Í 7. grein laga um almannavarnir er fjallað um verkefni ríkislögreglustjóra á sviði almannavarna. Þar segir í 4. málsgrein“ ríkislögreglustjóri tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi stjórnvalda um almannavarnir“.

EES samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er samningur milli Evrópusambandsins og EFTA ríkjanna og felur í sér víðtæka samvinnu. Í almannavörnum starfar innan ramma EES/EFTA vinnuhópur um almannavarnir, The Working Group on Civil Protection, sem hittist að jafnaði tvisvar á ári.  Með samningnum geta aðildarríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein  tekið þátt í starfi Evrópusambandisins í almannavörnum, Union Civil Protection Mechanism. Norðmenn og Íslendingar hafa tekið þátt í þessu samstarfi og sækja fundi í almannavarnanefnd sambandsins. Almannavarnir í Evrópusambandinu styrkja verkefni, vinnubúðir, æfingar og þjálfun á sviði almannavarna auk verkefna í viðbúnaði og viðbragði við hamförum. Íslendingar hafa notið góðs af þessu samstarfi með þjálfun viðbragðsaðila, sérfræðingaskiptum (Exchange of experts), námskeiðum, styrkjum og öðrum verkefnum. Samskipti almannavarna Evrópu vegna neyðaraðstoðar fara í gegnum samhæfingar- og stjórnstöðina ERCC (Emergency Response Coordination Centre) og er notað sérstakt neyðarfjarskiptakerfi CECIS  (Common Emergency Communication System) til þeirra samskipta.
Samstarfssamningurinn fyrir árin 2014 – 2020 var endurnýjaður 27 júní 2014.

Samstarf Norðurlandanna í almannavörnum er aðallega á vettvangi Nordred.  Markmiðið er að auka samvinnu björgunaraðila á Norðurlöndum og er björgunarsamningur grunnurinn að samstarfinu.  Norðurlöndin leiða samstarfið til skiptis í þrjú ár í senn, sem lýkur með metnaðarfullri ráðstefnu.   Hægt er að nálgast upplýsingar um samstarfið á vefsíðunni  http://www.nordred.org

Einnig tekur almannavarnadeildin þátt í samstarfi við NATO, Eystrasaltsráðið og Sameinuðu þjóðirnar um almannavarnir.