Orðasafnið var unnið á árunum 2017 – 2018 með hliðsjón af orðasafni Sameinuðu þjóðanna um áhættuminnkun vegna hamfara (UNISDR) og fleiri orðasöfnum. Fulltrúar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, Verkfræðistofunni Verkís, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sátu í vinnuhópi almannavarna um gerð orðasafns um hugtök, sem tengjast áhættu og almannavörnum, með það að markmiði að skilgreina og samhæfa hugtök, sem notuð eru í almannavörnum.  

Aðlögun
Aðlögun náttúru, kerfis eða samfélags að raunverulegri eða yfirvofandi hættu, sem dregur úr mögulegum skaða (e. adaptation) – aðlögunarhæfni er getan að laga sig að breyttum aðstæðum.

Almannavarnir
Samnefnari um varnir, viðbúnað, viðbrögð og endurreisn, eða það skipulag sem verður að vera til staðar fyrir neyðarástand og miðar að því að verja borgarana fyrir hættum frá náttúrunni, af mannavöldum eða vegna tæknibilana (e. Civil Protection). Skipulagt viðnám yfirvalda gegn hættu, árás eða skaða hvort sem skaðinn er að mannavöldum eður ei, af ásetningi eður ei.

Almannaöryggi
Borgaralegt eða samfélagslegt öryggi, eins og það er í stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum, sný að öryggi einstaklinga og þjóðfélagshópa, sjálfsmynda (identities), gilda og grunnvirkja, eins og efnahags-, orku- og samgöngukerfis. Skipulögð glæpastarfsemi, náttúruhamfarir og hryðjuverk teljast t.d. ógnir við samfélagslegt öryggi. Hnattrænir og þverþjóðlegir áhættuþættir lúta einnig að öryggi einstaklinga og þjóðfélagshópa. Til þeirra teljast m.a. skipulögð glæpastarfsemi, mansal, hryðjuverk, náttúruhamfarir, mengunarslys, loftslagsbreytingar, farsóttir og gjöreyðingarvopn. Almannaöryggi lýtur að öryggi einstaklinga og þjóðfélagshópa, gildum og grunnvirkjum samfélagsins.

Almenningsvitund
Umfang þekkingar sem talin er almenn innan samfélaga um áföll, vár og viðbrögð við þeim til að lágmarka þann skaða sem getur orðið.(e. public awareness).

Áfallahjálp
Áfallahjálp er sérhæfð þjónusta við fólk sem lendir í áföllum og byggir á viðurkenndum aðferðum til að bregðast við bráðum áfallastreituviðbrögðum og beinist að því að draga úr uppnámi og stuðla þannig að betri aðlögun eftir áfallið. Áfallahjálp er afmörkuð, tímabundin og með áherslu á forvarnir og mat á þörf fyrir frekari eftirfylgd.

Áfallaþol
Geta kerfis, eða samfélags, sem stendur andspænis hættu, til þess að forðast, draga úr, eða komast yfir áföll vegna hvers konar vár, með viðbúnaði jafnt með fyrirbyggjandi aðgerðum sem og viðbrögðum. (e. resilience). Áfallaþol einnig nefnt viðnámsþróttur/þol/seigla, segir til um möguleika samfélags til að takast á við, jafna sig á og komast yfir hamfarir með viðbúnaði t.d. spám um náttúruhamfarir, innviðum almannavarna, tryggingum og varnaraðgerðum t.d. varnargörðum.

Afkastageta
Verkefni sem hægt er að ljúka við á ákveðnum tíma miðað við þær bjargir/úrræði sem eru fyrir hendi (e. capacity).

Afgangsáhætta
Sú áhætta sem enn er til staðar og nauðsynlegt er að vera með viðbúnað við, þegar búið er að framkvæma þekktar ráðstafanir og mótvægisaðgerðir.

