Gosefni sem berast með vindi geta mengað gróður og vatn og borist ofan í skepnur.

Skaðleg áhrif eldgosa á dýralíf hér á landi hafa fyrst og fremst verið af völdum eitraðra efna, sem berast með gosösku og falla til jarðar á gróður og í drykkjarvatn, sem skepnurnar éta eða drekka og berast ofan í meltingarfærin. Eiturefnin frásogast úr meltingarfærunum til blóðsins og berast með því um líkamann. Þegar dýr anda að sér eitruðum gosgufum berast þær ofan í lungu. Þaðan geta efnin einnig frásogast til blóðsins. Síbreytileg vindátt veldur því, að aska getur dreifst um allt land á tiltölulega skömmum tíma. Enginn staður er því óhultur hér á landi í eldgosum.

Það eiturefni sem hefur haft skaðleg áhrif á dýr hér á landi er flúor eða flúoríð HF. Flúormenguð aska getur fallið beint í kyrrstætt vatn (polla, vötn) eða vatnsföll. Úrkoma getur fljótt þvegið flúorinn úr ösku, sem liggur á jörðinni og á plöntunum og skolað honum út í polla og vatnsföll, en þá er líka fyrst á eftir hætta á mengun drykkjarvatns, einkum í grunnum pollum eða vötnum. Flúor bindur kalsíum í torleyst sambönd og stuðlar þannig að kalkskorti. Bráð eitrun getur valdið doða í ám og kúm, og klumsi í hryssum, einkum seint á meðgöngu og um burð eða köstun. Sjá nánar grein Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis um  áhrif eldgosa á dýr og Auðar L. Arnþórsdóttur um áhrif eldgosa á dýr.