Efnisyfirlit

1.   Inngangur 6

1.1.   Yfirlit yfir leiðbeiningarnar 7

2.   Skyldur sveitarfélagsins og greining á áhættu og áfallaþoli 8

2.1.   Skyldur sveitarfélgsins er varða viðbúnað og aðrar kröfur um viðbragð. 8

2.2.   Mikilvæg hugtök í leiðbeiningunum.. 9

2.3.   Hvað er greining á áhættu og áfallaþoli?. 11

3.   Greining á áhættu og áfallaþoli skref fyrir skref 15

3.1.   Skipulagning og undirbúningur 16

3.1.1.    Greining skipulögð og fest í sessi 16

3.1.2.    Skilgreining á tilgangi, afmörkun, aðferð og ferli 17

3.1.3.    Söfnun upplýsinga og lýsing á sveitarfélagi 19

3.2.   Framkvæmd greiningar á áhættu og áfallaþoli 20

3.2.1.    Greining óæskilegra atvika. 20

3.2.2.    Greining á áhættu og áfallaþoli vegna óæskilegra atvika. 23

3.2.3.    Heildarmynd af áhættu og áfallaþoli 34

3.2.4.    Tillögur að eftirfylgni 43

3.2.5.    Skýrsla. 45

4.   Eftirfylgni í starfi sveitarfélagsins við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað  46

4.1.   Framkvæmdaáætlun. 47

4.1.1.    Markmið og stefnur fyrir starf sveitarfélagsins við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað  47

4.1.2.    Tillögur um eftirfylgni og þróun. 47

4.2.   Samþætting almannavarna og viðbúnaðar í áætlanir er varða skipulags og byggingarmál 51

5.   Samantekt: Greining á áhættu og áfallaþoli – skref fyrir skref 54

Heimildir 56

Viðaukar 59

VIÐAUKI 1 SKYLDUR SVEITARFÉLAGS Í LÖGUM OG REGLUGERÐUM.. 59

VIÐAUKI 2 VERÐMÆTI Í SAMFÉLAGINU, TEGUNDIR AFLEIÐINGA, ÁSAMT FLOKKUM FYRIR AFLEIÐINGAR, LÍKUR, ÓVISSU OG HVERSU MIKIÐ ER HÆGT AÐ STÝRA HÆTTUNNI 62

VIÐAUKI 3  DÆMI UM UMBOÐ. 68

VIÐAUKI 4  DÆMI UM SÉRSTAKAR AÐSTÆÐUR Í SVEITARFÉLAGINU. 70

VIÐAUKI 5  DÆMI UM ÁHÆTTUÞÆTTI (ÓÆSKILEG ATVIK) 72

VIÐAUKI 6  ÝMSAR UPPLÝSINGAR. 77

VIÐAUKI 7 TILLAGA AÐ EFNISYFIRLITI FYRIR GREININGU Á ÁHÆTTU OG ÁFALLAÞOLI 81

 


 Formáli

Sveitarfélög gegna aðalhlutverki í vinnu við að tryggja öryggi borgara og viðbúnað. Þau fara með almannavarnir í héraði sem gerir kröfu til þess að sveitarfélag vinni heildstætt og kerfisbundið að því að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað. Þetta undirstrikar hið mikilvæga hlutverk sem sveitarfélag hefur sem samræmingaraðili og drifkraftur í almannavarnastarfi.

Grunnur að góðu almannavarnastarfi sveitarfélags er meðvitund um og þekking á áhættu og viðkvæmni sem fæst með greiningu á áhættu og áfallaþoli sveitarfélagsins. Greiningin er undirstaða fyrir markvissa vinnu sveitarfélags við að draga úr áhættu og viðkvæmni en það er gert með forvarnastarfi og fyrirbyggjandi aðgerðum, efldum viðbúnaði og aukinni hæfni við neyðarstjórnun.

Tilgangur þessara leiðbeininga um greiningu á áhættu og áfallaþoli í sveitarfélagi er að gefa ítarlega lýsingu á aðferð við útfærslu og eftirfylgni af greiningu á áhættu og áfallaþoli sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til sveitarfélaga um að fara með almannavarnir í héraði, eins og fram kemur í lögum frá 12. júní 2008 um almannavarnir.

Leiðbeiningarnar eru staðfærsla og þýðing Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra (Almannavarnir) á norsku skýrslunni Veileder til helhetlig risiko og sårbarhetsanalyse i kommunen. Auk þess er stuðst við  aðrar fyrirmyndir frá systurstofnunum Almannavarna í Noregi (Direktoratet for sikkerhet og beredskap (DSB)), Svíþjóð (Myndigheten för samhällsskydd och beredskap (MSB)) og Danmörku (Beredskabsstyrelsen).

Hulda Vigdísardóttir sá um yfirferð á málfari.

Reykjavík, október 2021.

 

Elísabet Pálmadóttir

Verkefnastjóri


 

1.  Inngangur

 

 

Ekki er hægt að vita hvenær óæskileg atvik ríða yfir samfélagið eða hvað felst í þeim tilteknu óæskilegu atvikum. Hins vegar er hægt að segja með vissu að óæskileg atvik sem eru samfélaginu áskorun eiga sér alltaf stað af og til. Viðurkenning þess er mikilvæg forsenda góðs almannavarnastarfs.

Óæskileg atvik, eins og COVID-19 heimsfaraldurinn sem barst til landsins árið 2020, snjóflóðið á Flateyri í janúar árið 2020, óveðrið í desember árið 2019, hraungosið í Holuhrauni 2014 og eldgosið í Eyjafjalla­jökli 2010, kröfðust viðbragðs af hálfu viðkomandi sveitarfélags, á sama tíma og þau snertu alla þjóðina. Sveitarfélag verður að vera reiðubúið til að takast á við slík óæskileg atvik en um leið er starfi sveitarfélagsins er varðar öryggi borgaranna fyrst og fremst ætlað að takast á við óæskileg atvik sem hafa áhrif á og ögra nærsamfélaginu.

Í sveitarfélögum þurfa að vera örugg og öflug samfélög en hvert og eitt sveitarfélag, innan sinna marka, ber ábyrgð á að tryggja öryggi íbúa[1]. Sveitar­félögin þurfa að gera sitt til að halda samfélagslega mikilvægum verkefnum gangandi, líka þegar óæskileg atvik verða. Þannig eru sveitarfélögin hryggjarstykki í almanna­varna- og viðbúnaðarstarfi á Íslandi.

Góður viðbúnaður sveitarfélaga við neyð er grunnforsenda þess að viðbúnaður á landsvísu sé góður.

 

Markmið með skyldu sveitarfélaga til viðbúnaðar er að sveitarfélög vinni heildstætt og skipulega að því að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað, þvert á fagsvið. Þekking á áhættu og viðkvæmni er nauðsynleg til að draga úr líkum á að óæskileg atvik eigi sér stað og til að minnka afleiðingar þess, ef það verður. Með því að gera greiningu á áhættu og viðkvæmni fá sveitarfélög bæði betri yfirsýn yfir og aukna vitund um áhættu og viðkvæmni.

Að auki öðlast sveitarfélög þekkingu á því hvernig hægt er að stjórna áhættu og viðkvæmni til að auka öryggi borgaranna.

Greining á áhættu og áfallaþoli þarf að:

·       veita yfirlit yfir óæskileg atvik sem eru áskoranir í sveitarfélaginu.

·       auka vitund um áhættu og viðkvæmni í sveitarfélaginu.

·       fanga  áhættu og viðkvæmni þvert á atvinnugreinar.

·       auka þekkingu á leiðum til að forðast og draga úr áhættu og viðkvæmni í sveitarfélaginu.

·       bera kennsl á leiðir sem eru mikilvægar fyrir getu sveitarfélagsins til að takast á við áraun.

·       leggja grunn að markmiðum, forgangsröðun og nauðsynlegum ákvörðunum í starfi sveitarfélagsins við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað.

·       koma með innspil í greiningar á áhættu- og viðkvæmni á öðrum ábyrgðarsviðum sveitarfélagsins og innan starfssvæðis almannavarnanefndar.

Í leiðbeiningunum er greining á áhættu og áfallaþoli notað sem hugtak fyrir þá heildstæðu greiningu á áhættu og viðkvæmni samfélagsins sem gerð er krafa um í lögum og reglugerðum.

1.1.    Yfirlit yfir leiðbeiningarnar

Þessar leiðbeiningar sýna hvernig hægt er að vinna greiningu á áhættu og áfallaþoli í sveitarfélagi. Engin krafa er gerð um að fylgja þurfi leiðbeiningunum en það hjálpar þó til við að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í lögum nr. 82/2008 um almannavarnir og við koma greiningu á áhættu og áfallaþoli. Við gerð þessara leiðbeininga var áhersla lögð á að hafa þær auðveldar í notkun fyrir öll sveitarfélög landsins, óháð stærð, landslagi og skipulagi sveitarfélaga.

Í öðrum kafla er skylda sveitarfélagsins er varðar viðbúnað og greiningu á áhættu og áfallaþoli skoðuð. Þar er litið á hvar skylda sveitarfélagsins til viðbúnaðar eftir Almannavarnalögunum og aðrar kröfur um greiningar á áhættu og viðkvæmni í sveitarfélaginu mætast; þ.e. daglegt viðbragð og viðbúnaður stofnana sveitarfélagsins. Einnig er innihald greiningarinnar skoðað betur.

Í þriðja kafla er farið yfir hvernig hægt er að gera greiningu á áhættu og áfallaþoli, allt frá skipulagningu og hagnýtri framkvæmd til tillagna um framkvæmdaáætlun. Notuð eru dæmi til að lýsa því, þar sem sama ímyndaða atvikinu í sama ímyndaða sveitarfélaginu er fylgt frá upphafi til enda.

Í fjórða kafla er nánar farið yfir hvernig sveitarfélög geta fylgt greiningu á áhættu og áfallaþoli eftir. Litið er á hvernig úrbætur eru ákveðnar og hvernig hægt er að fylgja þeim eftir í heildstæðu og kerfisbundnu starfi sveitarfélags við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað, auk þess að samþætta þær í áætlanir í skipulags- og byggingarmálum.

Í fimmta kafla er stutt yfirlit yfir helstu skrefin í greiningu á áhættu og áfallaþoli.

2.  Skyldur sveitarfélagsins og greining á áhættu og áfallaþoli

 

 

2.1.    Skyldur sveitarfélgsins er varða viðbúnað og aðrar kröfur um viðbragð

Þróun samfélagsins undanfarna áratugi hefur gert viðfangsefni og störf í samfélaginu háðari hvert öðru innbyrðis. Skylda sveitarfélags er varðar viðbúnað stuðlar að því að tekið sé tillit til áskorana sem varða öryggi borgaranna við ákvarðanatöku í nærsamfélaginu.

Almannavarna- og viðbragðsstarfið á Íslandi byggir á fjórum meginreglum: sviðsábyrgðarreglu, grenndarreglu, samkvæmisreglu og samræmingarreglu. Sá aðili sem fer venjulega með stjórn tiltekins sviðs samfélagsins eða tiltekins svæðis eða umdæmis skal skipuleggja viðbrögð og koma að stjórn aðgerða þegar hættu ber að höndum. Staðbundin stjórnvöld undirbúa fyrirbyggjandi ráðstafanir og viðbragðsáætlanir. Á hættustundu sér yfirvald eða stofnun um björgunarstörf á sínu verksviði  en allir viðbragðsaðilar samhæfa störf sín við undirbúning aðgerða vegna hættuástands svo að búnaður og mannafli sé nýttur á skilvirkan hátt.

Óæskileg atvik geta þýtt að aðrir aðilar eins og lögreglan, Geislavarnir ríkisins eða Landhelgisgæslan hafi einnig hlutverk. Hér hefur sveitarfélagið verulegt hlutverk sem samstarfsaðili til að leysa sameiginlegar áskor­anir innan marka sveitarfélagsins. Það er verkefni sveitarfélagsins að viðhalda samfélagslega mikil­vægum verkefnum og þjónustu sem það ber ábyrgð á og um leið sjá um þörf íbúanna fyrir öryggi og öryggiskennd.

Innan nokkurra ábyrgðarsviða sveitarfélaga eru eigin kröfur og væntingar um viðbragð við neyð og að öryggi borgaranna sé tryggt, sjá Mynd 1. Þetta á m.a. við um eftirfarandi svið:

   slökkvistarf og björgun

   heilbrigðismál, velferðar- og félagsþjónusta

   bráð mengun

   smitvarnir

   drykkjarvatn (þar sem sveitarfélagið er eigandi vatnsveitunnar)

   skipulags og byggingamál

   alvarleg atvik/viðbúnaður í skólum og leikskólum

Skyldur sveitarfélags er varða viðbúnað koma ekki í stað annarrar ábyrgðar sveitarfélagsins þegar viðkemur öryggi borgaranna heldur eru þær viðbót við þær kröfur sem gerðar eru um viðbúnað  í öðrum reglugerðum.

Mynd 1: Skyldur sveitarfélagsins er varða viðbúnað eru heildstæðar og ná yfir alla þætti í þjónustu sveitarfélagsins

2.2.    Mikilvæg hugtök í leiðbeiningunum

Í greiningu á áhættu og áfallaþoli eru margar áhættur (óæskileg atvik) tilgreindar. Þær eru greindar með tilliti til eftirfarandi þátta:

·       orsakir og líkur

·       viðkvæmni

·       afleiðingar

·       óvissa

Í greiningu á áhættu og áfallaþoli eru óæskileg atvik sem geta átt sér stað greind og áhættu og veikleikum sem fylgja þeim lýst. Lykilhugtök í þessum leiðbeiningum eru áhætta, líkur, óvissa, viðkvæmni, afleiðingar og samfélagslega mikilvæg verkefni. Í leiðbeiningunum eru þessi hugtök notuð á eftirfarandi hátt:

Áhætta: Mat á því hvort atvik geti átt sér stað, hverjar afleiðingarnar yrðu og óvissa tengd því.

Líkur eða líkindi: Hugtök sem notuð eru sem mælikvarði á því hversu líklegt tiltekið atvik er og innan hvaða tímabils það gæti átt sér stað, miðað við þá þekkingu sem er til staðar. Þegar áhætta er metin er gert ráð fyrir ákveðinni þekkingu á atvikinu en  forsendur og atriði sem þarf að gefa sér (þ.e. atriði sem eru á einhvern hátt fyrirhuguð; ætlanir) eru oft mörg og þekkingin getur verið góð eða takmörkuð og sumar forsendurnar geta reynst rangar; M.ö.o. er auðmýkt nauðsynleg þegar talað er um áhættu.

Viðkvæmni eða veikleiki: Hugtök sem notuð eru um þann vanda sem kerfið verður fyrir þegar óæskileg atvik verða og gerir því erfitt fyrir um að starfa eðlilega og þau vandamál sem tengjast því að koma aftur á eðlilegri starfsemi eftir að atburður hefur gerst. Veikleiki á m.ö.o. við um  getu kerfisins til að koma í veg fyrir atburð og getu kerfisins til að standast atvik sem henda. Í því samhengi getur kerfi verið hvort sem er tæknileg undirkerfi (t.d. innviðir) eða stærri skipulagseiningar (t.d. sveitarfélag). Öflugt samfélag hefur getu til að standast og þola óæskileg atvik og getu til að endurreisa samfélagslega mikilvæg verkefni hratt eftir atvik, t.d. getur hjúkrunarheimili í einu sveitarfélagi verið viðkvæmt fyrir bilun í raforkukerfi vegna þess að það hefur gamla varaaflsstöð með mikla rekstraróvissu og litlar eldsneytisbirgðir en hjúkrunarheimili í öðru sveitarfélagi getur verið minna viðkvæmt fyrir bilun í raforkukerfinu, vegna þess að það hefur nýtt varaafl og áætlanir um áfyllingu eldsneytis.

Samfélagslega mikilvæg verkefni: Verkefni sem samfélagið verður að halda til að tryggja öryggi íbúanna eru sögð samfélagslega mikilvæg en undir þau flokkast atriði sem varða grunnþarfir íbúanna. Matur, drykkur, upphitun og heilbrigðisþjónusta eru dæmi um slík verkefni. Þessi þjónusta verður að vera undir það búin að takast á við áföll og geta ráðið við margar mismunandi gerðir atvika. Brestir í samfélagslega mikilvægum verkefnum geta magnað afleiðingar atburðar og skapað afleidd atvik sem síðan hafa nýjar afleiðingar (t.d. rafmagnsleysi vegna óveðurs). Í þessu felast bæði ómissandi innviðir og ómissandi grunnþjónusta.

Greining á áhættu og áfallaþoli felst því í mati á eftirfarandi þáttum:

1)     hugsanleg óæskileg atvik

2)     líkur á óæskilegu atviki

3)     viðkvæmni í kerfum sem hafa áhrif á líkur og afleiðingar

4)     hugsanlegar afleiðingar sem atvikið kann að hafa

5)     óvissa sem fylgir matinu

·   þ.e. meta þarf hversu góð þekking er á atvikum eða fyrirbærum

Í framsetningu á áhættu og viðkvæmni er mikilvægt að draga fram hvað liggur að baki vísbendingum um líkur og afleiðingar, auk þess að draga fram óvissuna sem fylgir því mati. Hvað fær einstakling til að trúa á ákveðna yfirlýsingu um líkur? Af hverju trúir viðkomandi að afleiðingarnar verði eins og þeim er lýst? Hvaða þættir hafa áhrif á líkurnar, afleiðingarnar og óvissuna?

Áþreifanlegar og rökstuddar áhættu- og viðkvæmnilýsingar, sem fela einnig í sér mat á því hversu góð þekking liggur að baki, veita góðan grundvöll fyrir ákvarðanir um aðgerðir til að draga úr áhættu og viðkvæmni.

Mikilvægum hlutum greiningar á áhættu- og viðkvæmni er hægt að lýsa með svokallaðri slaufu­skýringar­mynd, sjá Mynd 2.

 

Mynd 2: Dæmi um slaufuskýringarmynd með upphaf í óæskilega atvikinu „Skriða nærri íbúðahverfi“

Í miðri myndinni er óæskilega atvikið skriða nærri íbúðabyggð. Vinstra megin eru mögulegar orsakir sem geta valdið því óæskilega atvikið eigi sér stað. Hér eru einnig skráðar hindranir (forvarnir/ráðstafanir) til að koma í veg fyrir að óæskileg atvik gerist (aðgerðir sem draga úr líkum). Til hægri við óæskilega atvikið eru mögulegar afleiðingar fyrir mismunandi verðmæti, t.d. líf og heilsu, stöðugleika, umhverfi og efnahagsleg verðmæti. Hér eru einnig hindranir (forvarnir/ráðstafanir) sem draga úr afleiðingum (aðgerðir sem draga úr afleiðingum).

Ýmsir þættir hafa áhrif á líkurnar á því að óæskilegt atvik eigi sér stað, hversu vel aðgerðirnar virka og hversu miklar afleiðingarnar verða. Slíkir þættir geta verið sérkenni sveitarfélags í heild eða afmarkaðra svæða í tilteknu sveitarfélagi, sem þýðir að afleiðingar atviks verða aðrar en í öðrum sveitarfélögum. Sérkenni geta einnig tengst byggðamynstri, innviðum, landslagi, jarðfræði og skipulagi. Mikilvægt er að kortleggja slíka þætti til að geta sagt til um hversu viðkvæmt sveitarfélagið er.

2.3.    Hvað er greining á áhættu og áfallaþoli?

Greiningar á áhættu og áfallaþoli eru gerðar á mismunandi stigum og fyrir mismunandi fyrirtæki og starfsemi. Innan tiltekinna sviða eins og heilbrigðis-, bruna-, byggingar- og skipulagsmála eru kröfur um sérstakar greiningar á áhættu í lögum eða reglugerðum. Einstökum ráðuneytum og undirstofnunum þeirra er gert að gera áhættugreiningar og meta viðkvæmni fyrir sitt starfssvið. Að auki eru greiningar á áhættu- og viðkvæmni gerðar af t.d. innviðaeigendum í héraði og iðnfyrirtækjum sjá Mynd 3).

Leiðbeiningarnar fjalla um greiningu á áhættu og áfallaþoli fyrir sveitarfélög. Sá fjöldi verkefna sem sveitarfélag sinnir gera það að verkum að nauðsynlegt er að hafa heildstætt sjónarhorn á greininguna. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að greiningar á áhættu og áfallaþoli séu gerðar án þess að taka tillit til þess og fjalla um að atriði séu innbyrðis háð hvert öðru. Greining á áhættu og áfallaþoli þarf jafnframt að gera sýnilegt hversu mikilvægu hlutverki sveitarfélag gegnir við samhæfingu og samstarf við ytri aðila ásamt því að draga fram ábyrgð sveitarfélagsins á samfélagslega mikilvægum verkefnum þvert á fagsvið innan þess.