Áhætta
Það tjón sem ákveðin ógn veldur á ákveðnu svæði/ yfir ákveðið viðmiðunartímabil vegna samspils tjónmættis og tjónnæmis. Áhættan er samspil á ógn, vörnum og veikleikum. Einnig er tekið tillit til viðveru (e.risk).

Áhættueigandi
Sá sem ber ábyrgð á forvörnum/mótvægisaðgerðum og viðbúnaði vegna hugsanlegrar áhættu (e. risk owner)

Áhættufylki
Tækni sem notuð er við gerð áhættumats til að meta áhættu út frá líkum (t.d. mjög líklegt, nokkuð líklegt, frekar ólíklegt og mjög ósennilegt) og afleiðingum (t.d. óverulegar, minniháttar, nokkrar, miklar og skelfilegar) og skilgreinir gjarnan áhættuna með litum og tölugildum (e.risk matrix).


Áhættumat
Heildarferli, sem felur í sér að finna, átta sig á og lýsa og gera sér grein fyrir áhættu.  Ákvarða umfang og eðli áhættu eða áhættuþátta ( afleiðingar og líkur) og samanburður á niðurstöðum við áhættuviðmið til að ákvarða hvort áhættan og eða umfang hennar sé ásættanlegt eða þolanlegt (e.risk assessment). Ferli til að meta eðli og umfang.

Áhættumiðlun
Miðlun áhættu og réttum upplýsingum til réttra aðila og hópa um líkur og afleiðingar atburðar. Mikilvægt fyrir upplýsta ákvörðunartöku (e. risk communication).

Áhættuskrá
Skráningarform þar sem tiltekin og skilgreind er öll hugsanleg áhætta, hvernig hún skal meðhöndluð (henni skal stjórnað) og hver sé ábyrgðaraðili áhættustjórnunar (e.risk register).

Áhættuskynjun
Huglægt mat á eðli og alvarleika hugsanlegrar áhættu (e. risk perception).

Áhættustjórnun
Kerfisbundin nálgun við að koma skipulagi á þætti sem geta skapað áhættu og óvissu með það að markmiði að draga úr líkum á skaða og missi (e. risk management).

Áhættustjórnunaráætlun
Áætlun sem lýtur að því að meta áhættu og skilgreina aðgerðir til að bregðast við henni (e. risk management plan)

Áhættustjórnunarferli
Ferli sem inniheldur, áhættumat, áhættugreiningu, forvarnir og viðbúnað og uppbyggingu vegna hugsanlegrar áhættu (e. risk management process).

Áhættustig
Við áhættugreiningar eru gjarnan notuð áhættufylki þar sem áhættustigum er raðað upp eftir líkum (e. probability) og afleiðingum (e. consequences). Á y-ás eru líkur tilgreindar og x-ás eru afleiðingar tilgreindar. Áhættustig raðast í fylkið eftir alvarleika. Á Íslandi eru þrjú áhættustig notuð við almannavarnatilfellum: óvissustig, hættustig og neyðarstig (e.Level of risk).

Áhættustjórnunarstefna
Stefnumótun sem lýtur að hvernig unnið skal að forvörnum og viðbúnaði, viðbragði vegna hugsanlegrar áhættu, innan gefins tímaramma og fjárhags (e. risk management policy).

Áhættuviðmið
Viðmið sem eru sett um ásættanlega áhættu og sem endurspegla gildi, stefnu og markmið (e. risk criteria).

Áhættuyfirfærsla
Yfirfærsla, formleg eða óformleg, á fjárhagslegum afleiðingum tiltekinnar áhættu frá einum aðila/stofnun/fyrirtæki/stjórnvaldi til annars. Aðili/stofnun/fyrirtæki/stjórnvaldstig fær bjargir/auðlindir/aðföng frá öðrum aðila eftir hamfarir í skiptum fyrir samfélagslegar eða fjárhagslegar bætur. Tryggingarkerfi er dæmi um yfirfærslu áhættu (e. risk transfer).

