Loftgæði og brennisteinsdíoxíð (SO2) mengun frá eldgosinu í Holuhrauni

Eldgosið í Holuhrauni er enn jafn öflugt og það hefur verið síðustu daga, samkvæmt niðurstöðu fundar vísindamannaráðs almannavarna, sem kom saman til reglubundins fundar í morgun. Á fundinum kom fram að vísindamenn Veðurstofu Íslands hafi unnið að mælingum á magni brennisteinsdíoxíðs (SO2) sem stígur upp af hrauninu. Samkvæmt nýjustu mælingum er afgösun SO2 talin vera allt að 750 kílógrömm á sekúndu.

Spár gefa til kynna að hár styrkur brennisteinsgass (SO2) og annarra gosefna gæti orðið á norðanverðum Austfjörðum, Fljótsdal, Héraði, Jökuldal og á Langanesi. Spáin gefur til kynna að styrkur gæti aukist á norðausturlandi er líða fer á daginn. Svæði með háum styrk gæti orðið stærra. Umhverfisstofnun stefnir að því að setja upp mælitæki á Akureyri og Suðurlandi. Taka verður tillit til landfræðilegra aðstæðna á hverjum stað við mat loftgæða.

Í gærkvöldi lagðist gasskýið yfir austurland og mældist styrkur SO2 tæplega 4000 míkrógrömm á rúmmetra, á Reyðarfirði, sem er hæsta gildi SO2 sem mælst hefur hér á landi. Einnig var fólk vart við gasmengun á Neskaupsstað, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og á Egilsstöðum. Fulltrúar Umhverfisstofnunar voru í sambandi við starfsfólk almannavarna í gærkvöldi. Í ljósi alvarleika málsins var ákveðið að senda út SMS skilaboð í alla farsíma á Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Neskaupsstað.

SMS kerfið er viðbót við aðra upplýsingagjöf almannavarna. Ekki er treyst á SMS sendingar sem alhliða viðvörunarkerfi. Í gærkvöldi kom t.d. í ljóst að skilaboð bárust seint eða ekki í farsíma eins farsímafyrirtækis.

Fulltrúar almannavarna vinna að því með fulltrúum embættis sóttvarnalæknis, Umhverfisstofnun og Veðurstofu Íslands að bæta upplýsingagjöf til almennings vegna þessa máls. Almenningi er bent á heimasíður þessara stofnanna þar sem finna má gagnlegar upplýsingar um hvernig best er að bregðast gosmenguninni.

www.umhverfisstofnun.is eða www.ust.is

www.loftgaedi.is

www.vedur.is

www.landlaeknir.is

www.avd.is og www.almannavarnir.is

avdlogo09-150x151