Fundur í vísindaráði almannavarna í dag

Vísindaráð almannavarna hittist á fundi í dag til þess að ræða mælingar og vöktun vegna Öræfajökuls.

Kynntar voru niðurstöður úr mælingum á vatnssýnum sem tekin voru um helgina úr ám sem renna frá Öræfajökli.  Þær voru bornar saman við mælingar sem framkvæmdar voru 1988.  Í ljós kom að það vatn sem kemur fram í Kvíá er blanda bræðslu- og jarðhitavatns.  Ekki sjást greinileg merki um kvikugös í vatninu.  Af því má draga þá ályktun að stækkun á sigkatlinum í Öræfajökli stafi af aukinni jarðhitavirkni.

Aukin jarðhitavirkni getur stafað af meiri lekt og sprungumyndun í jarðhitakerfinu samfara jarðskjálftum og/eða auknum hita í jarðhitakerfinu tengt grunnstæðu kvikuinnskoti.

Vegna illviðris næstu daga hafa áætlanir um uppsetningar á síritandi mælitækjum riðlast, en þau verkefni verða kláruð um leið og tækifæri gefst. Fram að því verða gerðar reglulegar handvirkar mælingar á ám sem renna frá Öræfajökli. Mikilvægt er að fylgjast áfram vel þróun mála í eldstöðinni.