Hekla

Hekla er um 1490 metra hátt ílangt eldfjall sem gosið hefur a.m.k. 18 sinnum á sögulegum tíma.  Hekla er ásamt Kötlu og Grímsvötnum eitt virkasta eldfjall á Íslandi. Heklugos hefjast nær fyrirvaralaust. Jarðvísindamenn fylgjast vel með Heklu og árið 2000 spáðu þeir fyrir um gos með klukkustundar fyrirvara. Merki komu fram á jarðskjálftamælum rúmlega einni klukkustund fyrir gos. Kvikuhólf er talið vera á nokkurra kílómetra dýpi undir Heklu. Oft hafa gosin valdið tjóni sérstaklega eftir langt goshlé. Það gerðist árin 1104 og 1158. Ljós askan og vikurinn dreifðust í miklu magni yfir þúsundir km² svæði.
Vefmyndavél við Heklu

Gosin frá Heklu hafa valdið gróðureyðingu og dauða búfjár, lagt jarðir í eyði og valdið manntjóni. Heklugjá kallast gossprunga sem klýfur Heklu endilanga og hefur oft gosið í henni. Gosið 1947 í Heklugjánni stóð í 13 mánuði með miklu hraunrennsli og gjóskufalli. Á síðustu öld var Hekla sérstaklega virk og gaus árin 1947-48, 1970, 1980-81, 1991 og svo árið 2000.

Hekla
Viðvörunarskilti vegna eldgosahættu

Heklugos hefjast yfirleitt með öflugu sprengigosi og hraun byrjar að renna á fyrstu mínútum goss. Einnig getur verið hætta á gjóskuflóði í 4-5 km fjarlægð frá upptökunum og því mikil hætta þar þegar gos hefst. Hraun frá Heklu renna fremur hægt og hætta getur stafað af glóandi hraungrjóti sem kastast fram. Því er óráðlegt að fara of nálægt hraunrennslinu. Eitraðar lofttegundir sem geta safnast fyrir í lægðum og lautum eru hættulegar mönnum og dýrum.  Almennt fylgja miklar drunur og dynkir Heklugosum sem heyrast langt að. Nauðsynlegt er að huga að veðri og vindum þegar gýs í Heklu vegna hugsanlegs gjóskufalls sem jafnan er mikið í upphafi goss. Norðaustan áttír eru ríkjandi við fjallið, en vindáttir eru jafnan að vest-suðvestan eða norðvestan þegar ofar dregur (5-6 km).

Katla og Eyjafjallajökull

Katla gýs að meðaltali tvisvar á öld, síðast staðfest árið 1918, en eldgos eru mun sjaldgæfari í Eyjafjallajökli, sem gaus síðast 2010.  Eldgosum í Kötlu og Eyjafjallajökli fylgja hættur á borð við eldingar, gjóskufall og jökulhlaup.  Vatnasvæði Kötlu eru þrjú og geta snögg og vatnsmikil jökulhlaup ruðst fram Mýrdalssand, Sólheimasand og Markafljótsaura, allt eftir staðsetningu eldgoss. Eldgos undir Eyjafjallajökli geta átt upptök hvar sem er innan eldstöðvarinnar og jökulhlaup geta komið fram mjög fljótt eftir að gos hefst vefmyndavél í átt að Eyjafjallajökli.

Katla _Eyjafj 

Viðbragðaáætlanir almannavarna snúa m.a. að viðbrögðum við gjóskufalli og jökulhlaupum, t.d. með lokun svæða fyrir umferð.  Þegar eldgos hefst í Kötlu eða Eyjafjallajökli verður að rýma þau svæði sem líklegt er að jökulhlaup geti ógnað.  Íbúar og þeir sem dvelja þar þurfa því að þekkja viðbrögð við eldsumbrotum í eldstöðvunum, undirbúa viðbrögð sín, ásamt rýmingu og skipuleggja hana, s.s. hvað skal taka með og hvert skal halda. SMS skilaboð verða send inn á alla GSM senda á áhrifasvæðinu um leið og eldgos er talið yfirvofandi eða er hafið (ekki er lengur treyst á hljóðbombur frá skálum á hálendinu)

Sjá nánar

Hér er hægt að skoða myndina Katla og Kötluvá

Grímsvötn

Um 60 eldgos hafa orðið í eldstöðvakerfi Grímsvatna á sögulegum tíma. Síðustu gos þar sem náðu uppúr jökli urðu árin 2011, 2004, 1998, 1996, 1983, 1938 og 1934. Flest gos í Grímsvötnum sem þekkt eru á síðari tímum hafa orðið í Grímsvatnalægðinni. Það á við um öll gosin sem talin eru hér að framan, nema gosið sem varð árið 1996 og kennt er við Gjálp.

Gos í Grímsvatnalægðinni eru flest stutt, standa í nokkra daga og þeim fylgja minnnháttar jökulhlaup. Dæmi um hlaup af þessu tagi er hlaupið sem tengdist eldgosinu árið 2004. Það olli ekki neinum teljanlegum skemmdum á vegakerfi eða öðrum mannvirkjum. Lítilsháttar truflun varð á umferð en hún var takmörkuð yfir nóttina af öryggiástæðum.

Gjálpargosið varð á sprungu nokkuð norðan Grímsvatna, því fylgdi jökullhlaup undan Skeiðarárjökli en talið er að rennslið í því hlaupi hafi numið 45.000 rúmmetrum á sekúndu. Í hlaupinu tók af vegi og brýr á Skeiðarársandi auk þess sem hlaupið sópaði burtu raflínum og símalínum á löngum kafla.

Yfirleitt fylgir frekar lítið öskufall gosum í Grímsvatnakerfinu og sjaldnast nær nokkur aska að ráði útfyrir jaðra Vatnajökuls. Í gosinu 2011 varð öskufall hins vegar verulegt, sérstaklega í nærsveitum og kallaði það á umfangsmikið viðbragð af hálfu almannavarna. Sett var upp þjónustumiðstöð almannavarna til að aðstoða íbúa við uppbygginguna eftir gosið.

Virkni Grímsvatnakerfisins virðist vera lotubundin þar sem hrina eldgosa stendur í eina til eina og hálfa öld en síðan kemur nokkurra áratuga hlé á milli með færri gosum. Svo virðist sem slíku óróatímabili hafi lokið um 1940 og nýtt tímabil hafið.