Öskufall
Gosaska getur valdið einkennum frá öndunarfærum með nefrennsli og ertingu í nefi, særindum í hálsi og hósta. Fólk sem þjáist af hjarta- og lungnasjúkdómum getur fengið versnandieinkenni af undirliggjandi sjúkdómum sem vara í marga daga og lýsa sér í hósta, uppgangi, öndunarerfiðleikum og þyngslum fyrir brjósti. Einnig einkennum frá augum með augnsærindum, augnbólgu og kláða. Erting getur orðið í húð með sviða, roða og kláða, einkum ef askan er súr. Hætta á heilsutjóni vegna gosösku, leiðbeiningar fyrir almenning.

Gosaska og áhrif á dýr
Skaðleg áhrif eldgosa á dýralíf hér á landi hafa fyrst og fremst verið af völdum eitraðra efna, sem berast með gosösku og falla til jarðar á gróður og í drykkjarvatn, sem dýrin éta eða drekka og berast ofan í meltingarfærin. Eiturefnin frásogast úr meltingarfærunum til blóðsins og berast með því um líkamann. Þegar dýr anda að sér eitruðum gosgufum berast þær ofan í lungu. Þaðan geta efnin einnig frásogast til blóðsins. Síbreytileg vindátt veldur því, að aska getur dreifst um allt land á tiltölulega skömmum tíma. Enginn staður er því óhultur hér á landi í eldgosum.

Eldingar
Á Íslandi er fólk oft ekki á varðbergi gagnvart hættunni sem af eldingum stafar.  Við þrumuveður getur skapast eldingahætta og einnig við eldgos.  Eldingahætta frá gjósandi eldstöð er mest í gosmekkinum sjálfum og getur náð í allt að 30 – 40 km. undan vindi frá eldstöðinni. Sjá nánar um varnir gegn eldingum.

Mengun frá lofttegundum
Ýmsar varhugaverðir lofttegundir geta fylgt eldgosum t.d. H2S, CO2, CO, SO2, HCl,  H2SO4 sem geta valdið óþægindum  m.a. sviða í augum og öndunarfærum. Brennisteinsvetni H2S  er litlaus lofttegund með óþægilegri lykt.  Það er þyngra en loft og í stillu veðri geta eiturgas og gufur safnast fyrir í lægðum og djúpum lautum. Þegar styrkur þess eykst hverfur lyktin, við þau mörk verður það hættulegt heilsu manna og jafnvel lífshættulegt (mjög eitrað). Sama má segja um CO2 koldíoxíð sem er litlaus lofttegund. Við aukinn styrk þessara efna er varnabúnaður eins og gasgrímur og hlífðargleraugu nauðsynlegur í nágrenni eldstöðva. Sjá nánar ráðleggingar um viðbrögð við SO2

Jökulhlaup
Við gos undir jökli er hætta á jökulhlaupi, sem getur valdið miklu tjóni. Jökulhlaupin geta komið skyndilega og af miklum krafti. Stórir ísjakar geta verið í hlaupinu og. skemma flest sem á vegi þeirra verður.  Ef viðvörun um flóðbylgju er gefin er megin reglan að fara frá ströndinni og helst upp í hlíðar eða hæðir.