Samkvæmt 5. grein laga um almannavarnir nr. 82/2008 annast ríkislögreglustjóri starfsemi almannavarna í umboði dómsmálaráðherra. Með lögum nr. 44/2003 voru almannavarnir fluttar frá Almannavörnum ríkisins til embættis ríkislögreglustjóra, til að annast heildarskipulagningu almannavarna og framkvæmdir á þeim þáttum sem falla undir ríkisvaldið. Einnig er ábyrgð ríkislögreglustjóra vegna almannavarna skilgreind í 5. grein lögreglulaganna nr. 90/1996 þar sem kveðið er á að ríkislögreglustjóri annist málefni almannavarna í umboði dómsmálaráðherra (áður innanríkisráðherra) og starfræki almannavarnadeild sem annist verkefni á sviði almannavarna.

Lögin um almannavarnir taka til samhæfðra almannavarnaviðbragða, að bregðast við afleiðingum neyðarástands, sem kann að ógna lífi og heilsu almennings, umhverfi og eignum. Öryggi íbúa í umdæmum landsins kallar á umfangsmikla starfsemi er varða fyrirbyggjandi varnir, viðbúnað, viðbragð og enduruppbyggingu vegna hamfara.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjórans samhæfir almannavarnaáætlanir sveitarfélaga og stofnana og hefur eftirlit með endurskoðun og viðhaldi þeirra. Verkefni ríkislögreglustjóra vegna almannavarna fela m.a. í sér víðtækt samstarf við stofnanir þjóðfélagsins varðandi neyðarskipulagið með það að markmiði að tryggja öryggi almennings og vinna að gerð og endurskoðun viðbragðsáætlana.

Almannavarnir snúast um það skipulag og stjórnkerfi sem er virkjað á hættustundu. Samkvæmt 1. gr. laga um almannavarnir Nr. 82/2008 er markmið þeirra að skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir eða takmarka, eftir því sem unnt er að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni eða umhverfi og eignir verði fyrir tjóni, af völdum náttúruhamfara eða af mannavöldum farsótta eða hernaðaraðgerða eða af öðrum ástæðum, veita líkn í nauð og aðstoð vegna tjóns, sem hugsanlega kann að verða eða hefur orðið.

Löggjöfin kveður á um víðtækt samstarf við aðila sem hafa það sameiginlega markmið að tryggja öryggi almennings með öflun upplýsinga ásamt vöktun, greiningu og mati á hættu. Stjórn aðgerða í héraði þegar almannavarnaástand ríkir er í höndum lögreglustjóra í viðkomandi lögregluumdæmi. Viðbragðsaðilar í héraði eru jafnan fyrstir á vettvang við neyðarástand.

Til að takast á við það hlutverk sem lögin gera ráð fyrir þurfa almannavarnir m.a.:

  • að greina og meta hugsanlegar afleiðingar náttúruvár, umhverfisóhappa, hópslysa og heilsu, fjarskipta- og tölvuhruns, auk hryðjuverka
  • að upplýsa almenning um hættur í þjóðfélaginu, hvernig eigi að varast þær og draga úr afleiðingum þeirra
  • að vara almenning við yfirvofandi hættu í þjóðfélaginu og upplýsa hvernig almenningur geti brugðist við henni
  • að hafa umsjón með að viðbragðsráætlanir og rýmingaráætlanir séu útbúnar í samvinnu við hlutaðeigandi aðila
  • að samhæfa, undirbúa og framkvæma æfingar og þjálfun viðbragðsaðila
  • að bregðast hratt og örugglega við neyðarástandi og sjá til þess að nauðsynleg úrræði séu til staðar
  • að stjórna aðgerðum þegar neyðarástand skapast í landinu
  • að vinna með viðbragðsaðilum, fjölmiðlum, almenningi, vísindamönnum og stjórnvöldum með það að markmiði að lágmarka tjón af völdum áfalla
  • að aðstoða við enduruppbyggingu eftir áfall og koma aftur á eðlilegu ástandi í samvinnu við hlutaðeigandi aðila
  • að vinna á alþjóðlegum vettvangi að uppbyggingu og eflingu almannaöryggis.