Óvissustigi almannavarna aflétt vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi

Í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra hefur ríkislögreglustjóri ákveðið að aflétta óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi. Jarðskjálftahrinan hófst um miðjan febrúar en undanfarna sólarhringa hefur töluvert dregið úr jarðskjálftum á svæðinu.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað.  Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila.

Jarðskjálftahrinur af þessu tagi eru góð áminning fyrir okkur sem búum á þekktum jarðskjálftasvæðum að gera viðeigandi ráðstafanir.  Þetta á sérstaklega við fyrir suðurland, suðvesturland og norðurland.  Á vef Veðurstofunnar er að finna ýmsan fróðleik og þar á meðal um jarðskjálftavirkni á Íslandi, sjá nánar á vef veðurstofunnar http://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/frodleikur/greinar/nr/450

Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr tjóni og/eða slysum í jarðskjálfta, bæði á heimilum og vinnustöðum, sjá hér https://www.almannavarnir.is/natturuva/jardskjalftar/varnir-gegn-jardskjalfta/

Eftir sem áður mun Veðurstofan halda áfram að vakta jarðskjálftavirkni á og við Ísland og upplýsa almannavarnir eftir því sem tilefni er til.