Niðurstöður úr greiningu á áhættu og áfallaþoli hjá ráðuneytum og ríkisstofnunum sem og hjá ýmsum stofnunum tiltekins sveitarfélags eru hluti af þeim gögnum sem nota þarf við gerð greiningar á áhættu og áfallaþoli sveitarfélagsins. Á sama hátt eru greiningar á áhættu og áfallaþoli sveitarfélagsins gögn sem styðja við gerð slíkra greininga hjá öðrum, bæði opinberum aðilum og einkaaðilum.

STJÓRNSÝSLUSTIG

OPINBER STJÓRNSÝSLA

AÐRIR

Ríki

Greining hættusviðsmynda m.t.t. öryggis samfélagsins og almennings (þ.e. ráðuneyti og stofnanir)

 

Ráðuneyti og stofnanir

Greining á áhættu og áfallaþoli

 

Lögregluumdæmi/ Almannavarnaumdæmi

Greining á áhættu og áfallaþoli fyrir umdæmi

 

Sveitarfélög

Greining á áhættu og áfallaþoli fyrir sveitarfélag

 

Fagsvið/starfsemi

Ýmsar lögbundnar greiningar á áhættu varða t.d.:

·       Starfsemi sveitarfélagsins

·       Drykkjarvatn, heilbrigðismál og brunavarnir

·       Skipulags og byggingarmál, hitaveitur

·       Upplýsingakerfi og persónuvernd

Ýmsar lögbundnar greiningar á áhættu varða t.d.:

·       Rafmagnsframleiðendur og dreifendur

·       Samgöngur (á landi, á sjó og í lofti)

·       Hættuleg efni (sérstaklega stórslysa-fyrirtækin/Seveso[2])

·       Samfélagslega mikilvæg starfsemi

Mynd 3: Greining á áhættu og áfallaþoli á mismunandi stjórnsýslustigum

Í greiningu á áhættu og áfallaþoli þarf að skoða eftirfarandi tegundir óæskilegra atvika:

·       atvik sem nær yfir fleiri en eitt ábyrgðarsvið svo að þörf er á samhæfingu

·       atvik sem er stærra en viðbúnaður vegna daglegra verkefna ræður við

·       atvik sem veldur hræðslu eða áhyggjum hjá hinum almenna borgara

 

Í lögum og reglugerðum um starfsemi sveitarfélaga kemur fram að heildarmarkmið með viðbúnaðarstarfi sveitarfélaga er að standa vörð um öryggi borgaranna. Hvernig er hægt að skilgreina öryggi og öryggiskennd borgaranna? Hvaða verðmæti þarf að vernda? Í þessum leiðbeiningum er þessu lýst með fjórum flokkum samfélagslegra verðmæta og tilheyrandi flokkum afleiðinga, sbr. Töflu 1.

 

Verðmæti

Afleiðingar

Líf og heilsa

Fjöldi látinna

Fjöldi slasaðra eða veikra

Stöðugleiki

Óuppfylltar grunnþarfir

Truflanir á daglegu lífi.

Náttúra og umhverfi

Varanlegur skaði á náttúru/umhverfi

Varanlegur skaði á menningarverðmætum, -starfsemi eða –minjum

Efnahagsleg verðmæti

Efnahagslegt tjón

Tafla 1: Verðmæti í samfélaginu og flokkar afleiðinga

 

Lögð er áhersla á að meta sérstakar áskoranir sem tengjast samfélagslega mikilvægum verkefnum og tapi á mikilvægum innviðum. Að auki þarf sveitarfélag að meta eigin getu til að viðhalda starfsemi sinni þegar það verður fyrir óæskilegu atviki sem og getu til að endurreisa starfsemi sína eftir að atvikið hefur átt sér stað. Til þess að fá sýn á það, þarf greiningin á áhættu og áfallaþoli að fela í sér mat á viðkvæmni sem tengist samfélagslega mikilvægum verkefnum og tapi á mikilvægum innviðum.

Í Töflu 2 er að finna yfirlit yfir samfélagslega mikilvæg verkefni sem byggist á erlendum rannsóknum á öryggi mikilvægra innviða. Listinn er lagaður að sveitarstjórnarstigi en í greiningu á áhættu og áfallaþoli verður að meta hvort þessi samfélagslega mikilvægu verkefni séu mikilvæg og lýsandi fyrir viðeigandi sveitarfélag.


 

 

Samfélagslega mikilvæg verkefni

1.      Dreifing matvæla og lyfja

2.      Uppfylling þarfa um húsaskjól og hita

3.      Dreifing orku

4.      Dreifing eldsneytis

5.      Aðgengi að samskiptum (sími og net)

6.      Vatnveita og frárennsli

7.      Samgöngur (fólk og vöruflutningar)

8.      Þjónusta við viðkvæma hópa[3]

9.      Heilbrigðismál og félagsþjónusta

10.    Brunavarnir, löggæsla og aðrir viðbragðsaðilar

11.    Neyðarstjórn sveitarfélags

Tafla 2: Samfélagslega mikilvæg verkefni í sveitarfélagi


 

3.  Greining á áhættu og áfallaþoli skref fyrir skref

 

 

Það eru til mismunandi verklagsreglur og staðlar um hvernig hægt er að framkvæma greiningu á áhættu og áfallaþoli (t.d. NS 5814: 2008 og ISO 31000: 2009). Helstu hlutar ferlisins eru tiltölulega svipaðir í flestum stöðlum og leiðbeiningum, með skiptingu í áfangana: skipulag, innleiðing og eftirfylgni. Í leiðbeiningunum er þessari uppbyggingu fylgt (sjá Mynd 4) en jafnframt var áhersla lögð á að leiðbeiningarnar væru lagaðar að væntingum til sveitarfélaga sem settar eru fram í lögum og reglugerðum og að þær væru hafðar að leiðarljósi við gerð leiðbeininganna.

Diagram

Description automatically generated

Mynd 4: Helstu skref í greiningu á áhættu og áfallaþoli


 

Helstu áföngum er skipt í eftirfarandi skref:

1.Skipulagning og undirbúningur

a)  Greining skipulögð og fest í sessi

b)  Skilgreining á markmiði, afmörkun, aðferð og ferli (við greiningu)

c)  Söfnun upplýsinga og lýsing á sveitarfélagi

2.Framkvæmd greiningar á áhættu og áfallaþoli

a)  Kennsl borin á óæskileg atvik

b) Mat á áhættu og viðkvæmni vegna óæskilegra atvika

c)  Kynning á þeirri sviðsmynd sem dregin er fram í greiningu á áhættu og áfallaþoli

d) Tillögur að eftirfylgni

e)  Skýrsla

3. Eftirfylgni í sveitarfélaginu

a)  Framkvæmdaáætlun

b)  Markmið, aðferðir og forgangsröðun

c)  Aðgerðir til eftirfylgni og þróunar

d)  Samþætting á vinnu við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað við áætlanir og ferla í samræmi við skipulags- og mannvirkjalög

Hér á eftir verður því lýst og gefin dæmi um hvernig hægt er að framkvæma hvert skref.

3.1.    Skipulagning og undirbúningur

Þegar sveitarfélag hyggst hefja vinnu við greiningu á áhættu og áfallaþoli er undirbúningur og skipulagning mikilvæg. Mynd 5 sýnir mismunandi skref í þeim áfanga sem snýr að skipulagi.

3.1.1.    Greining skipulögð og fest í sessi

Vinnu við greiningu á áhættu og áfallaþoli ætti að skipuleggja sem verkefni með vinnuhópi, verkefnastjóra og stýrihópi. Eins og í öllum öðrum verkefnum viðeigandi sveitarfélags, skiptir miklu máli að sveitarfélagið eigi verkefnið og að það sé fest í sessi í stjórnskipulagi þess.

Greining á áhættu og áfallaþoli er fest í sessi í stjórnsýslu og sveitarstjórn sveitarfélagsins til að tryggja að einhver eigi verkefnið og beri ábyrgð á framkvæmd, árangri og eftirfylgni greiningarinnar. Greining á áhættu og áfallaþoli þarf að vera fest í sessi í sveitarstjórn. Við mælum með því að sveitarstjórn komi að gang­setn­ingu, kynningu á niðurstöðum úr greiningu og eftirfylgni hennar.

Fulltrúar frá stjórnendum sveitarfélags þurfa að skipa stýrihóp verkefnisins og fylgjast vel með starfinu. Til að tryggja að þekkingin sem verður til í greiningarvinnunni haldist í sveitarfélaginu er mikilvægt að starfsmenn sveitarfélagsins taki þátt í verkefninu.

Vinnuhópurinn þarf að vera þverfaglegur til að tryggja breiða þekkingu á starfsemi sveitarfélagsins og land­svæðinu. Einhverjir í vinnuhópnum þurfa að hafa sérþekkingu á greiningum á áhættu og áfallaþoli og reynslu af gerð þeirra. Auk þess þurfa einhverjir þeirra að hafa sérþekkingu á og reynslu af viðbúnaði og vinnu við að tryggja öryggi borgaranna. Þverfaglegur vinnuhópur leiðir líka til þess að ný þekking og aukinn áhættu­skilningur verður til, þvert á ábyrgðarsvið sveitarfélagsins.

Verkefnið er umfangsmikið og tekur til allrar starfsemi sveitarfélagsins. Það er því mikilvægt er að skýrt um­boð liggi fyrir (sjá Viðauka 3), þar sem tilgangur, afmörkun, auðlindir og framvinda eru tilgreind, sjá kafla  3.1.2.

Mælt er með að nokkur sveitarfélög taki höndum saman um að búa til greiningu á áhættu og áfallaþoli. Í nágrannasveitarfélögum eru oft sömu áskoranir en atvik í einu sveitarfélagi getur haft afleiðingar á annað. Oft vilja mörg sveitarfélög bjóða sömu utanaðkomandi aðilum að koma að greiningarferlinu og með því að taka höndum saman við undirbúning greiningarinnar verður nýting auðlinda skilvirkari. Slík samvinna getur einnig hjálpað sveitarfélögum að nýta sérþekkingu og auðlindir hvers annars. Hins vegar er nauðsynlegt að hvert sveitarfélag hafi eigin greiningu á áhættu og áfallaþoli sem lokaafurð.

Mynd 5 Skrefin í skipulagningu og undirbúningi greiningar á áhættu og áfallaþoli

3.1.2.    Skilgreining á tilgangi, afmörkun, aðferð og ferli

Sveitarfélag útbýr umboð með skýrt mótuðum tilgangi og afmörkun fyrir greiningu á áhættu og áfallaþoli. Það er gert til að tryggja að greiningin verði viðeigandi og gefi þau svör sem þarf til að taka góðar ákvarðanir. Umboðið er kynnt fyrir stýrihóp verkefnisins.

Það er hlutverk sveitarfélagsins að lýsa tilgangi greiningarinnar en greiningin verður að lágmarki að uppfylla eftirfarandi kröfur:

Lágmarkskröfur um innihald greiningar á áhættu og áfallaþoli:

a.             þættir sem varða áhættu og viðkvæmni í sveitarfélagi, núverandi og til framtíðar

b.            áhætta og viðkvæmni utan landsvæðis sveitarfélags sem getur haft þýðingu fyrir sveitarfélagið

c.             hvernig mismunandi þættir sem varða áhættu og viðkvæmni geta haft áhrif hver á annan

d.            sérstakar áskoranir í tengslum við samfélagslega mikilvæg verkefni og tap á mikilvægum innviðum

e.             hæfileiki sveitarfélags til að viðhalda starfsemi sinni þegar það verður fyrir óæskilegu atviki og geta til að endurreisa starfsemi sína eftir að atvik hefur átt sér stað

f.             þörf fyrir viðvörun til íbúa og rýmingu

Sveitarfélagið setur rammann og lýsir væntingum til greiningarinnar á áhættu og áfallaþoli.

Sem hluti af skipulagningu er ýmislegt sem þarf að skýra og ýmis verk sem vinnuhópurinn þarf að leysa, t.d.:

   val á verklagi

   flokkun samfélagslegra verðmæta með tilheyrandi tegundum afleiðinga, ásamt flokkun afleiðinga og líkinda (sjá Viðauka 2)

   greining samfélagslega mikilvægra verkefna (sjá Töflu 2)

   greining heimilda og ákvörðun um hverjar þeirra verða notaðar (sjá Viðauka 6)

   greining aðila, þ.e. bera kennsl á viðeigandi innri og ytri aðila

   greining aðgerða, þ.e. leggja mat á hvaða aðgerðir við framkvæmdina eru nauðsynlegar

Í greiningu á áhættu og áfallaþoli er mikilvægt að fá góða yfirsýn yfir áhættu og viðkvæmni. Ef þörf er á nákvæmari upplýsingum, þarf að fylgja greiningunni á áhættu og áfallaþoli eftir með nákvæmari greiningum. Greiningin skiptist í nokkra þætti sem sýndir eru á slaufuskýringar­mynd (sjá Mynd 7). Í kafla 3.2 er að finna útfærslu á greiningu á áhættu og áfallaþoli.

Þegar greiningar á áhættu og viðkvæmni eru gerðar, hafa margar ákvarðanir áhrif á niðurstöðu greiningar­innar. Þetta geta verið ákvarðanir um hvaða atvik eiga að vera með í greiningunni, hvaða verðmæti í sam­félaginu eru skoðuð, tegundir afleiðinga og hvaða samfélagslega mikilvægu verkefni eigi að skoða.

Í þessum leiðbeiningum er ekki lagt til að notaðar séu viðmiðanir um álagsmörk[4]. Þeir sem taka þátt í greiningarferli, geta auðveldlega litið á slík fyrir fram ákvörðuð álagsmörk sem formleg viðmið og það takmarkar góðar umræður um það hvaða áhætta og viðkvæmni er samþykkjanleg, bæði í vinnuhópnum og hjá stjórnendum sveitarfélagsins og sveitarstjórn. Á sama tíma er mikilvægt að öryggiskröfum í ýmsum lögum og/eða reglugerðum sé fylgt.

Vinnuhópurinn verður að huga að því hvaða innri og ytri aðilum er mikilvægt að bjóða til verksins og hvenær í ferlinu sé rétt að taka þá með en t.d. geta innri aðilar tekið þátt í upphafi og utanaðkomandi aðilar geta tekið þátt síðar.

Í sveitarfélögum þar sem neyðarstjórn hefur verið sett saman þarf sú stjórn að taka þátt í starfinu.

Vinnuhópurinn verður einnig að skipuleggja aðra starfsemi, t.d.:

   stöðuuppfærslur fyrir stýrihóp

   fjöldi funda og umræðuefni á þeim

   samráðslota fyrir greiningu og skýrslu

   kynning á niðurstöðum og tillaga að framkvæmdaáætlun fyrir stjórnendur tiltekins sveitarfélags

3.1.3.    Söfnun upplýsinga og lýsing á sveitarfélagi

Hluti af undirbúningi er að afla grunnupplýsinga um viðeigandi sveitarfélag en upplýsingarnar fást t.d. úr:

   greiningum á áhættu og áfallaþoli fyrir fyrirtæki/ábyrgðarsvið í sveitarfélaginu

   greiningum á áhættu og áfallaþoli frá stofnunum ásamt kortagögnum frá fagstofnunum

·    t.d. kort sem sýna snjóflóðahættu og flóðasvæði

   úttektum og öðrum skýrslum um atvik í fortíðinni sem hafa haft miklar afleiðingar

   skýrslum úr eftirliti og frá æfingum

   ytri greiningum á samfélagslega mikilvægum verkefnum

   áhættumati á landsvísu

·    t.d. greiningar á áhættu og áfallaþoli frá ráðuneytum og stofnunum

   rannsóknarskýrslum

   samskiptum og samstarfi við viðeigandi aðila

Fagstofnanir ríkisins birta fjölda stafrænna korta sem einnig veita mikilvægar upplýsingar:

   kort sem veita yfirlit yfir svæði þar sem hætta getur verið á atvikum

   kort sem stuðla að yfirliti yfir mögulegar afleiðingar atviks

   kort sem sýna fyrri atvik

 

Oft þarf að skoða þessar upplýsingar saman svo hægt sé að meta atvik sem hugsanlega gerast samhliða eða eru afleiðingar af öðrum atvikum og afleiðingum þeirra.

 

Í Viðauka 6 er að finna tilvísanir í mikilvæg kortagögn og ýmsar aðrar uppsprettur upplýsinga.

Vinnuhópurinn útbýr lýsingu á eiginleikum og aðstæðum sem einkenna tiltekið sveitarfélag og varða öryggi borgaranna en lýsingin er byggð á framangreindum upplýsingum og almennri þekkingu um sveitarfélagið, t.d.:

   ástand, kennimerki og náttúrulegar aðstæður

   aðstæður í samfélaginu; félagslegar, lýðfræðilegar og efnahagslegar aðstæður

   samgöngur (vegir, línur, loft, sjór)

   fyrirtæki, viðskipti, iðnaður, ferðaþjónusta

   samfélagslega mikilvæg verkefni og innviðir

   áætlanir um framtíðarþróun

   loftslag framtíðar og áhrif loftslagsbreytinga

Í Viðauka 4 má sjádæmi um hver einkenni sveitarfélaga geta verið.

Lýsing á sveitarfélagi þarf að innihalda ýmsar upplýsingar um sérstök skilyrði:

 

   náttúrufar, atvinnulíf og samfélagsþætti sem geta haft í för með sér hættu á óæskilegum atvikum

   atriði sem gera samfélagið viðkvæmt fyrir óæskileg atvikum

   atriði sem geta skapað áskorun við að takast á við óæskileg atvik

Sérstök skilyrði í sveitarfélagi geta t.d. verið:

   svæði þar sem er hætta á flóðum eða skriðuföllum nálægt íbúðabyggð

   fyrirtæki sem flytja, nota eða geyma hættuleg efni og eru nálægt skólum eða leikskólum

   viðburðir og ferðaþjónusta byggð á mismunandi starfsemi

   byggð með aðeins eina vegtengingu

   svæði með marga íbúa sem þurfa á umönnun að halda

Með því að útbúa lýsingu á sveitarfélaginu fær vinnuhópurinn yfirlit yfir hvaða hæfni og þekkingu þarf til að framkvæma sjálfa greininguna og hvaða aðilar þurfa að koma að henni. Lýsingin þarf að vera hluti af skýrslunni sem skjalfestir greininguna á áhættu og áfallaþoli.

3.2.   Framkvæmd greiningar á áhættu og áfallaþoli

Þegar lýsingin sem fjallað er um í kafla 3.1.3 hefur verið unnin, tekur vinna við raunverulega framkvæmd greiningarinnar við. Mynd 6 sýnir skrefin í framkvæmd greiningar á áhættu og áfallaþoli.

3.2.1.    Greining óæskilegra atvika

Mikilvægur þáttur í greiningu á áhættu og áfallaþoli er að bera kennsl á hvaða óæskilegu atvik geta komið fyrir. Misjafnt er eftir aðstæðum hvort og þá hvaða óæskilegu atvik geta haft áhrif á einstök sveitarfélög.

Til að greiningin verði eins yfirskipuð og hægt er, eru eftirfarandi forsendur notaðar til að velja atvik:

   atvik sem getur haft miklar afleiðingar

   atvik sem nær yfir fleiri en eitt ábyrgðarsvið svo að þörf er á samhæfingu

   atvik sem er stærra en svo að viðbúnaður vegna daglegra verkefna ráði við það

   atvik sem veldur hræðslu eða áhyggjum hjá hinum almenna borgara

Vinnuhópurinn notar lýsinguna á sveitarfélaginu sem grunn til að bera kennsl á óæskileg atvik sem skipta máli fyrir sveitarfélagið. Dæmi um óæskileg atvik eru gefin í Viðauka 5. Dæmalistinn er gagnlegt tæki til að hefja umræður en hann er ekki lausn á því hvaða óæskilegu atvik vinnuhópurinn þarf að íhuga. Hvert sveitarfélag fyrir sig þarf að finna sína lausn á því hvaða atvik eiga við.

Dæmalistinn skiptist í þrjár gerðir af atvikum:

   náttúruleg atvik

   stór slys

   viljaverk

Mynd 6: Hin ýmsu skref í framkvæmd greiningar á áhættu og áfallaþoli

Náttúruleg atvik, stór slys og atvik af ásetningi eru óæskileg atvik sem geta haft bein áhrif á líf og heilsu, stöðugleika, umhverfi og efnisleg gildi. Einnig geta þau haft óbeina þýðingu vegna bilunar í samfélagslega mikilvægum verkefnum. Dæmi um náttúruleg atvik geta verið óveður, eldgos, jarðskjálftar, flóð, skriður og heimsfaraldrar en dæmi um stór slys eru t.d. sprengingar, samgönguslys og losun eitraðra lofttegunda eða annarra efna.

Truflanir eða rof á samfélagslega mikilvægum verkefnum og innviðum getur annað hvort átt sér stað sem afleiðing af öðru óæskilegu atviki (t.d. náttúrulegu atviki, slysi eða viljaverki), en það getur einnig verið vegna beinnar bilunar í samfélagslega verkefninu eða innviðunum. Sem dæmi má nefna rof á rafstreng til eyju eða truflanir í vatnsveitu vegna tæknilegrar bilunar við geislun vatnsins. Þessi atvik eru á gátlistanum sem stór slys.

