Vorfundur Vísindaráðs almannavarna

Vísindaráð almannavarna hélt vorfund í gær 23. maí. Þar var farið yfir vöktun og mælingar síðustu vikna sem tengjast eldfjöllum og jarðskjálftavirkni. Bárðarbunga, Katla og Hekla voru þar ofarlega á baugi, en auk þess var rætt um Grímsvötn, Öræfajökul og jarðskjálfasvæðin á Suður- og Norðurlandi.

Bárðarbunga sýnir áfram svipuð merki um virkni eftir jarðhæringarnar 2014-2015 sem felst í hárri tíðni af jarðskjálftum og jarðhitavirkni sem kemur fram sem dældir eða katlar á jökulhettunni sem klæðir öskju Bárðarbungu. Katla í Mýrdalsjökli hefur verið nokkuð róleg síðan jarðskjalftahrina varð um miðbik vetrar. Áfram er þó full ástæða til þess að fylgjast grannt með þróun eldstöðvanna enda virkni verið nokkuð há undanfarin misseri.

Þá er vert að minnast þess að á Suðurlandi og Norðurlandi eru jarðskjálftasvæði þar sem stórir jarðskjálftar geta orðið í og við byggð og því er mikilvægt að huga vel að forvörnum og vera við öllu búin.