Jarðskjálftar
Jarðskjálftar verða þegar jarðskorpan brotnar eða hrekkur til á gömlum brotaflötum. Þeir gera sjaldnast boð á undan sér. Því er nauðsynlegt að gera öryggisráðstafanir fyrirfram og læra rétt viðbrögð.  Helstu hættusvæðin á Íslandi vegna jarðskjálfta eru á þverbrotabeltum á Suðurlandi og Norðurlandi og þar hafa orðið stórir jarðskjálftar.   

Helstu jarðskjálftasvæði landsins skýrast verulega af legu landsins á Mið-Atlantshafshryggnum. Veðurstofan vaktar jarðskjálfta á Íslandi með neti mælitækja um allt land og vinnur að rannsóknum með það að markmiði að auka þekkingu á eðli og umfangi jarðskjálfta. Rannsóknarmiðstöðin í jarðskjálftafræði greinir hæfni íslenskra bygginga til að standast jarðskjálfta. Um leið og stór jarðskjálfti verður, er viðbragðskerfi almannavarna virkjað.

Skjálftalísa er gagnvirk skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands. Í vefsjánni er hægt að skoða jarðskjálfta sem SIL-jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar hefur staðsett. Hægt er að skoða jarðskjálfta aftur í tímann alveg til ársins 2009 og sjá staðsetningar á gagnvirku korti. Einnig er hægt að velja ákveðin tímabil frá 2009 til dagsins í dag, tímabilin geta þó ekki verið lengri en 31 dagur í senn. Hægt er að skoða skjálfta á öllu landinu eða á fyrirfram ákveðnum eða sjálfvöldum svæðum.