Viljaverk eru óæskileg atvik af völdum aðila sem hafa sem ásetning að valda skaða og tjóni, svo sem árás í skóla eða skemmdarverk á mikilvægum innviðum. 

Vinnuhópurinn ber ábyrgð á að greina óæskileg atvik. Í þessum áfanga er þó skynsamlegt að bjóða öðrum aðilum að taka þátt í ferlinu. Viðeigandi aðilar geta verið:

   stjórnandi (eða stjórnendur) í neyðarstjórn sveitarfélagsins

   ýmis fagsvið í sveitarfélaginu:

·   slökkvilið

·   heilbrigðis-, félags- og velferðarþjónusta

·   umhverfis- og tæknisvið

·   menning

·   skipulags- og byggingamál

·   skóli og uppeldi

   önnur neyðarþjónusta

   fulltrúar frá samfélagslega mikilvægum verkefnum:

·   orkuveitur

·   vatnsveitur

·   samgöngur

·   fjarskipti/UT

·   hafnir

   fulltrúar annarra fyrirtækja og stofnana:

·   Almannavarnir

·   hættuleg iðnaður

·   stórir viðburðir (íþróttir, tónleikar, hátíðir)

·   eigendur uppistöðulóna

·   sjálfboðaliðasamtök

·   Matvælastofnun

·   Náttúrufræðistofnun Íslands

·   Orkustofnun

·   Veðurstofa Íslands

Aðkomu annarra aðila er hægt að nálgast á ýmsa vegu.

Hér eru tvær tillögur:

Valkostur 1:       Vinnuhópur stendur fyrir fundi með þátttakendum af ábyrgðarsviðum tiltekins sveitarfélags til að virkja starfsmenn og stjórnendur í umræðu um hverjar áskoranir sveitarfélagsins eru. Inntak fundarins er notað sem grunnur vinnuhópsins í frekari vinnu við að bera kennsl á óæskileg atvik.

Valkostur 2:       Vinnuhópur skipuleggur einn fund eða fleiri, bæði með innri og ytri aðilum, til að bera kennsl á óæskileg atvik.

Við skipulagningu slíkra funda verður vinnuhópurinn að hafa í huga:

   hvaða aðilum eigi að bjóða

   hve margir fundirnir eigi að vera

   hvernig setja eigi upp hvern fund; markmið, umræðuefni og skipulag umræðunnar

Fyrir sum sveitarfélög þarf nokkra fundi til að bera kennsl á óæskileg atvik en í öðrum sveitarfélögum framkvæmir vinnuhópurinn stóran hluta greiningarinnar á atvikum með framlögum frá innri aðilum sveitarfélagsins.

Eftirfarandi dagskrá gæti verið viðeigandi fyrir báða valkostina:

Dagskrá

1.         Kynning á greiningu á áhættu og áfallaþoli; bakgrunnur og tilgangur þess að bera kennsl á óæskileg atvik, aðferð og ferli

2.         Lýsing sveitarfélags; yfirferð á sérkennum sveitarfélags

3.         Greining á óæskilegum atvikum

a.         Yfirferð til að fá framlag frá þátttakendum

b.         Skipulögð yfirferð á gátlista til að greina önnur óæskileg atvik

4.         Yfirlit yfir greind óæskileg atvik og hvernig verður unnið áfram úr greiningunni

Eftir hvern fund dregur vinnuhópur saman, flokkar og gengur frá þeim óæskilegu atvikum sem hafa verið greind. Fjöldi valinna atvika er breytilegur milli sveitarfélaga eftir aðstæðum á hverjum stað.

Verði að takmarka fjölda óæskilegra atvika sem á að vinna áfram með, geta eftirfarandi atriði verið grundvöllur forgangsröðunar:

        Er gert ráð fyrir mikilli áhættu?

·   Eru miklar líkur á atvikinu?

·   Hefði atvikið miklar afleiðingar?

        Hversu dæmigert er atvikið?

·   Getur atvikið verið einskonar fulltrúi nokkurra svipaðra atvika í tilteknu sveitarfélagi?

Engu að síður þarf að taka allan listann yfir tilgreind óæskileg atvik með í skýrsluna ásamt stuttri skýringu á því hvers vegna sum þeirra eru ekki með í greiningunni á áhættu og áfallaþoli.

3.2.2.    Greining á áhættu og áfallaþoli vegna óæskilegra atvika

Við framkvæmd greiningu á áhættu og áfallaþoli þarf vinnuhópurinn að gera áhættumat og greina viðkvæmni þeirra óæskilegu atvika sem valin hafa verið til að halda áfram með. Óháð því hvaða aðferð er valin til að gera þetta, verður vinnuhópurinn að sjá til þess að viðeigandi innri og ytri aðilum sé boðið að taka þátt í vinnunni.

Tillögur að viðeigandi aðilum er að finna í kafla 3.2.1.

Hér eru tvær tillögur:

Valkostur 1:       Vinnuhópur getur unnið greiningu á áhættu og áfallaþoli á einum eða fleiri fundum. Nauðsynlegum bakgrunnsupplýsingum fyrir þá fundi er aflað á minni fundum eða með samtölum við viðeigandi innri og ytri aðila.

Valkostur 2:       Greining á áhættu og áfallaþoli er unnin á einum eða fleiri fundum sem vinnuhópur tekur þátt í ásamt viðeigandi innri og ytri aðilum.

Óháð því hvort annar hvor þessara valkosta eða einhver annar kostur er valinn, er skynsamlegt að skipuleggja fundi með tilliti til hvers konar hæfni þarf og/eða hvaða aðila þurfa að taka þátt. Skipting í tegundir atvika eins og náttúruleg atvik, stór slys og viljaverk getur verið útgangspunktur fyrir slíkt skipulag. Markmiðið er að vinnuhópurinn hafi safnað nægilegri þekkingu til að skilja og lýsa atburðarásinni og til að meta áhættu og viðkvæmni.

Í áhættumati er mat lagt á hvaða atvik geti átt sér stað, hverjar líkurnar eru á að þau gerist og hverjar afleiðingar sem þessi atvik geta haft væru. Mat á viðkvæmni tekur útgangspunkt í þeim kerfum sem verða fyrir tilteknu atviki (þ.e. álagi) en kerfin geta verið tæknileg undirkerfi (t.d. innviðir) eða stærri skipulagseiningar (t.d. sveitarfélag). Mat á viðkvæmni þarf að segja til um hversu vel kerfin þola álag og hver geta þeirra er til að endurreisa starfsemi sína; hvað þola þau og hvenær bregðast þau? Eiginleikar tiltekins atviks sem og eiginleikar tiltekins kerfis hafa áhrif á hverjar líkurnar eru á að óæskilegt atvik eigi sér stað og hverjar afleiðingar þess verða, ef það á sér stað. Sjá Mynd 7.

Diagram

Description automatically generated

Mynd 7: Slaufuskýringarmynd (e. Bow-Tie Diagram)

Þessi slaufuskýringarmynd sýnir innihald áhættu- og viðkvæmnigreiningar. Vinstri hliðin sýnir hvað hefur áhrif á líkur þess að óæskilegt atvik eigi sér stað en hægri hliðin sýnir hvað hefur áhrif á afleiðingar atviksins. Báðar hliðarnar snúast um viðkvæmni og hvaða hindranir (þ.e. forvarnir og ráðstafanir) hafa verið settar upp. Óvissuþættir varða bæði það hvort tiltekið atvik eigi sér stað og hverjar afleiðingar þess yrðu.

Flókin atvik reyna einna mest á sveitarfélag og oft fer það eftir atburðarás hverjar afleiðingarnar verða. Eftir því sem við á, þarf mat að fela í sér samhliða atviki (t.d. óveður og eldsvoða) og afleidd atvik (t.d. skriður vegna flóða eða rafmagnsleysi vegna óveðurs).

Á Mynd 8 er að finna dæmi um keðju óæskilegra atvika. en þar er óveður kveikjan að atviki sem leiðir til rafmagnsleysis sem aftur getur leitt til annars afleidds atviks: bilunar í hreinsistöð (geislun vatns). Oft er fyrst lagt mat á upphafsatvikið (t.d. flóð, óveður eða slys) til að bera kennsl á mögulegar afleiðingar, þ.á m. bilanir. Þá er hægt að gera mat á viðkvæmni á þeim bilunum. Hver bilun verður síðan að nýju óæskilegu atviki og er metin á sama hátt og upphaflega atvikið. Eitt af mikilvægustu afleiddu atvikunum sem meta þarf er truflun á orkuafhendingu þar sem slíkt getur haft miklar afleiðingar fyrir önnur samfélagslega mikilvæg verkefni.

Tilgangur mats á viðkvæmni er að skilja flækjustig í óæskilegum atvikum. Ef atvik leiðir til misbrests í samfélagslega mikilvægu verkefni, getur það haft frekari þróun atviksins í för með sér sem hefur aftur enn frekari afleiðingar í för með sér auk þeirra beinu afleiðinga sem atvikið hefur.

Mikilvægt er að greina hvar í viðburðakeðju sé best að nota auðlindir. Hvaða bilanir eða bresti tiltekið sveitarfélag vill greina nánar, fer eftir því hvað sveitarfélagið telur vera mikilvægast, á hverju sveitarfélagið þarfnast meiri þekkingar og hvað sveitarfélagið getur haft áhrif á.

Fyrir hvert óæskilegt atvik er gerð lýsing á:

   atburðarás

   orsökum

   greiningu á núverandi ráðstöfunum/forvörnum

   líkum

   viðkvæmni

   afleiðingum

   þörfum fyrir viðvörun og rýmingu

   óvissu

   hve mikið sé hægt að stýra tiltekinni atburðarás

   tillögum að nýjum ráðstöfunum og úrbótum á núverandi ráðstöfunum

   því hvort hægt sé að yfirfæra tiltekið atvik á sambærilegar aðstæður annars staðar í viðeigandi sveitarfélagi

Mat á líkum, viðkvæmni og afleiðingum er ferli þar sem nýir þættir geta komið fram meðan á vinnunni stendur sem leiða til þess að leiðrétta verður atriði sem áður hafa komið fram.

Mikilvægt er að vinnuhópurinn einbeiti sér ekki aðeins að einu tilteknu atviki á einu tilteknu svæði í sveitarfélagi, heldur meti hvort svipuð atvik geti átt sér stað annars staðar í sveitarfélaginu þ.e. hvort hægt sé að yfirfæra atvikið á sambærilegar aðstæður annars staðar í sveitarfélaginu.

Mat á hverju óæskilegu atviki fyrir sig er skjalfest á eyðublaði. Eyðublaðið er að finna hér á Mynd 9. Ferlið og notkun eyðublaðsins er útskýrt með dæmi.

Graphical user interface, application, chat or text message

Description automatically generated

Mynd 8: Keðja óæskilegra atvika


 

Nr.                              ÁHÆTTUÞÁTTUR (ÓÆSKILEGT ATVIK)

 

Lýsing á áhættuþætti (óæskilegu atviki) og aðstæðum

 

ORSAKIR

 

 

 

SKILGREINDAR FORVARNIR (HINDRANIR EÐA AÐRAR RÁÐSTAFANIR SEM ÞEGAR ERU TIL STAÐAR)

 

 

 

LÍKUR

A

B

C

D

E

Skýring

 

 

 

 

 

 

 

Rökstuðningur á líkum

MAT Á VIÐKVÆMNI

 

MAT Á AFLEIÐINGUM

Verðmæti

Tegund afleiðingar

Vægi afleiðingar

Skýring

 

 

1

2

3

4

5

 

Líf og heilsa

Fjöldi látinna

 

 

 

 

 

 

Fjöldi slasaðra eða veikra

 

 

 

 

 

 

 

Óuppfylltar grunnþarfir

 

 

 

 

 

 

Truflanir á daglegu lífi

 

 

 

 

 

 

 

Varanlegur skaði á náttúru/umhverfi

 

 

 

 

 

 

Varanlegur skaði á menningarverðmætum,
-starfsemi eða -minjum

 

 

 

 

 

 

 

Efnahagslegt tjón

 

 

 

 

 

 

Samandreginn rökstuðningur á afleiðingum

Þörf fyrir viðvörunum til almennings

 

Þörf fyrir rýmingu

 

Óvissa

Rökstuðningur

Er hægt að hafa stjórn á áhættuþættinum
(litla, meðal- eða mikla)

Rökstuðningur

Tillögur að forvörnum/aðgerðum til að hafa stjórn á áhættuþættinum (óæskilega atvikinu)

Er hægt að yfirfæra atvikið á sambærilegar aðstæður annars staðar í sveitarfélaginu (framseljanleiki)?

Mynd 9: Eyðublað – greining á áhættu og áfallaþoli

Lýsingar á einstökum reitum eyðublaðsins

Nr.:

Hver áhættuþáttur/óæskilegt atvik fær einkvæmt númer í vefgátt Almannavarna en það númer er síðar t.d. hægt að nota til að kynna niðurstöður matsins.

Lýsing á óæskilegu atviki og staðháttum:

Gefið atvikinu nafn. Nafnið verður að lýsa tilteknu atviki, svo sem flóði í Litlalæk sem hefur áhrif á Útibæ, skriða í íbúðahverfinu Séstvarlahverfi eða rútuslys í Ljós­lausugöngunum.

Gefið síðan nákvæma lýsingu á atvikinu og svæðinu þar sem það á sér stað, þ.m.t. samfélagslega mikilvæg verkefni og innviði. Þessi lýsing segir til um landfræðilega staðsetningu atviks, hvenær það gerist, hversu lengi það varir og hvaða ráðstafanir hafa þegar verið gerðar vegna þessarar tegundar atvika. Einnig þarf að lýsa ein­kennum sveitarfélagsins sem geta haft áhrif á gang mála.

Dæmi um lýsingu á óæskilegu atviki „Skriða í Séstvarlahverfi“:

Nr.                    ÁHÆTTUÞÁTTUR (ÓÆSKILEGT ATVIK):

3                      Skriða í Séstvarlahverfi

Lýsing á áhættuþætti (óæskilegu atviki) og aðstæðum

Í lok maí fellur stór skriða í Séstvarlahverfi. Íbúðasvæðið samanstendur af u.þ.b. 20 húsum þar sem alls búa um 70 íbúar. Skriðan fellur um miðja nótt þegar flestir eru sofandi. Skriðan rífur háspennulínu til bæjarins. Þetta leiðir til rofs í orkudreifingu til stórra hluta sveitarfélagsins í 3-5 daga, þ.á m. til sjúkrahússins.

Leiðin að heilbrigðisstofnun staðarins liggur um Séstvarlahverfi. Hverfið er byggt undir fjallshlíð og við björg­unar­störfin daginn eftir fellur ný skriða. Lögreglunni hefur þá tekist að rýma hverfið; bæði íbúar og björg­unar­sveit­ar­menn eru farnir af staðnum þegar seinni skriðan fellur.

 

Orsakir

Tilgreinið mögulegar orsakir atviksins.

ÍbúðaDæmi um orsakir óæskilega atviksins „Skriða í Séstvarlahverfi“:

ORSAKIR

·       Rof

·       Framkvæmdir

·       Úrkoma

 

Greining á núverandi ráðstöfunum

Áður en líkur og afleiðingar eru ákvarðaðar er mikilvægt að núverandi forvarnir (hindranir eða aðrar ráðstafanir) séu kortlagðar og skjalfestar þannig að greiningin taki tillit til þeirra og meti ávinning af þeim sem og virkni þeirra.

Dæmi um greiningu á núverandi ráðstöfunum vegna óæskilega atviksins „Skriða í Séstvarlahverfi“:

SKILGREINDAR FORVARNIR (HINDRANIR EÐA AÐRAR RÁÐSTAFANIR SEM ÞEGAR ERU TIL STAÐAR)

·       Rýmingaráætlun

·       Ræsi/frárennsli vatns

 

Líkur

Hversu líklegt er að tiltekið óæskilegt atvik gerist? Í Viðauka 2 er að finna tillögur að flokkun sem segir til um líkindi (þ.e. svokallaðir líkindaflokkar). Hægt er að nota söguleg gögn og/eða slysatölfræði, ef slíkt er fyrir hendi, en oft er þó um sjaldgæf eða jafnvel einstök atvik að ræða þar sem lítið sem ekkert er til af gögnum. Hér getur staðbundin þekking og mat sérfræðinga verið góð hjálp ásamt eldra mati á áhættu og áfallaþoli. Rökstyðja þarf hvers vegna þessar líkur eru tilgreindar.

Mikilvægt er að líkur séu byggðar á þeirri atburðarás sem lýst er og taki tillit til fyrir­liggjandi ráðstafana sem komið hefur verið upp til að koma í veg fyrir óæskileg atvik. Skriður að einhverju leyti geta hugsanlega komið tiltölulega oft fyrir í sveitar­félaginu, en hugsanlega ekki sú sérstaka atburðarás sem lýst er í atvikinu „Skriða í Sést­varlahverfi".

Dæmi um mat á líkum fyrir óæskilega atvikið „Skriða í Séstvarlahverfi“:

LÍKUR

A

B

C

D

E

Skýring

 

 

X

 

 

 

Einu sinni á 100–1 000 árum ( 0,1 % – 1 %)

Rökstuðningur á líkum

Tölfræðilega er hægt að búast við 2-3 stórum skriðum á Íslandi næstu 100 árin en staðbundnar aðstæður á svæðinu leyfa notkun slíkrar tölfræði. Engin skriðuföll hafa orðið í íbúðahverfinu og engin kortlagning slíkra atvika hefur verið gerð á svæðinu. Engar ráðstafanir hafa þess vegna verið gerðar gegn skriðuföllum sem gætu dregið úr líkum.

 

Mat á viðkvæmni

 

Leggja verður mat á hvort samfélagslega mikilvæg verkefni verði fyrir áhrifum af tilteknu óæskilegu atviki og hversu viðkvæm verkefnin eru fyrir því.

Ef atvik leiðir til brests eða bilunar í einu eða fleiri samfélagslega mikilvægum verkefnum, getur það haft áhrif á afleiðingar atviksins og þá þarf að lýsa því. Einnig þarf að leggja mat á sérstakar áskoranir sem tengjast samfélagslega mikilvægum verkefnum (sjá Töflu 2), meta getu sveitarfélagsins til að takast á við tiltekið atvik, sem og viðhalda og endurreisa starfsemi eftir að tiltekinn atburður hefur átt sér stað.

Hjálparspurningar:

·        Hvaða samfélagslega mikilvægu verkefni hefur óæskilega atvikið áhrif á?

·        Hvaða samfélagslega mikilvægu verkefnum er sveitarfélagið háð til að geta tekist á við tiltekið óæskilegt atvik?

·        Hvaða afleiðingar hefur missir samfélagslega mikilvægra verkefna á eftirfar­andi:

·               önnur samfélagslega mikilvæg verkefni?

·                getu viðkomandi sveitarfélags til að takast á við tiltekið óæskilegt atvik, þ.m.t. getu sveitarfélagsins til að viðhalda og endurreisa starfsemi sína að nýju?

·               samfélagsleg verðmæti (sjá Töflu 1)?

Dæmi um mat á viðkvæmni óæskilega atviksins „Skriða í Séstvarlahverfi“:

MAT Á VIÐKVÆMNI

Skriðan leiðir til rofs í rafmagnsafhendingu í stórum hluta tiltekins sveitarfélags. Þetta hefur áhrif á íbúa sveitarfélagsins, starfsemi þess, sjúkrahúsið og stóra hluta atvinnulífsins.

Sveitarfélagið hefur nýlega fjárfest í varaafli og útbúið húsakynni í hjúkrunarheimilinu Áhyggjulaus þar sem neyðarstjórn sveitarfélagsins getur komið saman. Neyðarstjórnin flytur aðsetur sitt þangað. Bæði vatnsveitan og hjúkrunarheimilið hafa aðgang að varaafli. Hins vegar er óljóst hve lengi eldsneyti dugar fyrir rafstöðvarnar og engir samningar hafa verið gerðir um útvegun eldsneytis. Bensínstöðvar staðarins geta ekki útvegað eldsneyti á meðan rafmagnsleysið varir sökum þess að ekkert varaafl er fyrir eldsneytisdælurnar. Handvirkar dælur virka ekki og næsta bensínstöð er í u.þ.b. 60 km fjarlægð.

Fjarskiptanetið er með vararafhlöður fyrir fjögurra klst. rekstur eftir að rafmagnsleysið hefst. Farsímakerfið er undir of miklu álagi og aðgengi verður lélegt. Neyðarstjórnin hefur gervihnattasíma til afnota en afkastagetan er léleg. Sökum rafmagnsleysisins liggur vefsíða sveitarfélagsins niðri sem gerir sveitarfélaginu erfitt fyrir að eiga samskipti við íbúa sína.

Fjöldahjálparstöð sveitarfélagsins býður þeim sem þurfa að rýma húsnæði sitt gott húsaskjól, hlýju og fullnægjandi veitingar. Sálfélagslegt teymi sveitarfélagsins hefur verið virkjað og aðstoðar við­kvæma hópa í sveit­ar­fél­ag­inu.

