Vísindaráð almannavarna er óformlegur samráðsvettvangur almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og vísindasamfélagsins. Tilgangur og markmið ráðsins er að skapa aðstæður og tækifæri fyrir opin og frjáls samskipti og skoðanaskipti á milli vísindamanna, sérfræðinga og starfsmanna almannavarnadeildar.

Vísindaráð almannavarna kemur að jafnaði saman tvisvar á ári en auk þess hefur ráðið verið kallað saman þegar þurfa þykir, til dæmis þegar sérstakir atburðir verða, sem valdið geta almannavarnaástandi. Slíkir atburðir eru til dæmis eldgos, jarðskjálftar, flóð, jökulhlaup, óveður og mengun.

Þegar náttúruhamfarir eru yfirvofandi eða í gangi fundar vísindaráð almannavarna reglulega til að meta hættu og hugsanlegan framgang aðburðar. Ráðið kom saman nær daglega í Holuhraunsgosinu 2014-15 til að fara yfir og ræða ýmsa þætti eldgossins, rannsóknir og vöktun.

Starfsfólk almannavarnadeildarinnar boðar til funda ráðsins og er það þá skipað þeim vísindamönnum sem hafa sérþekkingu á því máli sem er til umræðu hverju sinni.
Hin síðari ár hefur vísindaráð almannavarna yfirleitt sent frá sér yfirlýsingu eða fundargerð í lok hvers fundar í þeim tilgangi að upplýsa almenning, yfirvöld og fjölmiðla um stöðu þeirra mála sem til umræðu eru. Nýjustu fundargerðir má nálgast hér.
Aðrar fundargerðir vísindaráðs almannavarna má finna undir flipanum Útgefið efni. Athugið að nota leitarglugga á síðunni til þess að finna skýrslur ráðsins.