Í skipulagi almannavarna er rýming hluti af mótvægisaðgerðum til að draga úr áhrifum hættu á samfélag og íbúa þess, áður en neyðarástand á sér stað eða á meðan neyðarástand varir. Það felur í sér að íbúar flytja á öruggari stað og síðan að þeir komist öruggir heim aftur í lok neyðarástands. Til að rýming gangi vel fyrir sig er mikilvægt að til sé áætlun um framkvæmd rýminganna.
Ríkislögreglustjóri gefur fyrirmæli um brottflutning fólks af hættusvæði. Almannavarnir geta sent SMS textaskilaboð  í farsíma til að vara við hættu á ákveðnu svæði og upplýsa um rýmingar.

Ef hættusvæði er yfirgefið t.d. heimili vegna ástands húss, snjóflóðahættu eða af annarri vá, eða stærra svæði rýmt að ákvörðun stjórnvalda verður öryggi best tryggt með eftirtöldum aðgerðum:

Frágangur húss og verðmæta þegar heimili er yfirgefið

 • Takið með ykkur það sem brýnt er að hafa, svo sem lyf og nauðsynjar ungbarna og gæludýra. Yfirlit yfir helstu nauðsynjar
 • Gangið tryggilega frá helstu verðmætum eða hafið þau meðferðis.
 • Tryggið að matvæli liggi ekki undir skemmdum, sérstaklega ef rafmagn er tekið af húsinu
 • Lokið gluggum og hurðum.
 • Ef rýma þarf háhýsi varist að taka lyftu ef hætta er á að rafmagn fari af eða rýma þarf við bruna. Einnig geta lyftur skekkst í jarðskjálfta.
 • Lokið fyrir gaskúta við eldavélar og grill.  Metið hvort loka skuli fyrir inntak vatns (heitt og kalt) og rafmagns en hafið í huga að mikið frost getur valdið frostskemmdum.
  Sé ákvörðun ykkar að hafa rafmagn í húsinu:
  • Skiljið eftir ljós í forstofu og við útidyr.
  • Aftengið öll rafmagnstæki frá straumgjafa og loftnet á sjónvarps- og útvarpstækjum.
 • Munið að klæðast vel og takið með neyðarkassa með helstu nauðsynjum

Nágrannahjálp
Athugið hvort nágrannar ykkar þurfi aðstoð, fylgist sérstaklega með hvort aldraðir, fatlaðir og fólk af erlendum uppruna hafi fengið upplýsingar um rýmningu.

SMS

Akið með fyllstu aðgát
Haldið af stað í samræmi við gefin fyrirmæli og fylgið umferðarstraumnum. Akið með fyllstu aðgát.

Gangandi flóttafólk
Takið gangandi flóttafólk með ykkur, ef rými er í bílnum.

Hlustið á útvarp og fylgist með fjölmiðlum:
Farið í einu og öllu eftir þeim fyrirmælum sem kunna að vera gefin.

Fjöldahjálparstöð
Haldið tafarlaust til næstu fjöldahjálparstöðvar og gefið ykkur fram þar. Fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins eru almennt í skólum (sjá lista) og er þar tekið á móti þeim sem þurfa að yfirgefa heimili eða vinnustað og því mikilvægt að vita hvar næsta fjöldahjálparstöð er.

fjöldahjálpastöð

Ekkert flutningstæki
Þeir sem ekki hafa eigið flutningstæki skulu koma sér að næstu fjöldahjálparstöð þar sem flutningar eru skipulagðir.

Athugið:  Ef lögreglustjóri gefur út fyrirmæli um rýmingu er íbúum skylt að rýma hús sín.  Almannavarnir í héraði opna fjöldahjálparstöð og halda skráningu um dvalarstaði íbúa þar til þeim er heimilt að fara heim.

Þeir sem ekki eiga kost á því að koma sér burt á eigin spýtur:

Tilkynnið um þörf á aðstoð
Tilkynnið að þörf sé á aðstoð við að komast út af svæðinu til næstu lögreglustöðvar eða fjöldahjálparstöðvar.

Ekkert símasamband
Ef það er símasambandslaust skal hengja áberandi hvíta veifu út um glugga sem snýr að aðalgötu eða er vel sýnileg.

þekkirðu