Vegurinn að læknamiðstöðinni er lokaður vegna skriðufallsins og það svæði sem læknamiðstöðin er á er án rafmagns sem þýðir skert aðgengi og tækifæri til að bjóða upp á heilbrigðisþjónustu. Það tekur u.þ.b. viku að koma á bráðabirgðavegtengingu en á meðan mun læknamiðstöðin í nágrannasveitarfélaginu sem er í u.þ.b. 65 km fjarlægð veita íbúum þjónustu.

 

Mat á afleiðingum

 

Hægt er að skipta afleiðingum í fjóra flokka samfélagslegra verðmæta; líf og heilsa, stöðugleiki, náttúra og umhverfi og efnisleg verðmæti. Fyrir hvern flokk þessara samfélagslegu verðmæta má skilgreina tegundir afleiðinga. Vinnuhópur skilgreinir tegundir afleiðinga og flokkun þeirra fyrir hvern flokk samfélagslegra verðmæta og aðlagar að viðkomandi sveitarfélagi.

Í Viðauka 2 er að finna tillögur um tegundir afleiðinga og flokkun þeirra. Meta verður afleiðingar og rökstyðja þarf matið.

Bæði verður að líta á beinar og óbeinar afleiðingar tiltekins óæskilegs atviks. Beinar afleiðingar eiga sér stað vegna atviksins en óbeinar afleiðingar eiga sér stað vegna bresta eða bilana í samfélagslega mikilvægum verkefnum.

Dæmi um mat á afleiðingum fyrir óæskilega atvikið „Skriða í Séstvarlahverfi“:

MAT Á AFLEIÐINGUM

Verðmæti

Tegund afleiðingar

Vægi afleiðingar

Skýring

 

 

1

2

3

4

5

 

Líf og heilsa

Fjöldi látinna

 

 

 

x

 

6-10 látnir

Fjöldi slasaðra eða veikra

 

 

 

x

 

20-100 slasaðir

Stöðugleiki

Óuppfylltar grunnþarfir

 

 

 

 

 

 

Truflanir á daglegu lífi

 

 

 

 

x

>1000 verða fyrir áhrifum af atvikinu í 2-7 daga

Náttúra og umhverfi

Varanlegur skaði á náttúru/umhverfi

 

 

 

 

 

 

Varanlegur skaði á menningarverðmætum, -starfsemi eða –minjum

 

 

 

 

 

 

Efnisleg verðmæti

Efnahagslegt tjón

x

 

 

 

 

< 1.500 milljónir kr.

 

Samandreginn rökstuðningur á afleiðingum

Í Séstvarlahverfi eru 20 heimili með að hámarki 70 manns sem geta orðið fyrir skriðu. Talið er að færri 9  manns gætu farist og allt að tuttugu og fimm íbúar gætu slasast vegna atviksins. Þar sem rýming er hafin, er ólíklegt að fleiri líf tapist. Rof vegarins að læknamiðstöðinni er ekki talið hafa áhrif á afleiðingar á líf og heilsu þar sem hægt er að nota læknamiðstöð í nágrannasveitarfélagi. Skriðan leiddi til rafmagnsleysis í stór­um hluta sveitarfélagsins, þ.á m. í sjúkrahúsinu.

Rafmagnsleysið hefur ekki áhrif á líf og heilsu íbúa þar sem sjúkrahúsið hefur varaafl til neyðaraðgerða. Engir notendur heimaþjónustu staðarins eru háðir lækningatækjum.

Stöðugleiki: Jafnvel þó grunnþörfum sé fullnægt upplifa íbúar verulegar truflanir á daglegu lífi. Margir hafa þurft að rýma heimili sín og stórir hlutar sveitarfélagsins eru án rafmagns.

Skriðan veldur miklu tjóni á 5 húsum og minni skemmdum á 8 aðliggjandi eignum. Fjárhagslegt tap verður a.m.k. 300milljónir króna.

 

Þörf fyrir viðvaranir til almennings

Metið hvort óæskilega atvikið kalli á viðvörun til íbúa. Tilgangur viðvarana til íbúa er að draga úr afleiðingunum með því að ná fljótt til þeirra sem atburðurinn hefur áhrif á eða geta orðið fyrir honum. Dæmi um atvik sem kunna að leiða til viðvörunar til íbúa er hætta á stórri skriðu, eldur í sorpbrennslustöð með losun eitraðra lofttegunda, dreifing mengaðs neysluvatns og slys með tankbíll þar sem er hætta á sprengingu.

Dæmi um mat á þörf fyrir viðvaranir til almennings vegna óæskilega atviksins „Skriða í Séstvarlahverfi“:

Þörf fyrir viðvaranir til almennings

Íbúar í Séstvarlahverfi og nágrenni fá tilkynningu frá lögreglu og almannavarnarnefnd um að rýma svæðið eins fljótt og auðið er. Ekki er talið nauðsynlegt að útbúa áætlun um viðvörun til íbúa í tengslum við viðbragðsáætlunina.

 

Þörf fyrir rýmingu

Meta þarf hvort tiltekið óæskilegt atvik kalli á rýmingu og tilgreina þann fjölda fólks sem þarf að fara úr húsum sínum. Tilgangur rýmingar er að koma þeim sem í hlut eiga á öruggan stað og sjá þeim fyrir grunnþörfum. Dæmi um atvik sem geta leitt til rýmingar eru skriðu­föll nálægt íbúðabyggð, hjúkrunarheimili án rafmagns í langan tíma, viðvörun við miklum flóðum og slys með tankbíll þar sem er hætta á sprengingu.

Dæmi um mat á þörf fyrir rýmingu vegna óæskilega atviksins „Skriða í Séstvarlahverfi“:

Þörf fyrir rýmingu

Lögreglan hefur fyrirskipað rýmingu allra íbúa á svæðinu; alls 70 manns. Í viðbragðsáætlun hefur sveitarfélagið gert ráð fyrir viðbúnaði til að taka á móti þessum fjölda fólks sem þarf að rýma hús sín en hins vegar getur verið áskorun fyrir sveitarfélagið að sjá öllum fyrir veitingum.

 

Óvissa

Óvissan tengist því hvort — og þá hugsanlega hvenær — tiltekið óæskilegt atvik muni eiga sér stað og hverjar afleiðingar þess atburðar verða. Vísbending um óvissu snýr að þeirri þekkingu sem liggur til grundvallar fyrir mat á áhættu og viðkvæmni atviksins. Eru viðeigandi gögn og reynsla tiltæk? Er atvikið/náttúrufyrirbærið vel skilgreint? Eru þátttakendur sammála? Ef svarið er „nei“ við einni eða fleiri af þessum spurningum, er óvissan talin mikil.

Tilgangurinn með mati á óvissu er að gera þörf fyrir nýja eða aukna þekkingu á atvikinu/náttúrufyrirbærinu sýnilega eða varpa ljósi á þörf fyrir úrbætur. Í þessu felst einnig vitundarvakning á þeirri þekkingu sem liggur til grundvallar greiningunni, sjá Viðauka 2.

Dæmi um mat á þörf fyrir mat á óvissu vegna óæskilega atviksins „Skriða í Séstvarlahverfi“:

Óvissa

Mikil

Rökstuðningur

Skortur á þekkingu vegna þess að kortlagning á skriðum hefur ekki verið framkvæmd

Óvissa um ástand frárennslis

Óvissa um tímalengd rafmagnsleysis

Óvissa um afkastagetu varaafls og aðgang að eldsneyti til að halda varaafli gangandi

 

Er hægt að hafa stjórn á áhættuþættinum (óæskilega atvikinu)

Að hve miklu leyti getur tiltekið sveitarfélag stjórnað þeirri áhættu sem fylgir tilteknu atviki? Hversu auðvelt er að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem draga úr líkum á að atburð­ur­inn eigi sér stað? Hversu auðvelt er að hrinda í framkvæmd aðgerðum til að draga úr afleiðingum atviksins eða aðgerðum til að auka viðbúnað? Hægt að tilgreina getu sveitarfélagsins til að stjórna áhættu­þættinum með orðum eða forliðum eða eins og lítill, meðal- eða mikill; sjá Viðauka  2.

Tilgangurinn með mati á stjórnunarhæfni er að veita sveitarfélaginu viðbótartæki til að forgangsraða aðgerðum, Þetta er gert í því skyni að koma í veg fyrir óæskileg atvik, draga úr afleiðingum og efla viðbúnað fyrir frekari eftirfylgni. Með þessu fæst yfirsýn yfir það sem sveitarfélagið getur byrjað að vinna með til að ná árangri fljótt og hvað krefst lengri og tímafrekari ferla?

Dæmi um hvernig meta má þörf fyrir mat á því hvort hægt er að hafa stjórn á áhættuþættinum „Skriða í Séstvarlahverfi“:

Er hægt að hafa stjórn á áhættuþættinum (litla, meðal- eða mikla)

Mikla

Rökstuðningur

Nokkrum aðgerðum er hægt að hrinda í framkvæmd með ákvörðun innan tiltekins sveitarfélags.

 

Tillögur að forvörnum/aðgerðum til að hafa stjórn á áhættuþættinum (óæskilega atvikinu)

Í vinnu við greiningu á áhættu og áfallaþoli koma í ljós atriði við áðurgerðar ráðstafanir/forvarnir sem þarfnast úrbóta ásamt nýjum atriðum sem bregðast þarf við. Úrbæturnar geta haft áhrif á líkur, orsakir, viðkvæmni, afleiðingar og óvissu. Ef nauðsyn krefur verður einnig að huga að ráðstöfunum sem tengjast viðvörun til íbúa og rýmingu.

Dæmi um forvarnir/aðgerðir til að hafa stjórn á áhættuþættinum „Skriða í Séstvarlahverfi“:

Tillögur að forvörnum/aðgerðum til að hafa stjórn á áhættuþættinum (óæskilega atvikinu)

1.              Athuga rof sem getur komið af stað skriðufalli meðfram lækjum, frárennsli frá ræsum og þess háttar. Setja upp einfaldar rofvarnir til að stöðva áframhaldandi rof og koma á eftirliti með rofi og hreinsun á ræsum og niðurföllum til að koma í veg fyrir að vatn renni þar sem það skapar hættu.

2.              Setja af stað vinnu við endurskoðun deiliskipulags fyrir Séstvarlahverfi og önnur íbúðahverfi með sambærilegri skriðuhættu. Í vinnu við endurskoðun skipulags er gerð greining á áhættu og viðkvæmni og nauðsynlegar rannsóknir framkvæmdar. Svæðum þar sem skriðuhætta er uppgötvuð verður að fylgja eftir með flokkun svæða og tilheyrandi ákvörðunum sem banna íbúðabyggð og takmarkanir á öðrum framkvæmdum eins og jarðvinnu og uppfyllingu. Í þessari vinnu er einnig litið til þess hvort núverandi aðgerðir til að draga úr hættu á skriðum í Týndahverfi og Hvergilandi (sjá umræðu um framseljanleika hér á eftir) séu nægjanlegar.

3.              Tryggja þegar byggð svæði, þar sem hætta er á skriðu, til að koma í veg rof. Það er gert með varanlegum aðgerðum sem eru hannaðar af fagfólki.

4.              Upplýsa íbúa Séstvarlahverfis og annarra íbúðahverfa eins og við á um aðstæður, var­úðar­ráð-staf­anir og/eða takmarkanir á breytingum á eigin húsnæði og lóð.

5.              Styrkja verklag vegna jarðvinnu í útsettum íbúðahverfum.

6.              Meta aðra staðsetningu eða nýja vegtengingu fyrir læknamiðstöðina til að tryggja að vegtengingin að læknamiðstöðinni verði ekki rofin.

7.              Tryggja aðgang að mikilvægum úrræðum fyrir neyðarviðbúnað einnig í varahúsanæði neyðar­stjórn­arinnar.

8.              Tryggja framboð eldsneytis til varaafls sveitarfélagsins.

9.              Fara yfir rútínur heimaþjónustu til að tryggja að notendur hennar fái þá þjónustu sem þeir eru vanir að fá, einnig eftir að óæskileg atvik gerast.

10.            Meta aðgerðir til að efla samskipti við íbúa meðan á óæskilegum atvikum stendur.

11.            Meta hvort forgangur í farsímanetinu er nauðsyblegur og hvort þörf er á aðgerðum til að auka getu rafrænna samskipta fyrir neyðarstjórnina.

12.            Auka afkastagetu veitingarýmis í fjöldahjálparstöð sveitarfélagsins.

13.            Tryggja hæfni í yfirliti yfir bjargir og á útkallslista til að takast á við hættu á skriðuföllum.

14.            Fræða íbúa um eigin viðbúnað vegna rafmagnsleysis.

 

Er hægt að yfirfæra atvikið á sam­bærilegar að­stæður annars staðar í sveitar­félag­inu (framseljanleiki)?

Mikilvægt er að einbeita sér ekki aðeins að tilteknu atviki á einu tilteknu svæði sveitarfélagsins heldur einnig að huga að öðrum svæðum þar sem svipuð atvik geta átt sér stað en t.d. geta önnur íbúðahverfi í sveitarfélaginu orðið fyrir skriðuföllum.

 

Dæmi um tillögur að því hvernig hægt að yfirfæra atvikið á sambærilegar aðstæður annars staðar í sveitarfélaginu vegna atviksins „Skriða í Séstvarlahverfi“:

Er hægt að yfirfæra atvikið á sambærilegar aðstæður annars staðar í sveitarfélaginu (framseljanleiki)?

Nokkur önnur íbúðahverfi í sveitarfélaginu eru nálægt hlíðum þar sem skriður geta fallið, t.d. íbúðahverfin Týndahverfi og Hvergiland. Í þessum íbúðahverfum eru færri heimili og íbúar sem geta orðið fyrir skriðum og þar eru ekki mikilvægir innviðir. Atvikið í Séstvarlahverfi er því talið versta tilfellið af atvikum af þessu tagi í sveitarfélaginu.

Viðhald á núverandi vörnum ásamt kerfi til reglubundinnar skoðunar/hreinsunar á ræsum og niðurföllum og stjórnun rofs meðfram lækjum og útrásum frárennslislagna/ræsa, getur stuðlað að því að koma í veg fyrir skriðuföll í þessum íbúðahverfum.

 

3.2.3.    Heildarmynd af áhættu og áfallaþoli

Eftir að greining á áhættu og áfallaþoli hefur verið gerð þarf vinnuhópurinn að kynna niðurstöður greindra atvika í heildarmynd af áhættu og áfallaþoli.

Samantekt eyðublaða fyrir greiningu á óæskilegum atvikum er mikilvægasta framsetningin á myndinni um áhættu og viðkvæmni; sjá lið 1 hér á eftir (þ.e. heildarmynd af áhættu og áfallaþoli fyrir óæskileg atvik). Í lið 2 (þ.e. kynning á sérstökum áskorunum í samfélagslega mikilvægum verkefnum og þörf fyrir viðvörun til íbúa og rýmingu) er sýnt hvernig hægt er að setja fram sérstök viðfangsefni sem tengjast samfélagslega mikilvægum verkefnum og í lið 3 (þ.e. einfölduð mynd af áhættu og áfallaþoli) er að finna dæmi um samantekt í áhættufylki.


 

1. Heildarmynd af áhættu og áfallaþoli fyrir óæskileg atvik

Samantekt eyðublaðanna í heildarmynd af áhættu og áfallaþoli. Hér að neðan má sjá dæmi um útfyllt eyðublað.

Nr.       3          ÁHÆTTUÞÁTTUR (ÓÆSKILEGT ATVIK)

Lýsing á áhættuþætti (óæskilegu atviki) og aðstæðum

Í lok maí fellur stór skriða í Séstvarlahverfi. Íbúðasvæðið samanstendur af u.þ.b. 20 húsum þar sem alls búa um 70 íbúar. Skriðan fellur um miðja nótt þegar flestir eru sofandi. Skriðan rífur háspennulínu til bæjarins. Þetta leiðir til rofs í orkudreifingu til stórra hluta sveitarfélagsins í 3-5 daga, þ.á m. til sjúkrahúsins.

Leiðin að heilbrigðisstofnuninni staðarins liggur um Séstvarlahverfi. Hverfið er byggt undir fjallshlíð og við björg­unar­störfin daginn eftir fellur ný skriða. Lögreglunni hefur þá tekist að rýma hverfið; bæði íbúar og björgunarsveitarmenn eru farnir af staðnum þegar seinni skriðan fellur.

ORSAKIR

·       Rof

·       Framkvæmdir

·       Úrkoma

SKILGREINDAR FORVARNIR (HINDRANIR EÐA AÐRAR RÁÐSTAFANIR SEM ÞEGAR ERU TIL STAÐAR)

·       Rýmingaráætlun

·       Ræsi/frárennsli vatns

LÍKUR

A

B

C

D

E

Skýring

 

 

x

 

 

 

1 sinni á 100–1 000 árum
(0,1 % – 1 %)

Rökstuðningur á líkum

Tölfræðilega er hægt að búast við 2-3 stórum skriðum á Íslandi næstu 100 árin en staðbundnar aðstæður á svæðinu leyfa notkun slíkrar tölfræði. Engin skriðuföll hafa orðið í íbúðahverfinu og engin kortlagning slíkra atvika hefur verið gerð á svæðinu. Engar ráðstafanir hafa þess vegna verið gerðar gegn skriðuföllum sem gætu dregið úr líkum.


 

MAT Á VIÐKVÆMNI

Skriðan leiðir til rofs í rafmagnsafhendingu í stórum hluta tiltekins sveitarfélags. Þetta hefur áhrif á íbúa sveitarfélagsins, starfsemi þess, sjúkrahúsið og stóra hluta atvinnulífsins.

Sveitarfélagið hefur nýlega fjárfest í varaafli og útbúið húsakynni í hjúkrunarheimilinu Áhyggjulaus þar sem neyðarstjórn sveitarfélagsins getur komið saman. Neyðarstjórnin flytur aðsetur sitt þangað. Bæði vatnsveitan og hjúkrunarheimilið hafa aðgang að varaafli. Hins vegar er óljóst hve lengi eldsneyti dugar fyrir rafstöðvarnar og engir samningar hafa verið gerðir um útvegun eldsneytis. Bensínstöðvar staðarins geta ekki útvegað eldsneyti á meðan rafmagnsleysið varir sökum þess að ekkert varaafl er fyrir eldsneytisdælurnar. Handvirkar dælur virka ekki og næsta bensínstöð er í u.þ.b. 60 km fjarlægð.

Fjarskiptanetið er með vararafhlöður fyrir fjögurra klst. rekstur eftir að rafmagnsleysið hefst. Farsímakerfið er undir of miklu álagi og aðgengi verður lélegt. Neyðarstjórnin hefur gervihnattasíma til afnota en afkastagetan er léleg. Sökum rafmagnsleysisins liggur vefsíða sveitarfélagsins niðri sem gerir sveitarfélaginu erfitt fyrir að eiga samskipti við íbúa sína.

Fjöldahjálparstöð sveitarfélagsins býður þeim sem þurfa að rýma húsnæði sitt gott húsaskjól, hlýju og fullnægjandi veitingar. Sálfélagslegt teymi sveitarfélagsins hefur verið virkjað og aðstoðar við¬kvæma hópa í sveit¬ar¬fél¬ag¬inu.

Vegurinn að læknamiðstöðinni er lokaður vegna skriðufallsins og það svæði sem læknamiðstöðin er á er án rafmagns sem þýðir skert aðgengi og tækifæri til að bjóða upp á heilbrigðisþjónustu. Það tekur u.þ.b. viku að koma á bráðabirgðavegtengingu en á meðan mun læknamiðstöðin í nágrannasveitarfélaginu sem er í u.þ.b. 65 km fjarlægð veita íbúum þjónustu

MAT Á AFLEIÐINGUM

Verðmæti

Tegund afleiðingar

Vægi afleiðingar

Skýring

 

 

1

2

3

4

5

 

Líf og heilsa

Fjöldi látinna

 

 

 

x

 

6-10 látnir

Fjöldi slasaðra eða veikra

 

 

 

x

 

20-100 slasaðir

Stöðugleiki

Óuppfylltar grunnþarfir

 

 

 

 

 

 

Truflanir á daglegu lífi

 

 

 

 

 

>1000 verða fyrir áhrifum af atvikinu í 2-7 daga

Náttúra og umhverfi

Varanlegur skaði á náttúru/umhverfi

 

 

 

 

x

 

Varanlegur skaði á menningarverðmætum, -starfsemi eða –minjum

 

 

 

 

 

 

Efnisleg verðmæti

Efnahagslegt tjón

x

 

 

 

 

< 1.500 milljónir kr.

Samandreginn rökstuðningur á afleiðingum

Í Séstvarlahverfi eru 20 heimili með að hámarki 70 manns sem geta orðið fyrir skriðu. Talið er að færri 9  manns gætu farist og allt að tuttugu og fimm íbúar gætu slasast vegna atviksins. Þar sem rýming er hafin, er ólíklegt að fleiri líf tapist. Rof vegarins að læknamiðstöðinni er ekki talið hafa áhrif á afleiðingar á líf og heilsu þar sem hægt er að nota læknamiðstöð í nágrannasveitarfélagi. Skriðan leiddi til rafmagnsleysis í stór­um hluta sveitarfélagsins, þ.á m. í sjúkrahúsinu.

