Í stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum eru helstu markmið og verkefni almannavarna mörkuð til þriggja ára í senn. Viðbragðskerfi almannavarna byggist á fjórum grundvallarreglum:

  • Sviðsábyrgðarreglan – Sá aðili sem fer venjulega með stjórn tiltekins sviðs samfélagsins, tiltekins svæðis eða umdæmis skal skipuleggja viðbrögð og koma að stjórn aðgerða þegar hættu ber að höndum.
  • Grenndarreglan – Staðbundin stjórnvöld undirbúa fyrirbyggjandi ráðstafanir og viðbragðsáætlanir.
  • Samkvæmnisreglan – Á hættutímum sér yfirvald eða stofnun um björgunarstörf á verksviði sínu.
  • Samræmingarreglan – Allir viðbragðsaðilar samhæfa störf sín við undirbúning á aðgerðum vegna hættuástands þannig að búnaður og mannafli sé nýttur á árangursríkan hátt.

Á almannavarnahringrásinni (sjá mynd) er hægt að finna helstu verkefni almannavarna og á hverjum tíma er verið að vinna að verkefnum víðs vegar á hringrásinni. Verkefni fyrir hamfarir felast í áhættugreiningu, vöktun og mati á áhættu og mótvægisaðgerðum og eru áhættuskoðun almannavarna og viðbragðsáætlanir dæmi um  verkefni fyrir hamfarir, en einn helsti þáttur í viðbúnaði almannavarna er gerð viðbragðsáætlana, æfingar og þjálfun viðbragðsaðila.

Viðbragðsaðilar bregðast við um leið og hættuástand skapast til að bjarga mannslífum, eignum og umhverfi. Lýst er yfir almannavarnastigi eftir alvarleika og umfangi atburðar og skipulag og stjórnkerfi almannavarna virkjað með samhæfingu aðgerða í umdæmi og  Samhæfingarstöð almannavarna.

Hjálparlið almannavarna, Rauði krossinn og Slysavarnafélagið Landsbjörg, hafa gert samning um hlutverk þeirra í heildarskipulagi almannavarna á hættu- og neyðartímum. Þeirra hlutverk nær til landsins alls og er mikilvægt í öllum viðbúnaði, viðbragði og enduruppbyggingu vegna hamfara.

Mikilvægt er að hefja sem fyrst enduruppbyggingu eftir áfall með endurreisn innviða, félagsþjónustu og efnahags. Þjónustumiðstöðvar eru starfræktar sem næst skaðasvæði eftir hamfarir með velferð og heilsu íbúa að leiðarljósi, umhverfi þeirra og efnahag. Við endurreisnina hefur aðstoð við tryggingamál, áfallahjálp, velferðarmál, aðstoð við hreinsum og lagfæringar verið meðal verkefna þjónustumiðstöðva almannavarna.

Eftir hamfarir er mikilvægt að fara yfir atburð og draga lærdóm af honum. Með því að greina aðgerðina heildstætt með hliðsjón af vöktun, áhættugreiningu, mótvægisaðgerðum viðbúnaði, viðbrögðum og endurreisn má lagfæra það sem betur má fara..Það er síðan hlutverk rannsóknarnefndar almannavarna eftir hættuástand að meta og rannsaka þær viðbragðsáætlanir sem stuðst var við og viðbrögð viðbragðsaðila með það að markmiði að bæta verklagið.