 13 klukkustundum eftir skjálftan og var meðal fyrstu alþjóðabjörgunarsveita á svæðið. Í samstarfi við utanríkisráðuneytið og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra var ákveðið að sækja um styrk til almannavarna Evrópusambandsins við að fjármagna hluta flutningskostnaðar alþjóðasveitarinnar heim frá Haiti. Almannavarnir Evrópusambandsins veittu Íslendingum flutningsstyrk sem nam um helmings kostnaðar við heimferðina frá Haiti.
Jarðskjálftinn á Haiti minnir okkur á hve jarðskjálftar geta haft alvarlegar afleiðingar.

 

 

Síðast uppfært: 12. janúar 2017 klukkan 09:58