Rafmagnsleysið hefur ekki áhrif á líf og heilsu íbúa þar sem sjúkrahúsið hefur varaafl til neyðaraðgerða. Engir notendur heimaþjónustu staðarins eru háðir lækningatækjum.

Stöðugleiki: Jafnvel þó grunnþörfum sé fullnægt upplifa íbúar verulegar truflanir á daglegu lífi. Margir hafa þurft að rýma heimili sín og stórir hlutar sveitarfélagsins eru án rafmagns.

Skriðan veldur miklu tjóni á 5 húsum og minni skemmdum á 8 aðliggjandi eignum. Fjárhagslegt tap verður a.m.k. 300milljónir króna.

Þörf fyrir viðvaranir til almennings

Íbúar í Séstvarlahverfi og nágrenni fá tilkynningu frá lögreglu og almanna­varnarnefnd um að rýma svæðið eins fljótt og auðið er. Ekki er talið nauðsynlegt að útbúa áætlun um viðvörun til íbúa í tengslum við viðbragðsáætlunina.

Þörf fyrir rýmingu

Lögreglan hefur fyrirskipað rýmingu allra íbúa á svæðinu; alls 70 manns. Í viðbragðsáætlun hefur sveitarfélagið gert ráð fyrir viðbúnaði til að taka á móti þessum fjölda fólks sem þarf að rýma hús sín en hins vegar getur verið áskorun fyrir sveitarfélagið að sjá öllum fyrir veitingum.

Óvissa

Mikil

Rökstuðningur

Skortur á þekkingu vegna þess að kortlagning á skriðum hefur ekki verið framkvæmd

Óvissa um ástand frárennslis

Óvissa um tímalengd rafmagnsleysis

Óvissa um afkastagetu varaafls og aðgang að eldsneyti til að halda varaafli gangandi

Er hægt að hafa stjórn á áhættu­þættinum?

Mikla

Rökstuðningur

Nokkrum aðgerðum er hægt að hrinda í framkvæmd með ákvörðun innan tiltekins sveitarfélags.

Tillögur að forvörnum/aðgerðum til að hafa stjórn á áhættuþættinum (óæskilega atvikinu)

1.                Athuga rof sem getur komið af stað skriðufalli meðfram lækjum, frárennsli frá ræsum og þess háttar. Setja upp einfaldar rofvarnir til að stöðva áframhaldandi rof og koma á eftirliti með rofi og hreinsun á ræsum og niðurföllum til að koma í veg fyrir að vatn renni þar sem það skapar hættu.

2.                Setja af stað vinnu við endurskoðun deiliskipulags fyrir Séstvarlahverfi og önnur íbúðahverfi með sambærilegri skriðuhættu. Í vinnu við endurskoðun skipulags er gerð greining á áhættu og viðkvæmni og nauðsynlegar rannsóknir framkvæmdar. Svæðum þar sem skriðuhætta er uppgötvuð verður að fylgja eftir með flokkun svæða og tilheyrandi ákvörðunum sem banna íbúðabyggð og takmarkanir á öðrum framkvæmdum eins og jarðvinnu og uppfyllingu. Í þessari vinnu er einnig litið til þess hvort núverandi aðgerðir til að draga úr hættu á skriðum í Týndahverfi og Hvergilandi (sjá umræðu um framseljanleika hér á eftir) séu nægjanlegar.

3.                Tryggja þegar byggð svæði, þar sem hætta er á skriðu, til að koma í veg rof. Það er gert með varanlegum aðgerðum sem eru hannaðar af fagfólki.

4.                Upplýsa íbúa Séstvarlahverfis og annarra íbúðahverfa eins og við á um aðstæður, var­úðar­ráð-staf­anir og/eða takmarkanir á breytingum á eigin húsnæði og lóð.

5.                Styrkja verklag vegna jarðvinnu í útsettum íbúðahverfum.

6.                Meta aðra staðsetningu eða nýja vegtengingu fyrir læknamiðstöðina til að tryggja að vegtengingin að læknamiðstöðinni verði ekki rofin.

7.                Tryggja aðgang að mikilvægum úrræðum fyrir neyðarviðbúnað einnig í varahúsanæði neyðar­stjórn­arinnar.

8.                Tryggja framboð eldsneytis til varaafls sveitarfélagsins.

9.                Fara yfir rútínur heimaþjónustu til að tryggja að notendur hennar fái þá þjónustu sem þeir eru vanir að fá, einnig eftir að óæskileg atvik gerast.

10.              Meta aðgerðir til að efla samskipti við íbúa meðan á óæskilegum atvikum stendur.

11.              Meta hvort forgangur í farsímanetinu er nauðsyblegur og hvort þörf er á aðgerðum til að auka getu rafrænna samskipta fyrir neyðarstjórnina.

12.              Auka afkastagetu veitingarýmis í fjöldahjálparstöð sveitarfélagsins.

13.              Tryggja hæfni í yfirliti yfir bjargir og á útkallslista til að takast á við hættu á skriðuföllum.

14.              Fræða íbúa um eigin viðbúnað vegna rafmagnsleysis.

Er hægt að yfirfæra þetta atvik á sambærilegar aðstæður annars staðar í sveitarfélaginu (framseljanleiki)

Nokkur önnur íbúðahverfi í sveitarfélaginu eru nálægt hlíðum þar sem skriður geta fallið, t.d. íbúðahverfin Týndahverfi og Hvergiland. Í þessum íbúðahverfum eru færri heimili og íbúar sem geta orðið fyrir skriðum og þar eru ekki mikilvægir innviðir. Atvikið í Séstvarlahverfi er því talið versta tilfellið af atvikum af þessu tagi í sveitarfélaginu.

Viðhald á núverandi vörnum ásamt kerfi til reglubundinnar skoðunar/hreinsunar á ræsum og niðurföllum og stjórnun rofs meðfram lækjum og útrásum frárennslislagna/ræsa, getur stuðlað að því að koma í veg fyrir skriðuföll í þessum íbúðahverfum.

 

2. Kynning á sérstökum áskorunum í samfélagslega mikilvægum verkefnum og þörf fyrir viðvörun til íbúa og rýmingu

Í 3. kafla koma fram hverjar lágmarkskröfur um innihald greiningar á áhættu og áfallaþoli eru en greiningin þarf að varpa ljósi á sérstakar áskoranir sem tengjast samfélagslega mikilvægum verkefnum, þ.m.t. tap á mikilvægum innviðum. Áskoranir tengdar samfélagslega mikilvægum verkefnum leggja grunn að mati á hversu mikið þanþol er innbyggt í ýmsa starfsemi sveitarfélagsins og í viðbúnað sveitarfélagsins. Einnig er talað um að meta þurfi þörfina fyrir viðvörun til íbúa og rýmingu.

Þessum atriðum þarf að lýsa en auk þess er hægt að draga þau saman í töfluformi. Í vinnuhóp sveitarfélagsins Útibæ hafa fjögur önnur óæskileg atvik verið metin auk skriðunnar í Séstvarlahverfi, sjá Töflu 3. Taflan sýnir að sum samfélagslega mikilvæg verkefni eru viðkvæm fyrir fleiri en einu óæskilegu atviki.

Tafla 3: Dæmi um að aðferð við að draga saman upplýsingar sem varða samfélagslega mikilvæg verkefni


Tafla 3 sýnir að óæskilega atvikið „Skriða í Séstvarlahverfi“ (sjá línu 3 í Töflu 3) getur haft áhrif á eftirfarandi samfélagslega mikilvæg verkefni:

   Uppfylling þarfa um húsaskjól og hita

   Dreifing orku og eldsneytis

   Aðgangur að rafrænum samskiptum

   Samgöngur (fólks- og vöruflutningar)

   Þjónustu við viðkvæma hópa

   Heilbrigðis- og félagsþjónusta

   Neyðarstjórn sveitarfélagsins

Atvikið kallar einnig á rýmingu en nánari rökstuðning og mat á atvikinu er að finna á eyðublaðinu.

Greiningarnar geta leitt í ljós að fleiri en eitt samfélagslega mikilvægt verkefni séu háð hvert öðru. Slíkt kemur sérstaklega fram við mat á viðkvæmni og getur haft áhrif á getu sveitarfélags til að takast á við óæskilegt atvik. Dæmi um atriði sem eru innbyrðis háð er hægt að setja fram í töflu; sjá Töflu 4. Í dálkinum lengst til vinstri má sjá bresti eða bilanir í viðkomandi samfélagslega mikilvægum verkefnum en hinir dálkarnir sýna afleitt atvik eða afleiðingar fyrir önnur samfélagslega mikilvæg verkefni.

Tafla 4: Skýringarmynd af innbyrðis háðum samfélagslega mikilvægum verkefnum við óæskilega atvikið „Skriða í Séstvarlahverfi

3. Einfölduð mynd af áhættu og áfallaþoli

Mat á áhættu og viðkvæmni fyrir öll óæskileg atvik er hægt að draga saman í áhættufylki til að sýna ákveðna hluta af heildarmynd af áhættu og áfallaþoli. Á Mynd 10 má sjá dæmi en gott er að sýna hverja gerð afleiðinga í sér fylki vegna þess að ætlunin er ekki að bera saman mismunandi gerðir afleiðinga. Einnig er mögulegt að búa til fylki fyrir hvert samfélagslega mikilvægt verkefni (sjá Töflu 1). Í tilvikum þar sem fleiri en ein tegund afleiðinga á við um samfélagslega mikilvægt verkefni verður að vega tegundir afleiðinga innbyrðis.

Óæskileg atvik eru metin eftir líkum og afleiðingum sett í fylk byggð á því mati. Atvikin sem eru talin hafa mikla líkur og miklar afleiðingar eru höfð efst til hægri í fylkinu en atvik sem eru staðsett neðst til vinstri í fylkinu eru talin hafa litlar líkur og litlar afleiðingar. Í fylkinu er t.d. hægt að merkja atvik með því að setja hring um þá sem mikil óvissa er um, sjá Mynd 10.

Mynd 10: Dæmi um áhættufylki fyrir manntjón sem tegund afleiðinga


3.2.4.    Tillögur að eftirfylgni

Vinnuhópurinn í sveitarfélaginu Útibær hefur metið fimm óæskileg atvik. Byggt á til­lög­unum um aðgerðir frá þessum atvikum undirbýr vinnuhópurinn tillögu að fram­kvæmda­áætl­un. Þetta er til að tryggja að þekking og reynsla úr starfinu með greiningu á áhættu og áfallaþoli fylgi með í frekari eftirfylgni.

Tillagan að framkvæmdaáætlun þarf að lýsa þeim ráðstöfunum/forvörnum sem hafa ver­ið greindar. Þetta geta verið aðgerðir til að koma í veg fyrir, efla viðbúnað og til að takast á við atvikið, en einnig aðgerðir til að auka þekkingu og tillögur um ítarlegri greiningar og áætlanir á ákveðnum sviðum. Tillaga vinnuhópsins að framkvæmdaáætlun getur verið hluti af skýrslunni um greiningu á áhættu og áfallaþoli (sjá kafla 3.2.5).

Í dæminu um sveitarfélagið Útibæ leggur vinnuhópurinn til eftirfarandi úrbætur/ráð­stafanir/forvarnir:

Eftirfylgni með náttúruvá í skipulagningu og daglegum rekstri sveitarfélagsins

Úrbætur/ráðstafanir/forvarnir vegna eftirfylgni með náttúrurvá fela í sér:

   eftirlit með rofi meðfram lækjum og ræsum, sérstaklega á svæðum þar sem hætta er á skriðuföllum, sem og útfærslu á einfaldri vörn gegn rofi til að stöðva áfram­haldandi rof þar sem slíkt er til staðar.

   hreinsun á ræsum og niðurföllum til að koma í veg fyrir vatnsflóð og tryggja getu þessa búnaðar í flóðum og mikilli úrkomu.

   endurskoðun núverandi varna vegna flóða og skriðufalla í íbúðahverfunum. Nýjar og uppfærðar varnir vegna flóða og skriðufalla þurfa að vera hannaðar af fagfólki.

   upplýsingagjöf til íbúa í íbúðahverfum, þar sem er hætta á skriðum, um aðstæður og um varúðarráðstafanir eða takmarkanir sem gilda um breytingar á húsi og lóð.

   styrkt verklag vegna jarðvinnu í íbúðahverfum sem eru útsett fyrir skriðum.

   endurskoðun og uppfærslu skipulagsáætlana fyrir íbúðahverfi sem eru útsett fyrir skriðum. Í þessari vinnu er gerð greining á áhættu og viðkvæmni sem tekur einnig mið af loftslagsbreytingum og nauðsynlegum rannsóknum. Í áætlunum er kveðið á um flokkun svæða vegna hættu á skriðum og flóðum.

Neyðarsamskipti

Úrbætur/ráðstafanir/forvarnir vegna neyðarsamskipta fela í sér að:

   endurskoða áætlun sveitarfélagsins um neyðarsamskipti með það fyrir augum að ná til íbúa á mismunandi tungumálum. Það er þörf á auknum afköstum, öðrum samskiptaformum og nánara samstarfi við staðbundna fjölmiðla.

   auka afköst við þjónustuborð sveitarfélagsins þegar um óæskileg atvik er að ræða.

Viðbragðsáætlun

Úrbætur/ráðstafanir/forvarnir vegna viðbragðsáætlunar fela í sér að:

   sveitarfélagið útbúi viðbragðsáætlun á grundvelli niðurstaðna úr greining á áhættu og áfallaþoli.

   fylgja eftir greiningu á áhættu og áfallaþoli með greiningum á áhættu og viðkvæmni ásamt viðbragðsáætlunum hjá undirstofnunum sveitarfélagsins.

   sveitarfélagið samræmi viðbragðsáætlanir sínar innbyrðis en einnig við aðra við­eigandi aðila í sveitarfélaginu sem koma að vinnu við að tryggja öryggi borgaranna.

   huga að sérstökum viðbúnaðaraðgerðum, þ.m.t. að útbúa yfirlit yfir bjargir og útkallslista með það fyrir augum að takast á við hættuna á flóðum og skriðum. Á listanum þurfa að vera sérfræðingar frá t.d. frá Orkustofnun, Veðurstofun Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og vélaverktakar.

   hafa þurfi í huga erfiða stöðu þeirra sem þurfa að rýma húsnæði sitt. Jafnvel þó sveitarfélagið sé með rýmingaráætlun, hefur það of litla getu til að aðstoða þennan hóp.

   náttúruvá í sveitarfélaginu verði lögð til grundvallar við þróun sviðsmynda fyrir æf­ingar ásamt björgunarsveitunum og öðrum aðilum í héraði.

Eigin viðbúnaður sveitarfélagsins

Úrbætur/ráðstafanir/forvarnir vegna eigin viðbúnaðar fela í sér að:

   kanna hvort fagsvið sveitarfélagsins taki á kröfum er varða það að viðhalda viðeigandi verkefnum meðan á óæskilegum atvikum stendur, hvort nægjanlegur viðbúnaður sé til staðar til þess að það sé hægt og hvort það sé nægjanlega hugað að upplýsingagjöf sem varðar eigin viðbúnað íbúa.

   framkvæma ítarlega greiningu á afleiðingunum í sveitarfélaginu vegna lang­tíma­trufl­unar á rafmagnsafhendingu. Í þessari greiningu er farið yfir getu varaafls sveitarfélagsins og hvort það séu svæði sem ekki er hægt að þjóna með varaafli. Enn fremur er þörf á áætlunum um prófanir og viðhald og samninga um áfyllingu elds­neytis meðan á óæskilegum atvikum stendur.

   meta forgang í farsímakerfinu, aukna afkastagetu og aðrar lausnir fyrir rafræn samskipti ef dagleg samskiptakerfi bregðast.

Aðrar úrbætur/ráðstafanir/forvarnir sem fylgja þarf eftir

   Almennar upplýsingar til íbúa um eigin viðbúnað

   Fara þarf yfir rútínur heimaþjónustunnar til að fylgjast með notendum ef upp koma óæskileg atvik.

   Meta þarf staðsetningu samfélagslega mikilvægra verkefna í sveitarfélaginu svo að notendur geti nýtt sér áfram þjónustuna ef atvik verða.

   Viðræður við:

·   orkufyrirtæki um afhendingaröryggi rafmagns og heits vatns

·   fjarskiptafyrirtæki um hversu vel fyrirtækið er undir það búið að takast á við áföll og hvaða úthald það hefur til að halda uppi fjarskiptum (þ.e. hversu mikið þanþol sé innbyggt í þjónustuna)

·   Neyðarlínuna um Tetra-kerfið

Tillaga vinnuhópsins um framkvæmdaáætlun þarf að innihalda tillögur um markmið og stefnumörkun fyrir vinnu sveitarfélagsins við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað. Í markmiðasetningunni hefur vinnuhópurinn í þessu dæmi lagt áherslu á að sveitar­félagið sé útsett fyrir náttúruvá.

Tillögur að markmiðum í vinnu með almannavarnir í sveitarfélaginu Útibær:

   Staðsetning Útibæjar og áskoranir í náttúru sveitarfélagsins eru verðmæt. Sveitar­félag­ið ætlar að sjá til þess að uppbygging og þróun sveitarfélagsins taki mið af þeim áskorunum sem náttúran hefur í för með sér.

   Útibær ætlar að hafa skipulags- og stjórnkerfi sem tekur á þörf borgaranna, sam­félags­lega mikilvægra verkefna og atvinnulífsins fyrir öryggi og ör­yggis­kennd með því að draga úr líkum á að óæskileg atvik komi upp með góðum for­vörn­um.

   Útibær ætlar að hafa undirbúið og æft neyðarstjórnkerfi til að draga úr af­leið­ingum fyrir íbúa ef til óæskilegs atviks kemur.

   Útibær ætlar að vinna náið með utanaðkomandi aðilum til að auka öryggi borg­ar­anna.

   Starf Útibæjar við almannavarnir og viðbúnað á að vera þekkingarmiðað og í stöðugri þróun.

Tillögur að framkvæmdaáætlun þurfa að hafa svipaða útfærslu og sveitarfélagið notar annars í ýmsum aðgerðaáætlunum svo hægt sé að samþætta hana í skipulags- og stjórnunarkerfi sveitarfélagsins.

Stjórnendur sveitarfélagsins verða að undirbúa festingu greiningar á áhættu og áfallaþoli í sessi í sveitarstjórn, meta tillögur vinnuhópsins að markmiðum, stefnumörkun og framkvæmdaáætlun og auðvelda ákvarðanatöku um afgreiðslu þeirra. Frekari eftirfylgni og þróun almannavarna- og viðbúnaðar verður að vera skýrt fest í sessi í sveitarfélaginu. Fjallað er um þetta í 4. kafla.

3.2.5.    Skýrsla

Niðurstöður úr greiningu á áhættu og áfallaþoli þurfa að vera skjalfestar í skýrslu. Skýrslan þarf að innihalda yfirlit yfir áhættu og viðkvæmni í sveitarfélaginu. Auk þess þarf hún að innihalda þær úrbætur og aðgerðir sem lagt er til að farið verði í til að efla vinnu við að tryggja öryggi borgaranna. Tillaga að uppbyggingu skýrslunnar er sýnd í Viðauka 7. Tilgangur greiningarinnar, forsendur og afmörkun hennar þurfa að koma skýrt fram.

Heildarmyndin af áhættu og áfallaþoli er skjalfest með eyðublöðum fyrir öll greind atvik, yfirlitum og greiningum á sérstökum aðstæðum. Mælt er með því að skjalfesta einnig atvik sem ekki voru greind nánar, sjá kafla 3.2.1.

Lýsing sveitarfélagsins er mikilvægur hluti skýrslunnar, sjá kafla 3.1.3. Hún veitir yfirlit yfir þekkta áhættu og viðkvæmni í sveitarfélaginu og lýsir eiginleikum og aðstæðum sem, þegar kemur að öryggi borgaranna, einkenna sveitarfélagið (sérkenni). Upplýsingar sem skipta máli fyrir greininguna og lýsingu sveitarfélagsins eru sett í viðhengi eða vísað er til þeirra í skýrslunni.

Tillaga vinnuhópsins um framkvæmdaáætlun þarf að vera hluti af skýrslunni. Ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi sem vinnuhópurinn telur mikilvægt að fylgjast sérstaklega með í framtíðinni, þarf það að koma fram.

Drög að skýrslum eru sendar til samráðs við innri og ytri aðila sem hafa tekið þátt í starfinu. Vinnuhópurinn gerir viðeigandi breytingar og leiðréttingar og lýkur vinnunni með því að afhenda skýrsluna um greiningu á áhættu og áfallaþoli til stýrihóps verk­efnisins.

4.  Eftirfylgni í starfi sveitarfélagsins við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað

 

 

Auk þess að vinna greiningu á áhættu og áfallaþoli er mælt með því að vinnuhópurinn geri tillögu að framkvæmdaáætlun (sjá kafla 3.2.4). Framkvæmdaáætlunin þarf að inni­halda tillögur að markmiðum og stefnu um heildstæða og kerfisbundna vinnu við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað. Stjórnendur á ábyrgðarsviðum sveit­ar­fél­ags­ins þurfa að fjalla um tillögur að slíkri framkvæmdaáætlun.

Greining á áhættu og áfallaþoli getur leitt áhættu og viðkvæmni sem liggja utan ábyrgðar­sviðs tiltekins sveitarfélags í ljós. Séu þessi atriði mikilvæg til að hægt sé að tryggja öryggi borgaranna í sveitarfélaginu getur sveitarfélagið verið drifkraftur í að viðeigandi úrbætur og ráðstafanir komi til framkvæmda, t.d. samstarf við orkufyrirtæki og fjarskiptaaðila um viðbúnaðaráætlun og samstarfssamningar við atvinnulífið um mikilvægar birgðir. Að auki hefur sveitarfélagið mikilvægt hlutverk í vinnu við að efla eigin viðbúnað íbúa í sveitar­félaginu.

Við umfjöllun stjórnenda sveitarfélagsins um framkvæmdaáætlunina þarf að forgangs­raða og skýra hvernig hlutir verða framkvæmdir. Þegar greining á áhættu og áfallaþoli er kynnt í sveitarstjórn þarf að leggja framkvæmdaáætlunina fram til samþykktar og hún þarf að fá stöðu sem stefnumótandi skjal fyrir vinnu sveitarfélagsins við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað. Gera þarf sömu kröfur um eftirfylgni og endurskoðun og gilda um áætlanir samkvæmt skipulags-, brunamála- og mannvirkjalögum.

Diagram

Description automatically generated

Mynd 11: Sveitarfélagið þarf að hafa framkvæmdaáætlun til að geta fylgt greiningu á áhættu og áfallaþoli eftir

4.1.    Framkvæmdaáætlun

Framkvæmdaáætlun er ákveðin á grundvelli greiningar á áhættu og áfallaþoli. Fram­kvæmda­áætlunin hefur að geyma markmið, stefnumörkun, úrbætur og aðrar ráðstafanir til að þróa starf tiltekins sveitarfélags við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað næstu fjögur árin. Framkvæmdaáætlunin er endurskoðuð árlega.

4.1.1.    Markmið og stefnur fyrir starf sveitarfélagsins við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað

Í dæminu um sveitarfélagið Útibær samþykkir sveitarfélagið tillögur vinnuhópsins um markmið og stefnumörkun (sjá kafla 3.2.4) og kýs að samþætta þær í aðrar áætlanir sveitarfélagsins.

4.1.2.    Tillögur um eftirfylgni og þróun

Í dæminu um sveitarfélagið Útibær hafa allar tillögur um aðgerðir nú verið metnar á hinum ýmsu ábyrgðarsviðum sveitarfélagsins og í sveitarstjórn. Við þá umfjöllun hafa komið inn ný atriði og tillögur um forgangsröðun. Á grundvelli þessa alls hefur sveitarfélagið for­gangs­raðað þeim úrbótum og öðrum aðgerðum sem á að hrinda í framkvæmd til að efla starf sveitarfélagsins við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað. Í samþykktri fram­kvæmda­áætlun hafa stjórnendur sveitarfélagsins bæði bent á hverjir bera ábyrgð og hvaða tímafrestir eru gefnir til að fylgja eftir úrbótum og öðrum aðgerðum.

Skipulags- og byggingarmál

   Staðsetning Útibæjar og áskoranir í náttúrunni skapa óvissu um framtíðina. Að auki munu loftslagsbreytingar auka áhættu í framtíðinni. Þessa þætti í sveitarfélaginu þarf að þróa og samþætta í skipulagsstefnu sveitarfélagsins og þeir þurfa að liggja til grund­vallar við endurskoðun aðalskipulags og gerð nýrra skipulagsáætlana.

·   Stöðugt og reglulega

·   Fylgja þarf sérstaklega eftir náttúruvá og loftslagsbreytingum í vinnu við stefnu og í skipulagi.

·   Endurskoða þarf gátlista fyrir byggingaráform þar sem þessu er fylgt eftir, með sérstökum kröfum til verktaka um framkvæmd áhættu- og viðkvæmi­greininga fyrir byggingaráform.

   Fara þarf í aðgerðir vegna varna gegn skriðum í íbúðahverfunum þar sem hætta er á skriðum en slíkt þarf að gera í samvinnu við sérfræðinga.

·   Kanna þarf möguleika á ríkisaðstoð.

    Fyrir 1. júní 20XX

·   Fylgja þarf tillögum að aðgerðum eftir í skipulagi, sbr. punkt hér að framan.

   Skoða þarf hættu á flóðum og skriðum í útsettum íbúðahverfum nánar til að meta hvort þörf er á endurskoðun á deiliskipulagi. Við það eru gerðar áhættu og við­kvæmni­greiningar þar sem núverandi varnir eru skoðaðar. Að auki eru nauðsynlegar jarðrannsóknir framkvæmdar. Ef í ljós kemur að þörf er á nýrri flokkun svæða verður deiliskipulagið endurskoðað.

·   Fyrir 1. júní 20XX

   Fylgja þarf eftir vinnu við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað sem sérstöku áhersluatriði í vinnu við nýtt aðalskipulag.

·   Verkið hefst í lok sveitarstjórnartímabilsins.

Tæknideild

   Athuga þarf rof meðfram lækjum, ræsum og frárennsli þar sem hætta er á skriðum.

·   Stöðugt og reglulega

   Hreinsa þarf niðurföll og ræsi til að koma í veg fyrir vatnsflóð og tryggja getu þessa búnaðar til að veita vatni í flóðum og mikilli úrkomu.

·   Stöðugt og reglulega

   Styrkja þarf verklag fyrir jarðvinnu í íbúðahverfum sem eru útsett fyrir skriðum.

·   Fyrir 1. október 20XX

   Fylgja þarf eftir greiningu á áhættu og áfallaþoli í áhættu- og viðkvæmnigreiningum og viðbúnaðaráætlunum innan málefnasviðs tæknideildarinnar.

·   Fyrir 1. júlí 20XX

Starfsmenn sveitarstjóra

   Úrbótaverkefni og tímafrestir sem upplýsingafulltrúi ber ábyrgð á:

·   Upplýsingar til íbúa í hverfum þar sem hætta er á skriðum um ástand og um varúð og takmarkanir við breytingar á eigin húsum og lóð

    Fyrir 1. apríl 20XX

·   Endurskoðun áætlana sveitarfélagsins um neyðarsamskipti með það fyrir augum að geta náð til íbúa á mismunandi tungumálum óháð aðstæðum. Þörf er á aukinni getu, öðrum samskiptaformum og nánara samstarfi við stað­bundna fjölmiðla

    Fyrir 1. maí 20XX

·   Almennar upplýsingar til íbúa um eigin viðbúnað

    Fyrir 15. apríl 20XX

·   Kynning á niðurstöðum úr greiningu á áhættu og áfallaþoli fyrir samstarfs­aðilum eftir því sem við á

    Fyrir 15. apríl 20XX

   Þjónustuborð sér um að:

·   auka afköst við skiptiborð sveitarfélagsins ef upp koma óæskileg atvik, skipuleggja tæknilausn og mönnun.

    Fyrir 1. maí 20XX

   Úrbótaverkefni og tímafrestir sem formaður neyðarstjórnar ber ábyrgð á:

·   Sveitarfélagið útbýr viðbragðsáætlun á grundvelli niðurstaðna úr greiningu á áhættu og áfallaþoli í samvinnu við aðra viðbragðsaðila. Mikilvægt er að viðbragðsáætlunin sé hluti af áætlunum sveitarfélagsins og sé endurskoðuð árlega

    Fyrir 1. júlí 20XX

·   Sveitarfélagið verður að samræma viðbúnaðaráætlanir sínar innbyrðis, en einnig með öðrum viðeigandi aðilum sem eru ábyrgir fyrir að tryggja öryggi borgaranna í sveitarfélaginu

    Fyrir 1. október 20XX

·   Á grundvelli niðurstaðna í greiningu á áhættu og áfallaþoli verður að huga að sérstökum viðbúnaðaraðgerðum, t.d. eigin viðbúnaði í sveitarfélaginu. Eins er nauð­synlegt að fá yfirsýn yfir stjórnkerfi annarra viðbragðsaðila, þróa yfir­lit yfir bjargir og út­kalls­lista með það fyrir augum að hafa stjórn á hættu á flóð­um og skriðum í sam­starfi við Orkustofnun, Veðurstofu Íslands, Náttúru­fræði­stofn­un Íslands og véla­verk­taka.

    Fyrir 1. október 20XX

·   Sveitarfélagið hefur rýmingaráætlun en getur þó ekki rekið fjölda­hjálpar­stöð vegna þess mikla fjölda fólks sem ekki hefur í önnur hús að venda. Skoða verður hvernig samkomulagi um hjálparlið Almannavarna er háttað og hvort hægt sé að nýta það samstarf en í því felst að starfrækja fjöldahjálparstöðina.

    Fyrir 1. nóvember 20XX

·   Gera þarf ítarlega greiningu á afleiðingum langtímatruflunar á rafmagns­afhendingu. Í þeirri greiningu þarf að fara yfir varaaflsgetu sveitarfélagsins og hvort einhverjum sviðum sé ekki er hægt að þjóna með varaafli. Enn fremur er þörf á áætlunum um prófanir og viðhald varaaflsins og samninga um áfyll­ingu eldsneytis á meðan á óæskilegum atvikum stendur.

·    Meta þarf forgang í farsímakerfinu og auka afkastagetu og aðrar lausnir fyrir rafræn samskipti ef dagleg samskiptakerfi bregðast.

·   Þróa þarf æfingar út frá þeim náttúruváatvikum sem fram koma í greining­unni á áhættu og áfallaþoli og æfa með aðkomu allra sem gegna einhverju hlutverki

    Fyrir 1. febrúar 20XX

Öll fagsvið sveitarfélagsins

   Fylgja skal greiningunni á áhættu og áfallaþoli eftir í áhættu- og viðkvæmni­greining­um og viðbúnaðaráætlunum hjá öllum fagsviðum

·   Fyrir 1. júlí 20XX

Sveitarfélagið sem drifkraftur

   Bjóða Orkustofnun, Veðurstofun Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og véla­verk­tök­um að koma að samstarfi og þróa yfirlit yfir bjargir og útkallslista til að takast á við hættuna á flóðum og skriðum, formaður neyðarstjórnar

·   Fyrir 1. október 20XX

   Bjóða viðeigandi utanaðkomandi aðilum sem hafa umsjón með öryggi borgaranna að koma að samstarfi um viðbragðsáætlun og æfingar. Formaður neyðarstjórnar er ábyrgur fyrir þessari framkvæmd.

·   Fyrir 1. október 20XX

   Bjóða orkufyrirtækjum á fund til að fara yfir afleiðingar langtímarafmagnsleysis og
-skorts á heitu vatni í Útibæ. Sveitarstjóri er ábyrgur fyrir þessari framkvæmd.

·   Fyrir 1. nóvember 20XX.

   Bjóða sjálfboðaliðasamtökum að koma að samstarfi um rekstur fjölda­hjálpar­stöðvar­innar. Formaður neyðarstjórnar er ábyrgur fyrir þessari framkvæmd.

·   Fyrir 1. nóvember 20XX

   Hafa reglulega viðræður við orkufyrirtæki, fjarskipta-fyrirtæki og Neyðarlínuna um afhend­ingar­öryggi rafmagns og heits vatns, fjarskiptakerfisins og Tetrakerfisins. Sveitarstjóri er ábyrgur fyrir þessari framkvæmd.

·   Stöðugt og reglulega

Tillögur um eftirfylgni og þróun vinunnar við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað

Mælt er með að framkvæmdaáætlunin feli í sér ráðstafanir til endurmats og þróunar til að halda starfi sveitarfélagsins við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað uppfærðu og í stöðugri þróun er Eðlilegt er að framkvæmdaáætlunin fylgi skipulagsferli áætlana í samræmi við skipulags-, brunamála- og mannvirkjalög með fjögurra ára áætlunum og árlegum endurskoðunum til að skjalfesta stöðu eftirfylgni með úrbótum og öðrum framkvæmdum.

Endurskoða og uppfæra þarf greininguna á áhættu og áfallaþoli:

   í takt við endurskoðun á deiliskipulagi sveitarfélagsins

   ef breytingar verða á heildarmyndinni af áhættu og viðkvæmni

Fyrra atriðið felur í sér að sveitarfélagið verður að meta þörf fyrir uppfærslu á greining­unni á áhættu og áfallaþoli á fjögurra ára fresti í tengslum við gerð endurskoðun aðal­skipu­lags sveitarfélagsins. Breytingar á heildarmyndinni af áhættu og viðkvæmni sem krefjast uppfærslu á greiningunni á áhættu og áfallaþoli geta t.d. verið að nýtt fyrirtæki sem notar eða framleiðir hættuleg efni hefji störf í sveitarfélaginu, að ný þekking á áhrifum loftslagsbreytinga á sveitarfélagið komi fram eða aðrar breytingar á aðstæðum sem hafa verið greindar í vinnunni við gerð greiningarinnar á áhættu og áfallaþoli.

Við endurskoðun og uppfærslu greiningarinnar á áhættu og áfallaþoli er mikilvægt að leggja mat á eldri greiningu og meta stöðu úrbóta og annarra ráðstafana eða forvarna. Er komin ný þekking sem gerir stuðlar að því að hægt sé að breyta heildarmynd áhættu og viðkvæmni? Hafa úrbætur, aðrar ráðstafanir eða forvarnir leitt til breytinga á heildarmynd áhættu og viðkvæmni? Hafa æfingar eða atvik leitt í ljós nýja veikleika? Krefst þetta smávægilegra uppfærslna eða er nauðsynlegt fyrir sveitarfélagið að fara ítarlega yfir greininguna á áhættu og áfallaþoli? Endurskoðun á greiningu á áhættu og áfallaþoli verður alltaf að fylgja eftir með nýrri framkvæmdaáætlun.

Viðbragðsáætlun verður ávallt að vera uppfærð og þarf að endurskoða hana árlega.

Til viðbótar kröfum um uppfærslu og endurskoðun er gert ráð fyrir að sveitarfélagið bæti stöðugt við sig þekkingu í starfinu við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað sem þýðir að sveitarfélagið:

   framkvæmir árlegar úttektir og uppfærslur á greiningu á áhættu og áfallaþoli, framkvæmdaáætlun og viðbragðsáætlunum.

   gerir þær breytingar sem eru nauðsynlegar á greiningunni á áhættu og áfallaþoli, framkvæmdaáætlun og viðbragðsáætlunum eftir mat á æfingum og óæskilegum atvikum.

   gerir þær breytingar sem eru nauðsynlegar á vinnunni við að tryggja öryggi borgar­anna og viðbúnað eftir að eftirlit Almannavarna hefur farið fram sem og eftir eigin innri úttektir.

 

4.2.    Samþætting almannavarna og viðbúnaðar í áætlanir er varða skipulags og byggingarmál

Skipulagslög[5] og mannvirkjalög[6] gera ráð fyrir heildstæðu stjórnkerfi. Skipulag er sett í vítt sjónar­horn sem auðveldar eflingu og þróun skipulags samfélagsins þvert á svið. Almanna­varnir eru eitt af þeim sjónarmiðum sem lögunum er ætlað að gæta. Í 1. gr. skipulagslaga (sjá a, b) og 1. gr. mannvirkjalaga (sjá c,d) segir að markmið laganna sé m.a.:

a)  „Að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulags­áætlanir þar sem efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi er haft að leiðarljósi[…]

b)  Að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd lands­lags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi[…]“

c)  „Að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undir­búning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heil­næmi sé fullnægt.

d)  Að stuðla að endingu og hagkvæmni mannvirkja, m.a. með því að tryggja að þau séu hönnuð þannig og byggð að þau henti íslenskum aðstæðum.“

Með því að samþætta vinnu sveitarfélagsins við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað við skipulagsvinnuna er vinnan gerð sýnilegri og fest skýrar í sessi. Þetta tryggir einnig stöðuga þróun og mat þessarar vinnu. Skipulags- og mannvirkjalögin er þannig hægt að nýta sem hentug tæki við vinnuna við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað.

Stefna sveitarfélagsins í skipulagsmálum

Stefna sveitarfélaga í skipulagsmálum snýst um stefnumörkun um framtíðarnotkun lands sem tengjast þróun sveitarfélagsins sem skipulagseiningar og samfélags. Þar er gerð grein fyrir því að hvers konar framkvæmdum stefnt er á og hvernig þær falla að landnotkun á tilteknu svæði. Á grundvelli þessa er þörfin fyrir endurskoðun aðalskipulags metin í upphafi kjörtímabils sveitarstjórnar. Mælt er með því að greiningin á áhættu og áfallaþoli sé alltaf endurskoðuð á fjögurra ára fresti. Endurskoðunin getur farið fram áður en gert er nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið eða að lokinni gerð nýs aðalskipulags, á grundvelli mats á stefnu sveitarfélagsins og samfélagsþróun.

Umfjöllun um grunnkerfi og samfélag í aðalskipulagi

Í þeim hluta aðalskipulags sveitarfélagsins sem fjallar um grunnkerfi og samfélag tekur sveitarfélagið afstöðu til áskorana, markmiða og áætlana til langs tíma. Þetta eru mikilvægir hlutar aðalskipulagsins sem sýna samhæfinguna sem á sér stað milli áskorana mismunandi ábyrgðarsviða og heildarþróunar sveitarfélagsins. Hér á starf sveitarfélagsins við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað sinn náttúrulega stað en þar koma fram leiðbeiningar um hvernig forgangsröðun er fylgt eftir á mismunandi fag- og mál­efna­svið­um. Úrbætur, aðrar ráðstafanir og forvarnir sem er forgangsraðað í fram­kvæmda­áætlun­inni þurfa að vera með í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og endur­skoð­aðar árlega.

Diagram

Description automatically generated

Mynd 12: Skipulag skipulagsáætlana[7]

MYND 13. Samþætt skipulag sveitarfélaga.

 

Umfjöllun um landnotkun í aðalskipulagi

Ákvörðun um landnotkun er mikilvæg í eftirfylgni með vinnu við að tryggja öryggi borgar­anna, sérstaklega þar sem greining á áhættu og áfallaþoli hefur bent á náttúruvá eða hættur vegna atvinnustarfsemi. Í framkvæmdaáætlun greiningarinnar á áhættu og áfalla­þoli er aðgerðum sem fylgja þarf eftir í aðalskipulagi lýst, t.d. er hægt að fylgja niðurstöðum eftir í greiningu á áhættu og áfallaþoli í reglubundinni skipulagsvinnu sveitarfélagsins. Einnig er hægt að fylgja niðurstöðum eftir með ítarlegri kröfum um frekari rannsóknir og gerð greininga á áhættu og viðkvæmni við vinnu byggingaráforma fyrir landsvæði þar sem áhætta hefur verið greind.

