Katla í Mýrdalsjökli

Eitt af jarðfræðilegum einkennum Íslands eru eldgos undir jöklum. Við eldgos undir jöklum bráðnar mikill ís og veldur jökulhlaupum.  Gerð hefur verið viðbragðsáætlun vegna eldgoss undir Mýrdalsjökli þar segir m.a.:

„Við Kötlugos má búast við jökulhlaupum undan Kötlujökli og fram úr Krika út á Mýrdalssand, undan Sólheimajökli út á Sólheima- og Skógasand og undan Entujökli út í farveg Markarfljóts. Frá landnámsöld hafa langflest hlaup fallið niður á Mýrdalssand en einungis örfá niður á Sólheima- og Skógasand. Stór jökulhlaup hafa einnig farið niður Markarfljót á um 500 – 800 ára fresti síðustu 7000 ár og síðast líklega fyrir um 1200 árum. Talið er að rennsli í stærstu hlaupunum niður Markarfljót hafi verið 100.000 – 300.000 m3/sek. Stærri hlaupin eru talin hafa flætt yfir mestallan hluta flatlendisins milli Eyjafjalla og Þjórsár og miðað við núverandi byggð myndu Landeyjar og Þykkvibær lenda undir slíku hlaupi. Um leið og ljóst er að eldgos er hafið í Kötlu verða send út SMS viðvörunarskilaboð í farsíma á svæðinu í samræmi við viðbragðsáætlun.

Líklegasta afleiðing jökulhlaupa undan Mýrdals- og Eyjafjallajökli er rof á samgöngumannvirkjum (vegir og brýr), rafmagns- og símalínum og ljósleiðara. Þá getur vatnsveita til Vestmannaeyja rofnað ef hlaup verður um Markarfljót. Alvarlegustu afleiðingar jökulhlaupa geta orðið að fólk, búsmali, hús og tæki geta orðið hlaupum að bráð.

Afleiðingar gjóskufalls frá eldgosum koma fram undan vindi á hverjum tíma frá eldstöðinni. Mökkurinn getur orðið svo myrkur að ekki sé ratljóst innan hans. Eiturefni og aska geta torveldað öndun og lungu skaddast. Gjóskufall á raflínur, tengivirki og loftnetsbúnað geta valdið skammhlaupi og skemmdum, sérstaklega í votviðri. Fólk sem ekki kemst í skjól undan öskufalli getur beðið bana af.

Afleiðing stöðurafmagns í lofti sem bundið er við gosmökkinn, eru truflanir og skemmdir á rafbúnaði, síma- og talstöðvabúnaði og mannvirkjum. Lífshætta getur skapast af eldingum og dæmi eru um að manntjón hefur orðið vegna eldinga úr gosmekki Kötlu í allt að 30 – 40 km fjarlægð frá eldstöðinni.

Flóðbylgjur á sjó myndast þegar jökulhlaupið nær til sjávar og annálar herma að árið 1918 hafi áttæringur sem var í fjöruborði í Vestmannaeyjum kastast á land. Þá var talið að flóðbylgju hafi orðið vart allt vestur fyrir Reykjanes.“

Kötlueldstöðin er ein stærsta megineldstöð landsins. Hún er um 30 km í þvermál og hæstu kollar rísa í yfir 1400 m hæð yfir sjó. Í miðju eldstöðvarinnar er Kötluaskjan um 100 km2 að stærð og all að 700 m þykkur ís og skiptist askjan í þrjú vatnasvæði: Vatnasvæði Kötlujökuls, Sólheimajökuls og Entujökuls

Langflest gos Kötlu á sögulegum tíma hafa verið á vatnasvæði Kötlujökuls.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á vefsíðu almannavarnadeildarinnar: Hættumat vegna eldgosa og hlaupa frá vestanverðum Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli https://www.almannavarnir.is/utgefid-efnis/haettumat/https://www.almannavarnir.is/utgefid-efnis/haettumat/ – Einnig er hægt að nálgast upplýsingar um Kötlu í Catalogue of Icelandic Volcanoes á vefsíðunni http://icelandicvolcanoes.is/