Áhættuþol
Það þol sem einstaklingur/samfélag/stjórnvaldsstig hefur (ræður við) gagnvart tiltekinni áhættu(e. risk tolerance).

Áhættuminnkandi aðgerðir
Kerfisbundin leið til að draga úr áhættu og berskjöldun/tjónnæmi samfélags (e. disaster risk reduction).

Áhættuminnkandi aðgerðir – verkfræðilegar og félagslegar aðgerðir
Verkfræðilegar aðgerðir sem framkvæmdar eru til að draga úr áhrifum vár á samfélag og innviði. Dæmi um þetta eru varnarvirki vegna ofan-, vatns- og sjávarflóða, styrking bygginga til að standast jarðskjálfta að ákveðinni stærð. Félagslegar aðgerðir snúa að aðgerðum sem gerðar eru til að draga úr áhrifum vár á samfélag og innviði sem ekki eru verkfræðilegs eðlis. Um er að ræða setningu laga- og reglugerða s.s. bygginga- og skipulagsreglugerðir, vitundarvakning, og uppbyggingu þekkingar í samfélaginu um hættu-, áhættu- og áhættuminnkandi aðgerðir
(e. structural and non-structural disaster risk reduction measures).

Ásættanleg áhætta
Sú áhætta sem samfélag telur ásættanlega miðað við félags-, efnahags-, stjórnmála-, menningar-, tækni-, og umhverfislegar aðstæður á hverjum stað og tíma. Gjarnan sett sem viðmið í reglugerðir og staðla (e. acceptable risk).

Berskjaldaður
Berskjöldun/veikleiki/tjónnæmur. Einkenni og aðstæður samfélags, innviða og kerfa, sem gerir það viðkvæmt á einhvern hátt gagnvart vá af hvaða tagi sem hún er (e.vulnerability) stundum kallað tjónnæmi: Viðkvæmni samfélagsins, innviða og kerfa gagnvart tjóni sem hlýst t.d. af náttúruhamförum,  Tjónið getur verið m.a. manntjón, slys, eignatjón og samfélagslegs eðlis. og er háð mótvægisaðgerðum,   Breytingar á skipulagi byggðar og byggingarlagi, viðbragðsáætlanir, viðbúnaður og fræðsla geta lækkað tjónnæmi/berskjöldun.

Byggingarreglur/löggjöf
Þau lög, reglur, staðlar og stjórnvaldsákvarðanir sem fjalla um, og hafa eftirlit með hönnun, byggingu, efnisvali og framkvæmd nýbygginga, sem miðar meðal annars að öryggi almennings (e. building code).

Efnavá
Hætta af völdum kemískra-, og lífrænna efna, geislunar, og kjarnorku
(e. CBRN).

Eigindlegar rannsóknaraðferðir
Rannsóknaraðferðir sem byggjast á lýsandi aðferðum og miða að dýpri skilningi á aðstæðum og mati á gögnum (e. qualitative research).

Endurreisn
Endurbætur/uppbygging á innviðum, samfélagi og umhverfi í kjölfar hamfara eða áfalla, auk aðgerða til að draga úr hættu á frekari áföllum
(e. recovery).

Enduruppbygging
Uppbygging á innviðum, samfélagi og umhverfi í kjölfar hamfara eða áfalla. Felur í sér langtíma uppbyggingu með aðgerðum til að draga úr hættu á frekari áföllum. Að færa til fyrra horfs (e. restoration).

Fjölþáttaógn, margþætt eða samsettógn
Samhæfður og samstilltur verknaður, sem vísvitandi beinist með mörgum ólíkum leiðum að veikleikum kerfa lýðræðisríkja og stofnana (stjórnmálalegum, félagslegum, hernaðarlegum, borgaralegum og upplýsingum). Getur tengst efnavá (e. hybrid threat, hybrid incident CBRN).

