Hvassviðri og úrkomu spáð á morgun

Veðurstofa Íslands vill vekja athygli á mjög slæmu veðri sem spáð er á morgun, föstudaginn 24. febrúar. Búast má við að vindhraði nái víða 20-28 m/s á sunnan- og vestanverðu landinu eftir hádegi á morgun, ásamt mjög hvössum vindhviðum, allt að 40 m/s. Veðrinu fylgir talsverð úrkoma, fyrst snjókoma en síðan slydda eða rigning. Viðbúið er að skyggni verði víða slæmt og ferðaveður sums staðar mjög slæmt.

Á Hellisheiði fer að snjóa snemma morguns og má búast við lélegu skyggni þar strax í fyrramálið, en einnig er vakin athygli á því að búist er við að versta veðrið gangi yfir Reykjanesbrautina á milli kl. 14 og 17. Snýst í mun hægari sunnan- og suðvestanátt suðvestantil annað kvöld, með skúrum eða éljum.

Veðrið gengur til norðausturs yfir land og hvessir mikið á Norður og Austurlandi um miðjan dag. Þar má búast við versta veðriðnu annað kvöld, suðaustan 20-28 m/s með vindhviðum jafnvel yfir 40 m/s til fjalla. Búast má við að veðrið gangi niður norðaustantil eftir miðnætti.

Talsverði eða mikilli rigningu er spáð um tíma suðaustanlands seint á morgun.

Vindakort af http://www.vedur.is/vedur/spar/thattaspar/#teg=vindur sem sýnir meðalvindhraða kl. 15 á morgun, 24. febrúar.