Óvissustig á Austurlandi vegna úrkomu og vatnavaxta

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við Lögreglustjórann á Austurland lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna úrkomu og vatnavaxta á Austurlandi.  Vatnsyfirborð Lagarfljóts hefur hækkað stöðugt undanfarna klukkutíma og er hætta á að fljótið flæði yfir farveg þess. Samfara úrkomunni er aukin skriðuhætta.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila.