Tryggja þarf samhæfingu viðbragðsaðila þegar tekist er á við afleiðingar hryðjuverka og annarra váverka, rétt eins og við aðrar hamfarir. Í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð fer fram samhæfing aðgerða, gagnasöfnun, greining og upplýsingagjöf.  Auk þess að upplýsa almenning er nauðsynlegt að samhæfingin nái til þeirra stofnana sem koma að málefnunum hverju sinni.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra gerir reglulega mat á hættu af hryðjuverkum og öðrum stórfelldum árásum (2015). Þar er farið yfir helstu þætti í þróun hryðjuverka og ógnarmat í Evrópu, á Norðurlöndunum og lagt mat á hryðjuverkaógn á Íslandi ásamt því að gerðar eru tillögur til stjórnvalda á grundvelli matsins.

Árið 2017 kom út Mat ríkislögreglustjóra á hættu af hryðjuverkum  Þar er fjallað um hryðjuverkaógn í Evrópu eins og hún er metin í byrjun árs 2017. Sérstaklega er horft til Norðurlanda og mat lagt á mögulega hryðjuverkaógn á Íslandi.

Á Íslandi hefur tíðni glæpa verið lág og Íslendingar teljast til þeirra þjóða sem búa við hvað mest öryggi. Á hinn bóginn er það svo að þróun á Norðurlöndum varðandi umfang og eðli ógna og glæpa hefur í fyllingu tímans orðið hin sama á Íslandi. Þessi hefur t.a.m. orðið raunin á sviði skipulagðrar brotastarfsemi og má í því efni vísa til umsvifa hópa innlendra og erlendra afbrotamanna, fíkniefnainnflutnings, mansals, vændis og vélhjólagengja. Með þetta í huga er óráðlegt að ganga að því vísu að á sviði hryðjuverkaógnar muni þróun á Íslandi verða önnur en í nágrannalöndunum.