Almannavarnanefndir skulu annast gerð viðbragðsáætlana, svo og sjá um leiðbeiningar og almannafræðslu um hættu af ofanflóðum (snjóflóð og skriðuföll) í samvinnu við ríkislögreglustjóra og Veðurstofu Íslands.

Ef hætta er á aurskriðum:

Verið ekki utandyra
Haldið ykkur innandyra og farið alls ekki í fjalllendi þar sem hætta er á aurskriðum.

Dvalarstaður –  öryggisráðstafanir
Dveljið þeim megin í íbúðinni sem snýr undan fjallshlíðinni.  Gluggum og millihurðum skal tryggilega lokað.  Setjið hlera fyrir þá glugga sem snúa að fjallinu.

Kjallarar
Dveljið ekki í kjöllurum húsa nema þeir séu alveg niðurgrafnir og með steyptri loftplötu.

Stöðutilkynningar
Þeir sem búa eða dvelja afskekkt komi á síma- eða talstöðvasambandi við aðila utan hættusvæðis og láti heyra frá sér reglulega.

Ferðafólk
Í hlýindum, vindi og rigningu, þegar snjóa leysir, ættu sérstaklega þeir sem ferðast til fjalla að  vera á varðbergi vegna grjóthruns og skriða sem geta fallið úr bröttum vatnsósa hlíðum.

Rýming
Ef lögreglustjóri gefur út fyrirmæli um rýmingu er íbúum skylt að rýma hús sín. Almannavarnir í héraði opna fjöldahjálparstöð í samvinnu við Rauða krossinn og halda skráningu um dvalarstaði fólks þar til því er heimilt að fara til síns heima.