Geta
Hæfni til að ljúka við verkefni með þeirri niðurstöðu sem ætlað var að ná (e. capability).  Það sem þarf til að takast á við verkefnið (geta) og hvað er til reiðu fyrir verkefnið (afkastageta). Munurinn á getu og afkastagetu (e. capacity) hægt er að líkja annars vegar getu við fötu/ílát og afkastagetu  við vatnið sem er í fötunni, dæmi: getan er þyrluflotinn og afkastagetan eru útkallsklár flugför.

Gróðurhúsalofttegundir
Náttúrulegar og manngerðar lofttegundir sem gleypa varmageislun frá jörðu, þær er að finna í litlu magni í andrúmsloftinu, s.s. vatnsgufa (H2O), koldíoxíð (CO2), metan (CH4), óson (O3), glaðloft (N2O), brennisteinshexaflúoríð (SF6) og ýmis halógenkolefni. Þessar lofttegundir eru kallaðar gróðurhúsalofttegundir vegna gróðurhúsaáhrifa sem þær valda og eiga það sameiginlegt að hafa langan líftíma í andrúmslofti (e.greenhouse gases).

Hagsmunaaðili
Einstaklingur, fyrirtæki, stofnun, eða félagsskapur sem tengist tilteknu máli og hefur hag af eða verður fyrir áhrifum að þess völdum
(e. stakeholder).

Hamfarir
Alvarlegur atburðir sem setur samfélagið úr skorðum, og dregur úr hæfni þess til að virka eðlilega og hefur alvarleg áhrif á fólk, umhverfi og eignir. Stórir atburðir geta leitt til þess að samfélagið þurfi utanaðkomandi hjálp/aðstoð við að koma virkni aftur réttan kjöl
(e. disaster).

Hernaðarvarnir/Varnir
Skipulagt viðnám yfirvalda gegn hættu, árás eða skaða (e. defence). Enska hugtakið er yfirleitt notað um hernað eða hernaðarlegar varnir.

Hætta
Fyrirbæri, efni, mannlegar gjörðir eða ástand sem getur valdið skaða, svo sem dauða, meiðslum, heilsutapi, eignaspjöllum, tapi á lífsviðurværi, skerðingu nauðsynlegrar þjónustu, félagslegum eða efnahagslegum  óstöðugleika eða umhverfisspjöllum (e.hazard).

Hættumat
Tilgreina, meta og flokka mögulegar hættur sem eru fyrir hendi við skilgreindar aðstæður eða kennistærðir. Áhættugreiningar og áhættumat byggjast á hættumati (e.hazard assessment). Hættumat á náttúruhamförum og umfangi þeirra, einnig mat á öðrum hættum t.d. tæknivá, stríðasástand o.s.frv. Hugtakið er mikið notað hér á landi en er ekki skilgreint sérstaklega í orðalista Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða veðurfræðistofnunarinnar.

Jarðvá
Hætta sem stafar af náttúrulegum hreyfingum jarðar. Jarðfræðilegt ferli eða fyrirbæri sem getur valdið tjóni á fólki, eignum, lífsviðurværi, þjónustu og efnahag. Ásamt því að valda truflun og umhverfistjóni (e.geological hazard).

Landnotkun/Skipulag
Aðalskipulag er skipulagsáætlun sem nær til alls lands sveitarfélags. Í aðalskipulagi er sett fram stefna og ákvarðanir sveitarstjórnar um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar. Stefna sem sett er fram í aðalskipulagi er útfærð nánar í deiliskipulagi fyrir einstök hverfi eða reiti (e. land use planning).

Líffræðileg vá
Atburður sem á uppruna sinn í lífrænu fyrirbæri, eða sem smitast. Getur valdið skaða á lífi og heilsu lífvera, og ógnað samfélaginu og umhverfinu á einhvern hátt (e.biological hazard – biohazard).

Líkur/líkindi
Hversu líklegt er að tiltekinn atburður verði við tilteknar aðstæður
(e. likelihood).

Loftslagsbreytingar
Sú breyting á loftslagi jarðar sem hægt er að rekja beint og óbeint til áhrifa af mannavöldum,  eða af völdum náttúrunnar (e. climate change).

Náttúruvá
Þeir þættir umhverfis og náttúru sem geta valdið mannfólki skaða, svo sem  dauða, meiðslum, heilsutapi, eignaspjöllum, tapi á lífsviðurværi, skerðingu nauðsynlegrar þjónustu, félagslegum eða efnahagslegum óstöðugleika (e. natural hazard).

Neyðarstjórnun
Skilgreint skipulag til að takast á við alla þætti neyðar eða vár/hamfara, með mótvægis- og mildunaraðgerðum, viðbúnaði, viðbrögðum og endurreisn (e.emergency management).

Neyðarþjónusta
Sérhæfðir viðbragðsaðilar, sem hafa þá ábyrgð og markmið að þjónusta og vernda fólk og eignir vegna hættu eða alvarlegra atburða (e. emergency services).

Mannvirkjastyrking
Endurbætur á mannvirkjum til að auka viðnám og áfallaþol í hættutilvikum (e. retrofitting).

Margþætt hættunálgun
Viðbúnaður og viðbrögð við öllum hættum, án tillits til uppruna, sem ógnað geta  almenningi, umhverfi eða eignum (e. all hazard approach).

Mat á umhverfisáhrifum
Ferli þar sem metin eru á kerfisbundinn hátt þau áhrif sem framkvæmd kann að hafa á umhverfið (e. environmental inpact assessment.

Megindlegar rannsóknaraðferðir
Megindlegar aðferðir byggja á hlutlægu mati með tölfræði og reiknuðum og mælanlegum greiningum á söfnuðum gögnum (e. quantitative research).

Mótvægisaðgerðir
Aðgerðir sem miða að því að milda, draga úr eða koma í veg fyrir, að almenningur, eignir, umhverfi eða samfélag verði fyrir  skaða vegna hamfara af völdum náttúrunnar eða af mannlegum toga (e. mitigation measures). Það er hægt að gera t.d. með reglugerðum eða með fræðslu um hverning hægt er að haga ákveðnum hlutum. Varnaraðgerðir á borð við varnarveggi vegna snjóflóða- eða flóðahættu eru einnig dæmi um mótvægisaðgerðir til að draga úr hættu og varna skaða eða tjóni.

Náttúruvá
Þeir þættir umhverfisins og náttúrunnar, sem geta valdið skaða þegar þeir verða, svo sem dauða, meiðslum, heilutapi, eignaspjöllum, tapi á lífsviðurværi, skerðingu á nauðsynlegri þjónustu, félagslegum eða efnahaglegum óstöðugleika (e. natural hazard).

Ómissandi innviðir
Þeir innviðir sem eru samfélaginu nauðsynlegir til að það virki s.s. vegakerfi, veitukerfi, sjúkrahús, skólar, neyðarþjónusta, stjórnslýsla (e. critical infrastructures).

Ómissandi grunnþjónusta
Sú þjónusta eða aðstaða sem eru félagslega, efnahagslega og/eða rekstrarlega nauðsynleg fyrir samfélög á neyðartímum (e. critical facilities)

Órofinn rekstur
Hæfni fyrirtækis/félags/samfélags til að halda starfsemi gangandi í kjölfar áfalls (e. business continuity).

Samtvinnaðar hættur
Hættur og vár sem eru samtvinnaðar og valda skaða með samspili og samverkandi hætti. Fléttuvárnálgun er þegar tekið er tillit til samspils og samverkunar ólíkra atburða við gerð hættumats (e. multihazard).