5.  Samantekt: Greining á áhættu og áfallaþoli – skref fyrir skref

 

 

Skipulagning og undirbúningur

   Stofna verkefni og festa þau í sessi

   Skilgreina markmið og afmarka verkefnið

   Ákvarða skiptingu í samfélagsleg verðmæti með tilheyrandi tegundum afleiðinga og flokka afleiðinga og líkinda

   Skilgreina samfélagslega mikilvæg verkefni

   Fá fram upplýsingar um og lýsingu á viðkomandi sveitarfélagi

   Skilgreina innri og ytri aðila sem taka þátt

   Skipuleggja nauðsynlegar aðgerðir við framkvæmdahluta greiningarinnar

Framkvæmd

   Bjóða innri og ytri aðilum að koma að framkvæmd

   Bera kennsl á óæskileg atvik

   Fara yfir öll óæskileg atvik sem greindust

·   Gefa atvikinu nafn og númer

·   Lýsa atburðarásinni

·   Kortleggja undirliggjandi orsakir og núverandi ráðstafanir/forvarnir

·   Leggja mat á líkur á að óæskileg atvik gerist í sveitarfélaginu

·   Meta viðkvæmni með því að kortleggja hvaða samfélagslega mikilvægu verkefni óæskilega atvikið hefur áhrif á og hvaða áhrif þetta hefur á sveitar­félagið

·   Tilgreina hvaða afleiðingar eru líklegar fyrir atvikið

·   Meta þörf fyrir viðvörun til íbúa og rýmingu

·   Tilgreina óvissu og getu sveitarfélagsins til að stýra áhættunni

·   Leggja til úrbætur, aðrar ráðstafanir eða forvarnir til að draga úr áhættu og viðkvæmni

   Setja saman öll eyðublöðin til að fá fram heildarmynd af áhættu og áfallaþoli

   Meta aðrar leiðir til að sýna upplýsingarnar:

·   áskoranir fyrir samfélagslega mikilvæg verkefni

·   í áhættufylki

   Undirbúa tillögur um eftirfylgni og markmið fyrir vinnu sveitarfélagsins við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað

   Skrifa skýrslu

   Kynna heildarmyndina af áhættu og áfallaþoli og tillögur að framkvæmdaáætlun fyrir stjórnendum sveitarfélagsins og sveitarstjórn

Eftirfylgni í sveitarfélaginu

   Festa í sessi greiningu á áhættu og áfallaþoli hjá sveitarstjórn

   Ákveða framkvæmdaáætlun með markmiðum, ráðstöfunum (úrbótum, forvörnum og öðrum aðgerðum), ábyrgð og tímamörkum

   Koma á alhliða og skipulegu starfi við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað

   Samþætta vinnu við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað við áætlanir sem krafa er um í skipulags-, brunamála- og mannvirkjalögum

 


 

 


Heimildir

 

 

Beredskabsstyrelsen. (2006). Introduktion og brugervejledning til ROS-modellen. Sótt 10.12.2020 af https://brs.dk/globalassets/brs---beredskabsstyrelsen/dokumenter/krisestyring-og-beredskabsplanlagning/2020/rosmodel/-brugervejledning_ros-modellen-.pdf

 

Beredskabsstyrelsen. (2008). Vejledning i gennemførsel af ROS60. Sótt 10.12.2020 af https://brs.dk/globalassets/brs---beredskabsstyrelsen/dokumenter/krisestyring-og-beredskabsplanlagning/2020/rosmodel/-ros60vejledning-.pdf

 

Beredskabsstyrelsen. (2020). Powerpoints til brug under gennemførelsen af ROS60. Sótt 10.12.2020 af https://brs.dk/globalassets/brs---beredskabsstyrelsen/dokumenter/krisestyring-og-beredskabsplanlagning/2020/ppt/ros60-dias.ppt 

 

Beredskabsstyrelsen. (e.d.). ROS-model, del 1 Udgangspunkt for analysen. Sótt 10.12.2020 af https://brs.dk/globalassets/brs---beredskabsstyrelsen/dokumenter/krisestyring-og-beredskabsplanlagning/2020/rosmodel/ros-model_del_1.doc

 

Beredskabsstyrelsen. (e.d.). ROS-model, del 2 Identifikation af trusler. Sótt 10.12.2020  af https://brs.dk/globalassets/brs---beredskabsstyrelsen/dokumenter/krisestyring-og-beredskabsplanlagning/2020/rosmodel/ros-model_del_2.doc

 

Beredskabsstyrelsen. (e.d.). ROS-model, del 3 Analyse af trusselsscenariet. Sótt 10.12.2020  af https://brs.dk/globalassets/brs---beredskabsstyrelsen/dokumenter/krisestyring-og-beredskabsplanlagning/2020/rosmodel/ros-model_del_3.doc

 

Beredskabsstyrelsen. (e.d.). ROS-model, del 4 Risiko- og sårbarhedsprofil. Sótt 10.12.2020 af https://brs.dk/globalassets/brs---beredskabsstyrelsen/dokumenter/krisestyring-og-beredskabsplanlagning/2020/rosmodel/ros-model_del_4.doc

 

FOI. (2011). foi:s modell för risk- och sårbarhetsanalys (FORSA). Sótt 10.12.2020 af https://www.foi.se/rapportsammanfattning?reportNo=FOI-R--3288--SE

 

Dovre Safetec AS o.fl. (1995). Bruk av Risiko- og sårbarhetsanalyser i lokalforvaltningen – Et samarbeidsprosjekt i Midt-Norge, Trondheim

 

DSB. (2012). Veiledning til forskrift om kommunal beredskapsplikt. Sótt 10.12.2020 af https://www.dsbinfo.no/dsbno/2012/veiledning/veiledningtilforskriftomkommunalberedskapsplikt/

 

DSB. (2012). Sikkerhet i kritisk infrastruktur og kritiske samfunnsfunksjoner – modell for overordnet risikostyring, KIKS-prosjektet – 1. delrapport. Sótt af https://www.dsb.no/globalassets/dokumenter/rapporter/sikkerhet-i-kritisk-infrastruktur.pdf

 

DSB. (2013). Veileder for sikkerhet ved store arrangementer. Sótt af https://www.dsbinfo.no/dsbno/2013/tema/veilederforsikkerhetvedstorearrangementer/

 

DSB. (2014). Veileder til helhetlig risiko- og sårbarhetsanalyse i kommunen. Sótt 10.12.2020 af https://www.dsb.no/globalassets/dokumenter/veiledere-handboker-og-informasjonsmateriell/veiledere/veileder-til-helhetlig-risiko-og-sarbarhetsanalyse-i-kommunen.pdf

 

DSB. (2014). Fremgangsmåte for scenarioanalyser i Nasjonalt risikobilde. Sótt af https://www.dsb.no/globalassets/dokumenter/rapporter/nrb_2014.pdf

 

DSB. (2014). Veileder for Fylkesmannens arbeid med ROS. Sótt 10.12.2020 af https://www.dsb.no/globalassets/dokumenter/veiledere-handboker-og-informasjonsmateriell/veiledere/veileder_for_fylkesros_v.3.pdf

 

DSB. (2016). Veileder krisekommunikasjon. Sótt 10.12.2020 af https://www.dsb.no/lover/risiko-sarbarhet-og-beredskap/veileder/veileder-krisekommunikasjon/

 

LÄNSSTYRELSEN I KRONOBERGS LÄN. (2003). ROSA en metod för risk- och sårbarhetsanalyser. Sótt 10.12.2020 af https://www.msb.se/contentassets/73c39aa9574644f7ab9948319cc17cf8/risk_sarbarhet_kronobergs_lan_2003.pdf

 

Noregs vassdrags- og energidirektorat. (2011). Retningslinjer nr 2/2011. Flaum- og skredfare i arealplanar (revidert i 2014). Sótt af https://www.statsforvalteren.no/siteassets/utgatt/fm-finnmark/dokument-fmfi/beredskap/klima-og-miljo/nve_retningslinjer_flom_og_skredfare_i_arealplaner_2-11.pdf

 

NOU 2000:24. (2000). Et sårbart samfunn. Utfordringer for sikkerhets- og beredskapsarbeidet i samfunnet. Sótt af https://www.regjeringen.no/no/dokumenter/nou-2000-24/id143248/

 

IEMA.(2006). Risk management for the environmental practitioner. Newport.The Instititute of Environmental Management and Assessment.

 

Post- og teletilsynet. (2016). Robust elektronisk kommunikasjon - veiledning og råd til kommuner. Sótt af https://docplayer.me/18757234-Robust-elektronisk-kommunikasjon-veiledning-og-rad-til-kommuner.html

 

Ríkislögreglustjórinn, Almannavarnadeild. (2011).  Áhættuskoðun Almannavarna. Sótt af https://www.almannavarnir.is/wp-content/uploads/2016/05/Inngangur-%C3%81h%C3%A6ttusko%C3%B0un-og-umd%C3%A6min.pdf

 

Skipulagsstofnun. (2014). Skipulagsmál á Íslandi 2014. Sótt 16.12.2020 af https://www.skipulag.is/skipulagsstofnun/utgafa/skipulagsmal-a-islandi-2014-lykilmaelikvardar-og-fyrirliggjandi-aaetlanir

 

Skipulagsstofnun. (2015). Endurskoðun aðalskipulags. Sótt 10.12.2020 af https://www.skipulag.is/media/skipulagsmal/akvordun_um_endursk_ASK_2015.pdf

 

Sólveig Þorvaldsdóttir, Ásthildur Elva Bernharðsdóttir, Herdís Sigurjónsdóttir, Geir Oddsson og Guðrún Pétursdóttir. (2008). Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum. Stofnun Sæmundar fróða, Reykjavík. Sótt 11.12.2020 af https://ssf.hi.is/sites/default/files/2020-11/langtimavidbrogd-vid-natturuhamforum.pdf

 

Statens strålevern. (2017). Plangrunnlag for kommunal atomberedskap. Sótt af https://dsa.no/atomberedskap/atomberedskap-i-norge/Plangrunnlag_kommunal_atomberedskap_2017.pdf

 

Standard Norge. (2008).  Krav til risikovurderinger NS 5814:2008. https://www.standard.no/no/nettbutikk/produktkatalogen/produktpresentasjon/?ProductID=337102

 

Standard Norge. (2009). Risikostyring - Prinsipper og retningslinjer NS-ISO 31000:2009. https://www.standard.no/no/nettbutikk/produktkatalogen/produktpresentasjon/?ProductID=428582

 

Stjórnarráð Íslands, Forsætisráðuneyti. (2013). Handbók um verkefnastjórnun fyrir Stjórnarráðið. Sótt 11.12.2020 af https://www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/utgefidefni/handbok-verkefnastjornun.pdf

 

Stjórnarráð Íslands, Samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytið. (2020).  Yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga. Sótt 10.12.2020 af https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/L%c3%b6gm%c3%a6lt%20verkefni%20listi%20150720.pdf

 

Turney, R. (1996). Risk analysis in the process industries (2.ed.) Institution of Chemical Engineers.

 

Vinnem, J.E. & Hope, B. (1986).  Offshore safety management. Trondheim, NTNU

 


 

 


Viðaukar

 


Viðauki 1
Skyldur sveitarfélagsins í lögum og reglugerðum

 

 

Lög 82/2008 um almannavarnir

IV. kafli. Skipulag almannavarna í héraði.

 9. gr. Almannavarnanefndir.

 Í hverju sveitarfélagi starfar almannavarnanefnd sem sveitarstjórn skipar og ákveður sveitarstjórnin fjölda nefndarmanna. Almannavarnanefnd skal skipuð [lögreglu­stjóra] þess umdæmis sem sveitarfélagið er í, fulltrúum úr sveitarstjórn og þeim fulltrúum sveitarstjórna sem í starfi sínu sinna verkefnum í þágu öryggis hins almenna borgara.

 Almannavarnanefnd kýs sér sjálf formann og varaformann. Sveitarstjórnir ráða starfs­menn almannavarnanefnda og greiða kostnað af störfum þeirra.

 Sveitarstjórnum er heimilt að vinna saman að gerð viðbragðsáætlunar, semja um gagn­kvæma aðstoð eða koma á fót sameiginlegri almannavarnanefnd. Sameining almanna­varna­nefnda eða samstarf þeirra er háð staðfestingu ráðherra. Ráðherra ákveður hvaða lögreglustjóri skuli sitja í almannavarnanefnd ef fleiri en eitt lögreglu­umdæmi falla undir nefndina. Ef ein almannavarnanefnd er í umdæmi lögreglustjóra skal hann sitja í nefndinni.

 10. gr. Hlutverk almannavarnanefnda.

 Almannavarnanefndir móta stefnu og skipuleggja starf sitt að almannavörnum í héraði í samræmi við lög þessi.

 Í umdæmum sínum vinna almannavarnanefndir að gerð hættumats og viðbragðs­áætlana, í samvinnu við ríkislögreglustjóra, sbr. 16. gr.

 Almannavarnanefndir skulu endurskoða hættumat og framkvæma prófanir á viðbragðs­áætlunum í samvinnu við ríkislögreglustjóra.

 11. gr. Aðgerða- og vettvangsstjórn í héraði.

 Stjórn aðgerða í héraði þegar almannavarnaástand ríkir er í höndum lögreglustjóra í við­komandi lögregluumdæmi. Hann situr í aðgerðastjórn ásamt fulltrúa almanna­varna­nefndar, fulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar, fulltrúa Rauða kross Íslands, hlut­að­eigandi viðbragðsaðila, sbr. viðbragðsáætlun, svo og öðrum hlutaðeigandi aðilum sem tengjast aðgerðum hverju sinni. Aðgerðastjórn starfar í samvinnu við samhæfingar- og stjórnstöð. Í stjórn aðgerða felst m.a. skipulag björgunar- og hjálparstarfa vegna hættu eða tjóns sem getur eða hefur skapast og að stýra neyðaraðgerðum í samvinnu við sam­hæfingar- og stjórnstöð, sbr. 12. gr.

 Lögreglustjóri tilnefnir vettvangsstjóra er fari með stjórn og samhæfingu á vettvangi.

VI. kafli. Gerð viðbragðsáætlana.

16. gr. Skylda sveitarfélaga til að gera viðbragðsáætlanir.

 Sveitarfélög og stofnanir á þeirra vegum skulu, í samvinnu við ríkislögreglustjóra, kanna áfallaþol í umdæmi sínu. Þá skulu almannavarnanefndir, í samvinnu við ríkislög­reglu­stjóra, gera viðbragðsáætlun í samræmi við hættumat í umdæmi þeirra. Um efni við­bragðs­áætlana fer skv. 15. gr.

 Almannavarnanefndum er heimilt að hafa samvinnu um gerð viðbragðsáætlana. Hafi almannavarnanefndir verið sameinaðar skal gerð sameiginleg viðbragðsáætlun.

 Ríkislögreglustjóri skal hafa yfirumsjón með samvinnu einstakra sveitarfélaga vegna sameiginlegrar hættu svo og þegar almannavarnanefndir tveggja eða fleiri sveitarfélaga gera viðbragðsáætlun.

Reglugerð NR. 323/2010 um efni og gerð viðbragðsáætlana

1. gr.

Einstök ráðuneyti, undirstofnanir þeirra, sveitarfélög og stofnanir á þeirra vegum skulu gera viðbragðsáætlun þar sem gerð er grein fyrir viðbrögðum og aðgerðum í almanna­varnaástandi. Almannavarnanefndir sveitarfélaganna skulu gera viðbragðs­áætlanir sem ná til umdæma þeirra og varða viðbrögð og aðgerðir í samræmi við hættu­mat umdæmis­ins.

Viðbragðsáætlanir skulu unnar í samvinnu við ríkislögreglustjóra sem gefur út fyrirmynd að viðbragsáætlunum og leiðbeiningar um gerð þeirra.

2. gr.

Sá sem gera skal viðbragðsáætlun, sbr. 1. gr., skal boða þá viðbragðsaðila sem hlutverki hafa að gegna í áætluninni til fundar. Úr þeim hópi skal valinn verkefnastjóri og tveir menn með honum í stýrihóp sem útbýr viðbragðsáætlun. Stýrihópurinn skal við þá vinnu hafa samráð við vinnuhóp sem í sitja fulltrúar þeirra viðbragðsaðila sem hlutverki hafa að gegna í áætluninni.

Viðbragðsáætlun skal staðfest af viðkomandi ráðuneyti, stofnun eða almannavarnanefnd og send ríkislögreglustjóra.

3. gr.

Auk þeirra atriða er greinir í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 82/2008 um almannavarnir skulu a.m.k. eftirfarandi atriði koma fram í viðbragðsáætlun:

   inngangur þar sem m.a. er gerð grein fyrir viðeigandi lögum og þeim forsendum sem viðbragðsáætlun byggir á

   skilgreiningar á hugtökum

   upplýsingar um staðhætti

   stigskipting viðbragðsáætlunar í óvissu-, hættu- og neyðarstig

   hverjir teljist til viðbragðsaðila, hlutverk þeirra, viðbrögð og starfssvæði

   hvernig staðið skuli að boðun viðbragðsaðila

   hver taki ákvörðun um virkjun viðbragðsáætlunar

   breytingasaga viðbragðsáætlunar

 


 

Viðauki 2
Verðmæti í samfélaginu, tegundir afleiðinga ásamt flokkum fyrir afleiðingar, líkur, óvissu og hversu mikið hægt er að stýra hættunni

 

 

Hér á eftir eru tillögur um samfélagsleg verðmæti með tilheyrandi tegundum afleiðinga, skiptingu í flokka afleiðingar og líkinda ásamt vísbendingu um óvissu og hversu mikið er hægt að stýra hættunni. Hvert sveitarfélag verður að laga tillögurnar að sínum aðstæðum.

Líkindaflokkar

Dæmi um líkindaflokka er að finna hér að neðan. Markmiðið með því að búa til slíka flokka líkinda er að aðgreina hina ýmsu óæskilegu atvik til að sjá dreifingu í tíma í heildar­myndinni af áhættu og áfallaþoli sem getur lagt grunn að forgangsröðun.

Flokkur

Tímabil

Líkur (árlega)

Skýring

E

Oftar en 1 sinni á 10 árum

> 10 %

Mjög miklar

D

1 sinni á 10 til 50 árum

2–10 %

Miklar

C

1 sinni á 50 til 100 árum

1–2 %

Meðal

B

1 sinni á 100 til 1 000 árum

0,1–1 %

Litlar

A

Sjaldnar en 1 sinni á 1 000 árum

< 0,1 %

Mjög litlar

 

Líkindin 0,1% virka lítil og getur verið erfitt að taka afstöðu til þeirra. Ef öll sveitarfélög væru eins samsvarar það yfir 7% líkum á að atburðurinn eigi sér stað í einu af um sjötíu sveitarfélögum landsins. Að meðaltali verður eitt atvik á tveggja til þriggja ára fresti á landsvísu. Ef talið er að alvarlegt tankbílaslys eigi sér stað á hundrað ára fresti hjá meðal­sveitarfélagi, þá þýðir það að slíkt atvik gæti átt sér stað tæplega einu sinni á einu ári á landsvísu (þ.e. sjö sinnum á tíu árum). Þá verður að íhuga hvort slíkt hljómi skynsam­lega þegar líkur á tilteknu atviki í sveitarfélagi eru ræddar.

Verðmæti í samfélaginu og tegundir afleiðinga

ÖRYGGI BORGARANNA

Verðmæti

Afleiðingar

Líf og heilsa

Fjöldi látinna

Fjöldi slasaðra eða veikra

Stöðugleiki

Óuppfylltar grunnþarfir

Truflanir á daglegu lífi

Náttúra og umhverfi

Varanlegur skaði á náttúru/umhverfi

Varanlegur skaði á menningarverðmætum, -starfsemi eða –minjum

Efnahagsleg verðmæti

Efnahagslegt tjón

 

Flokkar afleiðinga

Hér að neðan er dæmi um flokka afleiðinga fyrir mismunandi tegundir afleiðinga. Markmiðið með því að búa til flokka afleiðinga er að greina hin ýmsu óæskilegu atvik hvert frá öðru hvað varðar alvarleika svo að hægt sé að nota greininguna sem grunn að forgangsröðun. Það er ekki ætlunin að bera saman tegundir afleiðinga eða mismunandi samfélagsleg verðmæti. Það er m.ö.o. ekki ætlunin að vega líf og heilsu á móti náttúru og umhverfi. Flokkarnir eru númeraðir frá 1–5 þar sem 5 er alvarlegastur. 

Flokkur

Skýring

5

Mjög miklar

4

Miklar

3

Meðal

2

Litlar

1

Mjög litlar

 

Skiptingu í flokka afleiðinga, bæði fjölda flokka og tilheyrandi gildi, verður að laga að hverju sveitarfélagi, meðal annars út frá stærð sveitarfélagsins. Þetta þýðir að sveitarfélag með fáa íbúa getur haft allt annað gildi fyrir alvarlegasta afleiðingarflokkinn en samsvarandi flokkur fyrir stórt sveitarfélag.

Líf og heilsa

Flokkur

Fjöldi látinna

 

Flokkur

Fjöldi slasaðra eða veikra

5

> 10

5

> 100

4

6–10

4

20–100

3

3–5

3

6–20

2

1–2

2

3–5

1

Enginn

1

1–2

 

Stöðugleiki – Óuppfylltar grunnþarfir

Íbúa skortir mat, drykkjarvatn, hita og lyf vegna atviksins.

Áhrifaflokka 1–5 er hægt að tilgreina sem blöndu af fjölda þeirra sem verða fyrir áhrifum af atvikinu og hversu lengi áhrifin vara:

Fjöldi
þolenda

 

Tímalengd

< 50 einstaklingar

 

50–200 einstaklingar

200–1000 einstaklingar

 

> 1 000 einstaklingar

 

> 7 dagar

Flokkur 3

Flokkur 4

Flokkur 5

Flokkur 5

2–7 dagar

Flokkur 2

Flokkur 3

Flokkur 4

Flokkur 5

1–2 dagar

Flokkur 1

Flokkur 2

Flokkur 3

Flokkur 4

< 1 dag

Flokkur 1

Flokkur 1

Flokkur 2

Flokkur 3

 

Stöðugleiki – Truflanir á daglegu lífi

Íbúar geta ekki átt samskipti eftir venjulegum leiðum, komast ekki í vinnu eða skóla, skortir aðgang að opinberri þjónustu, innviðum og vörum.

