Flugslysaæfing á Ísafjarðarflugvelli

Í dag eru æfð viðbrögð við flugslysi á Ísafjarðarflugvelli. Flugslysaáætlun vegna Ísafjarðarflugvallar var virkjuð á neyðarstigi klukkan 11:30 vegna 36 sæta flugvélar, sem hrapar við norðurenda flugvallarins. Fjöldi viðbragðsaðila tekur þátt í æfingunni sem er mikilvægur þáttur í þjálfun þeirra. Einnig eru æfð samskipti við Samhæfingarstöðina í Reykjavík, sem er mönnuð  í æfingunni og aðstoðar við útvegun bjarga eins og þyrlur og sjúkraflug og stýrir því hvert sjúklingar eru sendir. Mikill undirbúningur fylgir flugslysaæfingum, sem eru haldnar reglulega á öllum áætlunarflugvöllum landsins. Að undirbúningi og framkvæmd æfingarinnar koma Ísavia, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn, lögreglustjórar, slökkvilið sveitarfélaga, Neyðarlínan, Landhelgisgæslan, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Landspítali, rannsóknarnefnd samgönguslysa og fleiri.   Æfð eru viðbrögð á slysavettvangi, verkþáttastjórnun og vettvangsstjórn auk þess sem aðgerðastjórn umdæmisins stýrir heildaraðgerðum.