Snemmviðvörun/snemmviðvörunarkerfi
Upplýsingar, sem komið er til skila tímanlega með markvissum hætti til að koma í veg fyrir eða draga úr tjóni og gefa almenningi, samfélögum og stofnunum tækifæri til að undirbúa sig á viðeigandi hátt til að draga úr skaða eða tjóni (e. early warning system). Snemmviðvörunarkerfi fyrir margar hættur er kerfi sem er hannað til að spá fyrir um og hrinda af stað mótvægisaðgerðum við yfirvofandi slysum, áföllum eða hamförum             (e. multihazard early warning system).

Spá
Huglægt eða hlutlægt (tölfræðilegt) mat á líklegri framvindu atburðar/ástands fyrir tiltekin svæði (e. forecast).

Stjórnun aðgerða
Að stýra aðgerðum, verkefnum ( stjórnun neyðaraðgerða sem byggist á SÁBF,  Stjórnun á mannafla, tækjum, samskiptum og ferlum (S-hluti SÁBF) (e. Command and control).

Tíðni
Mælikvarði á hversu oft tiltekinn atburður verður á ákveðinni tímaeiningu (e. frequency).

Umhverfishnignun
Minnkandi geta umhverfisins til að mæta félagslegum og vistfræðilegum markmiðum og þörfum (e. environmental degredation).

Útsett/ur                                  
Fólk, eignir, innviðir geta orðið fyrir hættu/vá sem veldur tjóni/skaða, eru útsettir fyrir hættunni (e. exposure/exposed).

Varnir við hamförum                        
Aðgerðir sem miða að því að afstýra, milda eða minnka áhættu og koma í veg fyrir slæmar afleiðingar sem gætu hlotist af vá sem steðjar að fólki, umhverfi og eignum vegna hamfara (e. disaster prevention).

Viðbragð við hamförum
Aðgerðir viðbragðs- og opinberra aðila til að bregðast við yfirvofandi hættu eða atburði sem þegar er orðinn í þeim tilgangi að bjarga lífi, lágmarka heilsufarsáhrif, tryggja öryggi og mæta grunnþörfum almennings á áhrifasvæði hamfaranna (e.disaster response).

Viðbúnaður við hamförum
Þekking, undirbúningur og geta stjórnvalda, viðbragðsaðila, samfélaga og einstaklinga til að sjá fyrir og bregðast hratt við með fyrirfram undirbúnum hætti og endurheimta fyrri stöðu vegna ógna og áhrifa yfirvofandi hættu (e.disaster preparedness).

Viðnámsþróttur
Geta kerfis, eða samfélags, sem stendur andspænis hættu, til þess að forðast, draga úr, eða komast yfir áföll vegna hvers konar vár, með viðbúnaði jafnt með fyrirbyggjandi aðgerðum sem og viðbrögðum. (e. resilience). Viðnámsþróttur er einnig nefnt áfallaþol/þol/seigla, segir til um möguleika samfélags til að takast á við, jafna sig á og komast yfir náttúruhamfarir með viðbúnaði t.d. spám um náttúruhamfarir, innviðum almannavarna, tryggingum og varnaraðgerðum t.d. varnargörðum

Þolmörk
Geta einstaklinga, stofnana, eða kerfa til að bregðast við yfirvofandi ógn eða hættu, miðað við fyrirliggjandi bjargir (e. coping capacity).

Þjóðaröryggi
Þjóðaröryggi snýst um mat á öryggi og fullveldi landsins. Er þá einkum horft til hugsanlegra ógna frá öðrum ríkjum eða ríkjabandalögum, auk skipulagðra glæpa- og hryðjuverkasamtaka.

Öryggi                                  
Öryggi og velferð einstaklinga og samfélags (e. safety) (vörn gegn vá sem er ekki af mannavöldum).

Öryggisvarnir            
Varnir og gæsla til að draga úr áhrifum áhættu á borgarana (e.security). Oft talað um varnir gegn vá af mannavöldum