Áhrifaflokka 1-5 er hægt að tilgreina sem blöndu af fjölda þeirra sem verða fyrir áhrifum af atvikinu og hversu lengi áhrifin vara:

Fjöldi
þolenda

 

Tímalengd

< 50 einstaklingar

 

50–200 einstaklingar

200–1000 einstaklingar

 

> 1 000 einstaklingar

 

> 7 dagar

Flokkur 3

Flokkur 4

Flokkur 5

Flokkur 5

2–7 dagar

Flokkur 2

Flokkur 3

Flokkur 4

Flokkur 5

1–2 dagar

Flokkur 1

Flokkur 2

Flokkur 3

Flokkur 4

< 1 dag

Flokkur 1

Flokkur 1

Flokkur 2

Flokkur 3

 

Náttúra og umhverfi – Varanlegur skaði á náttúru/umhverfi

Áhrifaflokka 1-5 vegna skemmda á náttúrulegu umhverfi má setja fram sem blöndu af landfræðilegri dreifingu og tímalengd tjóns. Dreifingu er hægt að tilgreina sem svæði í km2 eða sem lengd, t.d. km strandlengju.

Landfræðileg

dreifing

 

 

Tímalengd

< 3 km2/km

3-30 km2/km

30-300 km2/km

> 300 km2/km

> 10 ár

Flokkur 2

Flokkur 3

Flokkur 4

Flokkur 5

3–10 ár

Flokkur 1

Flokkur 2

Flokkur 3

Flokkur 4

 

Náttúra og umhverfi – Varnalegur skaði á menningarverðmætum, ‑starfsemi eða ‑minjum

Tjón og/eða varanleg rýrnun menningarumhverfis/menningarminja má setja fram á grundvelli verndarstöðu/verndargildis og hve mikil eyðilegging er:

Verndarstaða/

verndargild

i

Hve mikil eyðilegging

Menningarminjar sem eru verðug­ar verndar

 

Menningarlegt umhverfi sem er verðugt verndar

 

Friðaðar menningarminjar

Friðað menningarlegt umhverfi

Mikil eyðilegging

2

3

4

5

Takmörkuð eyðilegging

1

2

3

4

 

Nokkrar skilgreiningar frá Minjastofnun:

Hvað eru menningarminjar?

Menningarminjar teljast ummerki um sögu þjóðarinnar, svo sem fornminjar, menningar- og búsetulandslag, sögustaðir, kirkjugripir og minningarmörk, hús og önnur mannvirki, skip og bátar, samgöngutæki, listmunir og nytjahlutir svo og myndir og aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar.

Hvað er friðlýsing?

Friðlýsing er mesta mögulega verndun menningarminja á Íslandi og er talað um að menningarminjar séu friðlýstar sem þjóðminjar. Friðlýsingu er þinglýst sem kvöð á fasteign og er það gert til að tryggja sem best varðveislu menningarminjanna. Hægt er að friðlýsa fornleifar, skip og báta, hús og mannvirki í heilu eða hluta, sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi. Friðlýsing getur náð til nánasta umhverfis hins friðlýsta minjastaðar, húss eða mannvirkis. Friðlýsa má samfelld svæði þar sem fleiri en einn minjastaður teljast hafa sérstakt menningarsögulegt gildi sem og samstæður húsa. Umhverfi friðlýstar fornleifar er 100 m friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra. Friðlýstum menningarminjum má enginn — hvorki eigandi, landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar— raska, spilla, granda, hylja, flytja úr stað eða rífa nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.

Efnahagsleg verðmæti

Beinn kostnaður vegna atviksins í formi fjárhagslegs tjóns sem tengist tjóni á eignum, viðbragði og endurreisn.

Flokkur

Efnahagslegt tjón

5

> 80 mrd. krónur

4

30 – 80 mrd. krónur

3

8 – 30 mrd. krónur

2

1.500–8000 mill. krónur

1

< 1.500 mill. krónur

 

Mat á óvissu

Óvissan er talin mikil ef eitt eða fleiri af eftirfarandi atriðum eiga við:

   Viðeigandi gögn (þekking) og reynsla eru ófáanleg eða óáreiðanleg.

   Atvikið/fyrirbærið sem verið er að greina er illa eða lítið þekkt.

   Sérfræðingarnir sem taka þátt í matinu eru ósammála.

Annars er óvissan talin lítil.

Mat á hversu mikið er hægt að stýra hættunni

Eftirfarandi flokkar eru lagðir til við flokkun á hve mikið hægt er að stýra hættunni:

   Mikið: Sveitarfélagið getur haft stjórn.

   Meðal: Sveitarfélagið getur haft áhrif.

   Lítið: Sveitarfélagið getur ekki haft áhrif.


 

Viðauki 3
Dæmi um umboð

 

 

Umboð

Vinnuhópnum er veitt umboð til að undirbúa greiningu á áhættu og áfallaþoli fyrir sveitarfélagið XXXX og skrá niðurstöður vinnunnar í skýrslu. Byggt á greiningunni á áhættu og áfallaþoli gerir vinnuhópurinn tillögu að framkvæmdaáætlun fyrir vinnu sveitarfélagsins við að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað.

Greiningin á að uppfylla kröfur til greininga á áhættu og áfallaþoli sem gerðar eru í lögum nr. 82/2008 um almannavarnir.

Markmið

Markmiðið með greiningu á áhættu og áfallaþoli er að:

·       fá fram yfirlit yfir áhættu og viðkvæmni í sveitarfélaginu og hvaða áhrif þau hafa á sveitarfélagið.

·       greina veikleika og innbyrðis tengsl.

·       leggja til úrbætur og aðrar aðgerðir til að draga úr og stjórna áhættu og viðkvæmni.

·       fá fram grundvöll undir skipulag og stuðning við ákvarðanir í starfi sveitarfélagsins er varðar öryggi borgaranna og viðbúnað.

Skipulag, hlutverk og ábyrgð

·       Verkkaupi og eigandi greiningar á áhættu og áfallaþoli er sveitarstjórn.

·       Fulltrúar frá stjórnendum sveitarfélagsins skipa stýrihópinn, skipa verkefnastjóra og velja þátttakendur í verkefninu fyrir vinnu vinnuhópsins.

·       Vinnuhópurinn ber ábyrgð á skipulagningu og framkvæmd greiningar á áhættu og áfallaþoli.

·       Verkefnastjóri verður að halda stýrihópnum upplýstum um stöðu verkefnisins á hverjum tíma.

·       Sveitarfélagið skuldbindur sig til að taka virkan þátt í öllum verkþáttum verkefnisins.

·       Hlutaðeigandi opinberum og einkaaðilum er boðið að koma að framkvæmd­inni.

·       Verkefnastjóra ber að kynna niðurstöður greiningarinnar á áhættu og áfallaþoli, þ.  á m. tillögu að framkvæmdaáætlun fyrir stjórnendum sveitarfélagsins.

·       Stjórnendur sveitarfélagsins bera ábyrgð á að leggja greiningu á áhættu og áfalla­þoli fyrir sveitarstjórn og fylgja framkvæmdaáætlun eftir.

Fjárhags- og tímaáætlun

·       Verkefnið fær fjárhagsramma upp á XXX XXX íslenskar krónur

·       Verkefnið hefst þann dd.mm.20XX og skýrslu verður skilað fyrir dd.mm.20XX


 

Viðauki 4
Dæmi um sérstakar aðstæður í sveitarfélaginu

 

 

Flokkur

Aðstæður

Landslag og jarðfræði

Strandlengja

Vatnsföll

Eyjar

Fjöll

Dalir

Opið/einangrað landslag

Láglend svæði

Strandsvæði

Nágrannasveitarfélög (þættir sem geta skipt máli fyrir sveitarfélagið)

Jarðskjálftasvæði

Virk eldfjöll

Náttúrulegar aðstæður

Óveður

Bylgjur/ölduhæð

Snjór/hálka

Frost/þýða

Úrkomuleysi/mikill þurrkur

Áhlaðandi

Flóð í sjó/vatnsföllum

Flóð/yfirborðsvatn í þéttbýli

Hækkun sjávar

Skriður (leir, grjót, jarðvegur, fjöll, snjór)

Rof

Loftslagsbreytingar

Félagslegar aðstæður

Fjöldi íbúa

Vegalengdir

Lýðfræði

Sérstaklega viðkvæmir hópar

Aðrar félagslegar aðstæður

Stærð sveitarfélag/stjórnsýsla

Skipulag

Hversu háð er stjórnun sveitarfélagsins lykilmönnum (staðgenglar)?

Gestir/ferðamenn

Nemendur (stúdentar)

Samgöngur

Vegir

Línur

Flug

Flugvöllur

Hafnir

Skipakomur

Viðskipti/iðnaður

Atvinnuvegir

Fyrirtæki sem fara með samfélagslega mikilvæg verkefni

Staðsetning iðnaðar/atvinnusvæðis, blöndun byggðar

Lykil fyrirtæki (Hornsteinar atvinnulífsins)

Starfsemi sem meðhöndlar hættuleg efni, þar með talin stórslysastarfsemi

Úrgangur/urðun og endurvinnsla

Helstu viðburðir (íþróttir, tónleikar, hátíðir, stjórnmálafundir)

Veitendur áhættusamrar neytendaþjónustu

Menningarleg gildi, náttúra og umhverfi

Verndaðar menningarminjar og ‑umhverfi

Menningarminjar og ‑umhverfi sem er verðugt verndar

Náttúru- og umhverfisauðlindir

Heitar uppsprettur

Jarðvarmaver

Vatnsaflsvirkjanir

Vindmyllur

Hitaveita

Vatnsból

Vatnsveita

 


 

Viðauki 5:
Dæmi um áhættuþætti
(óæskileg atvik)

 

 

Gerðir atburða

Flokkur

Dæmi um óæskileg atvik

Atvik í náttúrunni

Óveður

Stormur og fellibylur

Úrkomuleysi/mikill þurrkur

 

Mikil úrkoma
(rigning, snjór, haglél)

 

Eldingar og þrumuveður

 

Mjög kalt

 

Fárviðri

Flóð

Flóð

 

Flóð í þéttbýli

 

Flóð

 

Áhlaðandi

 

Jökulhlaup

Skriður

Skriður og aurskriður

 

Snjóflóð

 

Flóðbylgja í tengslum við skriðuföll

Faraldur

Faraldur

 

Heimsfaraldur
(fólk, dýr)

Skógareldur/gróðureldur

Skógareldur/ gróðureldur

Jarðskjálfti

Jarðskjálfti

Eldgos

Eldgos

Stór slys

Vegur

Meiriháttar umferðarslys

 

Slys í jarðgöngum

 

Rútuslys

 

Slys með hættulegan varning

Línur

Árekstrar
 (lest, bíll, einstaklingur, dýr)

 

Útafakstur (afsporun)

 

Eldur/reykur um borð

Flug/flugumferð

Flugslys
(á flugvelli, í sveitarfélaginu)

 

Árekstur milli flugvéla á jörðu niðri

 

Þyrluslys

Sjór/skipaumferð

Árekstur skips

 

Skipbrot

 

Slys á tankskipi

 

Slys á farþegaskipum

 

Ferjuslys

 

Stór olíuleki

Atvinnufyrirtæki/iðnaður

Losun á gasi

 

Losun annarra hættulegra efna

 

Eldur/sprenging í iðnaði (birgðastöð, olíuhöfn, gas birgðastöð, olíu­hreins­unar­stöð, díseltankur, verksmiðja)

 

Eldur

 

Sprenging

Stór slys frh.

Kjarnorkuslys

Mikil losun í lofti frá aðstöðu erlendis sem getur komið yfir Ísland og hafa áhrif á stóra eða minni hluta landsins

 

Losun í lofti frá aðstöðu eða annarri starfsemi á Íslandi

 

Atvik í héraði á Íslandi eða nærliggjandi svæðum án staðbundinnar tengingar

 

Atvik í héraði sem þróast yfir lengri tíma

 

Mikil losun í sjávarumhverfi á Íslandi eða á nærliggjandi haf­svæðum eða sögusagnir um verulega mengun sjávar eða jarðar

 

Alvarleg atvik erlendis án beinna afleiðinga fyrir íslenskt yfirráðasvæði

Eldur

Eldur í flutningatækjum (vegur, línur, loft, sjó)

 

Eldur í byggingum og aðstöðu (sjúkrahús, hjúkrunarheimili, skólar, leikskólar, íþróttahús/stúkur, móttaka hælisleitenda, fangelsi/gæsluvarðhald, hótel, stórir vinnustaðir, menningararfur sem er verður verndar/ friðaður, sprengiefnageymsla)

 

Aðrir stórbrunar

Sprenging

Sprenging í iðnaðarstarfsemi

 

Sprenging í birgðastöð

 

Sprenging í flugeldum eða sprengiefnageymsla

 

Aðrar sprengingar

Annað

Atvik á stórviðburðum

 

Óviðeigandi rekstur (áhættusamrar) neytendaþjónustu

 

Atvik utan landsvæðis sveitarfélagsins sem er mikilvægt fyrir sveitarfélagið (t.d. slys hjá fyrirtæki sem veldur mengun í nágranna­sveitar­félögum eða losun hættu­legra lofttegunda sem reka inn í nágranna­sveitar­félag)

 

Uppistöðulón brestur

 

Hrun/altjón á byggingum

 

Langvarandi tap á rafmagns­afhendingu

 

Langvarandi tap á fjarskipta- eða upplýsingatækniþjónustu

 

Langvarandi tap á dreifingu neysluvatns

 

Dreifing óhollra matvæla (bakteríur, eiturefni, vírusar, sveppir, sníkjudýr)

 

Dreifing mengaðs/eitraðs drykkjarvatns
(legionella, giardia)

 

Bráð loftmengun

Viljaverk

Hryðjuverk

Hryðjuverkaárás

Sprengjuhótun

Glæpsamlegt athæfi

Ótrúr þjónn

 

Glæpur (gróft rán)

 

Ofbeldi

 

Skotárás í gangi
(skóli, háskóli, háskóli, samkomusalur, viðburður)

 

Skemmdarverk á mikilvægum innviðum
(vatnsveitur, rafmagn, upplýsingatækni, flutningsnet)

 

Mannrán/gíslataka/flugrán

Stafrænir miðlar

Netárásir

Tölvuhakk (aðgangsbrot)

 


 

Viðauki 6
Ýmsar upplýsingar

 

 

Tegund upplýsinga

Uppspretta upplýsinga

Skýringar

Áhættu- og viðkvæmnigreiningar, greiningar á viðbúnaði og viðbúnaðaráætlanir

Greiningar á áhættu og viðkvæmni

Fyrri greiningar á áhættu og áfallaþoli frá sveitarfélaginu

 

Greiningar nágrannasveitarfélaganna á áhættu og áfallaþoli

 

Greiningar ráðuneyta og stofnana á áhættu og áfallaþoli

 

Greiningar á áhættu- og viðkvæmni úr ýmsum greinum í sveitarfélaginu og frá öðrum utanaðkomandi aðilum (heilbrigðis- og félagsþjónusta, orkuveitur, vatns-og fráveitur, sorphirða  og förgun úrgangs, vegagerð, iðnaður, slökkvilið, hafnir í sveitarfélaginu, loftslagsmál, bráð mengun)

 

Greiningar á áhættu og áfallaþoli tengdar aðal- og deiliskipulagi og skipulagsáætlunum

 

Greining annarra aðila á áhættu- og viðkvæmni

Viðbúnaðaráætlanir

Viðbragðsáætlun sveitarfélagsins

 

Viðbúnaðaráætlanir tengdar einstökum faggreinum eða málefnasviðum í sveitarfélaginu

 

Viðbúnaðaráætlanir sem tengjast fyrirtækjum með möguleika á stórslysum í sveitarfélaginu

 

Viðbúnaðargreiningar og áætlanir annarra aðila

Svæðisbundin skilyrði

Staðbundin þekking

Gögn og þekking á staðbundnum aðstæðum

Eftirlitsskoðanir

Eftirlits og úttektarskýrslur

Eftirlit annarra yfirvalda

Söguleg gögn

Slysatölfræði; nokkrar mögulegar heimildir:

·       Hagstofan
(skrá yfir dánarorsök)

·       Landlæknir (lýðheilsa)

·       Húsnæðis og mannvirkjastofnun (tölfræði um eldsvoða, rafmagns­slys og slys tengd hættulegum efnum)

·       Vinnueftirlitið (tölfræði um flutning á hættulegum varn­ingi og hættuleg efni)

·       Umhverfisstofnun (tölfræði um hættuleg efni)

·       Neytendastofa
(vöru- og neytenda­þjónusta)

·       Vegagerðin og Samgöngustofa
(umferðaróhappa­skrá og skrá yfir banaslys)

·       Samgöngustofa (banaslys á bátum)

·       Tölfræði um drukknunarslys

·       Tölfræði um óæskileg atvik og aðstæður


Hvað hefur gerst í sveitarfélaginu áður?


Hvað hefur gerst í öðrum sveitarfélögum?

Gögn frá mikilvægum innviðum og þjónustuaðilum

Upplýsingar frá orkuframleiðendum og rafveitum

Rannsóknarvinna, leiðbeiningar og skýrslur

 

Mat á afleiðingum

 

Íbúafjöldi Hagstofu

 

Náttúruvá og loftslagsbreytingar

Upplýsingar um náttúruvá og loftslagsmál fást frá Veðurstofu Íslands, Umhverfisstofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Almannavörnum, Vinnueftirlitinu, Neytendastofu, Orkustofnun, Jarðfræðistofnun, Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og íslenskum háskólastofnunum.

Kortagögn

Sjá stafrænt þemakort
(á næstu síðu)

 

STAFRÆNT ÞEMAKORT

Mikilvægar upplýsingar:

Gögn koma frá

Gerð gagna

Notkunarsvið

Orkustofnun

Veðurstofa Íslands

Náttúrufræðistofnun Íslands

Kort með varúðarsvæðum, hættusvæðum og hættusvæðum vegna skriðufalla og flóða

 

Fjöldi korta sem sýna athuganir á úrkomu frá ratsjá og vara við vindi, hitastigi, úrkomu (rigningu og snjó) og ölduaðstæðum

 

Aðrar tegundir athugana og viðvarana sem ekki eru á kortaformi (línurit, töflur og textaviðvaranir)

Svæði þar sem hætta er á atvikum

 

Sum kort með upplýsingar um líkur

 

Kort af fyrri atvikum, t.d. skriðum

 

Mat á afleiðingum

Vinnueftirlitið, Umhverfisstofnun

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Kort sem sýna aðstöðu með hættulegum efnum, sprengiefnageymslur, fyrirtæki sem falla undir reglur um stórslys og flutning hættulegs varnings

 

Gögn um hættuleg efni

Svæði þar sem hætta er á atvikum

Samgöngustofa

Vegagerðin

Kort með upplýsingum um sólarhringsumferð og umferðarslys

Hægt að nota við mat á hættu, líkum og afleiðingum

Hagstofan

Íbúafjöldi

Mat á afleiðingum

Minjastofnun

Kort yfir verndaðar menningarminjar og minjar sem eru verðugar verndar

Mat á afleiðingum

UAR

Kort yfir verndaða náttúru og náttúru sem er verðug verndar.

Mat á afleiðingum

 


 

Viðauki 7
Tillaga að efnisyfirliti fyrir greiningu á áhættu og áfallaþol

 

 

Dæmi um efnisyfirlit á greiningu á áhættu og áfallaþoli

1.      Samantekt og niðurstaða

2.      Inngangur með lýsingu á bakgrunni, tilgangi, forsendum, afmörkunum

3.      Umboð vegna verksins

4.      Lýsing á sveitarfélaginu ásamt upplýsingum um gögnin

5.      Lýsing á því hverjir hafa tekið þátt og hvernig ýmsir hagsmunaaðilar hafa komið að málinu

6.      Aðferð og vinnuferli

7.      Greining á óæskilegum atvikum (HazID)

8.      Greining á áhættu og viðkvæmni

9.      Úrbætur og fyrirbyggjandi aðgerðir

10.    Yfirlit yfir heildarmynd áhættu og áfallaþols

11.    Áhættustjórnun - tillögur vinnuhópsins um markmið, stefnumörkun, úrbætur og aðrar ráðstafanir ásamt framkvæmdaáætlun

12.    Heimildir

13.    Öll viðhengi, svo sem greiningareyðublöð, gátlistar sem hafa verið notaðir o.s.frv.


[1] Með íbúum er átt við þá sem eru staddir eða búsettir í sveitarfélaginu hverju sinni.

[2] Starfsemi sem fellur undir reglur um ráðstafanir til að koma í veg fyrir og takmarka afleiðingar stórslysa í fyrirtækjum þar sem hættuleg efni koma fyrir (Stórslysareglugerðin)

[3] Viðkvæmir hópar geta t.d. verið börn, fólk með skerta getu, fólk sem ekki talar íslensku, fólk sem ekki hefur tengslaneteða ferðamenn.

[4] Ákvörðuð mörk ásættanlegrar áhættu eins og t.d. eru tilgreind í reglugerð nr. 505/2000 um hættumat vegna ofanflóða, flokkun og nýtingu hættusvæða og gerð bráðabirgðahættumats.

[5]Skipulagslög 123/2010

[6]Mannvirkjalög 160/2010

[7]Um lands­skipulagsstefnu | Um | Landsskipulagsstefna. Sótt 25. október 2021 af https://www.landsskipulag.is/um-landsskipulagsstefnu/