Þegar jarðskjálfti verður, þá er gott að vera búin(n) að huga að hvernig best sé að bregðast við.

Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að halda ró sinni, krjúpa, skýla höfði og halda sér. Mörg slys í kjölfar jarðskjálfta verða þegar fólk hleypur um eða út úr byggingum.  Ef hlaupið er um í óðagoti aukast líkurnar á því að verða fyrir hlutum sem falla úr hillum eða af veggjum og þess háttar og oft er erfitt að halda jafnvægi.  Glerbrot geta verið á gólfum ásamt ótal muna sem geta valdið slysi ef stigið er ógætilega á þá og svona mætti lengi telja. 

Hér á eftir eru 5 algengar spurningar varðandi viðbrögðin Krjúpa – Skýla – Halda og svör við þeim. 

  Spurning 1: Til hvers á að krjúpa, skýla og halda?

Svar:  Ágæti þess að krjúpa, skýla og halda er í fyrsta lagi það að verjast fallandi hlutum sem geta komið ofanfrá í öðru lagi minnkar það líkur á að kastast til vegna skjálftans og í þriðja lagi gefur það viðkomandi tíma til að meta þá stöðu sem hann/hún er í.

  Spurning 2: Hver er ástæða þess að fara undir borð, það geta ekki allir gert. Til dæmis þeir sem hafa hamlaða hreyfigetu og geta ekki auðveldlega staðið upp úr stól hjálparlaust, hvað þá að fara undir næsta borð?

Svar: Fólk verður að meta viðbrögð sín með tilliti til getu sinnar og umhverfis. Það gæti hreinlega valdið meiðslum hjá fólki með hamlaða hreyfigetu að reyna að fara undir borð.  Það að fara undir borð varnar hinsvegar enn frekar því að fá í sig fljúgandi/fallandi hluti sem geta valdið slysi.  Þeir sem eiga þess kost að geta farið undir borð, krjúpa þar, skýla höfði og halda sér, þá eru þeir varðir eins og frekast er kostur innandyra.  Þeir sem hinsvegar geta ekki varið sig á þennan hátt, þurfa að grúfa sig niður (í rúmi eða stól) og skýla höfðinu með höndunum.

  Spurning 3: En að fara í dyragætt?  Fólk sem hefur brugðist við á þennan hátt og farið í dyragætt, hefur hreinlega fengið hurðina í andlitið, því hurðin hentist til og frá í skjálftanum.  Af hverju á að fara í dyragætt ef hætta er á að hljóta meiðsl af því að fá hurðina í sig?

Svar: Með því að staðsetja sig í dyragætt við jarðskjálfta þá ver viðkomandi sig fyrir fallandi hlutum úr tveimur áttum, það heldur flóttaleið opinni ef hurðagat skekkist í jarðskjálftanum því ef hurð er að stöfum og hurðarop skekkist er óvíst hvort hægt sé að komast út.  Eini gallinn við að staðsetja sig í hurðaopi er sú að hurð getur farið að skellast til og frá og því lent á þeim sem í hurðaropi stendur. Ef þessi leið er valin á meðan jarðskjálfti er viðvarandi er nauðsynlegt að vera meðvitaður um að hurðin getur farið að skellast. Mikilvægt að að hurðaropið sé í burðarvegg þar sem léttir veggir veita oft litla vernd. Athugið að í nýjum húsum eru hurðarop oft ekki sérstaklega styrkt og þar er jafnan hurð sem getur sveiflast til. Gætið fyllstu varúðar og tryggið flóttaleið eftir skjálftann.

  Spurning 4:  Ég skil alveg ástæðu þess að fara í „horn burðarveggja“, þar sem burður hússins er líklega bestur þar. Hinsvegar hef ég ekki hugmynd hvar burðarveggir eru heima hjá mér né í vinnunni. Hvernig kemst ég að því?

Svar: Skoðið teikningar húss ykkar. Ef þið eruð í vafa hvernig á að lesa út úr teikningunni, leitið þá sérfræðiaðstoðar til dæmis hjá húsasmíðameistara eða hjá byggingafulltrúa viðkomandi bæjar-/sveitafélags.  Nálgast skal upplýsingar um burðarveggi á vinnustað hjá atvinnurekanda.

  Spurning 5: Hvað með húsið sjálft. Hvernig get ég verið viss að það standist jarðskjálfta?

Svar:  Gott er að fá byggingafulltrúa til að taka út bygginguna með tilliti til burðarþols við jarðskjálfta, sérstaklega í eldri byggingum. Nýlegar byggingar á Íslandi eru teknar út af byggingafulltrúa sbr. Skipulagslög nr. 123/2010 og eiga því að standast allar þær kröfur sem gerðar eru til húsbygginga.

Hlutar af byggingu getur fallið af í jarðskjálfta. Því skal forðast að vera undir þeim stöðum þar sem hætta er á slíku.

Krjúpa – Skýla – Halda.
Viðbrögðin að halda ró sinni, krjúpa, skýla og halda er ekki trygging fyrir því að slasast ekki í kjölfar jarðskjálfta.  Það þarf meira til, eins og það að gera umhverfi sitt þannig úr garði að hlutir, húsmunir og annað lauslegt hreyfist sem minnst úr stað við jarðskjálfta. Hlutverk þess er tvíþætt.  Annars vegar minnka líkur á líkamlegu tjóni af völdum fallandi hluta og hins vegar minnkar það einnig líkur á tjóni á húsbúnaði við jarðskjálfta.

Það er ekki nóg að framkvæma forvarnir á heimili sínu. Það þarf einnig að gera það á öllum dvalarstöðum fjölskyldunnar og á vinnustöðum.  Fyrirtæki og stofnanir bera ábyrgð á að öryggi á vinnustað sé samkvæmt reglum þar að lútandi.  Atvinnurekendur þurfa að vera vakandi fyrir hættum sem geta leynst í umhverfinu.  Starfsfólk þarf einnig að vera vakandi gagnvart þessu.  „Hver er sinnar gæfu smiður“ á hér vel við.