Almannavarnir voru stofnaðar með lögum frá Alþingi nr. 94/1962. Í upphafi var hlutverk almannavarna að skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miðuðu að því að koma í veg fyrir að almenningur yrði fyrir líkams- eða eignatjóni af völdum hernaðaraðgerða og veita líkn og aðstoð vegna tjóns sem hefði orðið. Megin verkefni almannavarna á þessum tíma voru áætlanagerðir vegna herðnaðarátaka, kjarnorku- og sýklavopna enda Kúbudeilan í algleymingi. Þrýstingur var á stjórnvöld í hinum vestræna heimi að tryggja öryggi hins almenna borgara með tilliti til afleiðinga kjarnorkuárásar.

Með lögum nr. 30/1967 urðu þær breytingar á hlutverki almannavarna að ekki var einungis litið á viðbrögð við hernaðaraðgerðum heldur einnig náttúruhamförum og annarri vá. Árið 1971 var farið að huga að neyðaráætlunum í samvinnu við almannavarnanefndir, sem taka skyldu mið af nauðsynlegum viðbúnaði og viðbrögðum gegn hernaðarátökum, náttúruhamförum og annarri vá sem ógnað gæti öryggi hins almenna borgara, ásamt viðbúnaðarskipulagi fyrir Landspítala vegna móttöku hópslysa.

Fyrsta neyðaráætlun þessarar gerðar var tilbúin í ársbyrjun 1972 og var unnin fyrir Húsavíkurkaupstað. Sama ár voru unnar neyðaráætlanir fyrir Ísafjarðarkaupstað og viðbragðsáætlun vegna eldgoss í Kötlu í Mýrdalsjökli. Teknir voru til umfjöllunar í þessum neyðaráætlunum allir helstu hættuþættir, sem ógnað gætu öryggi hins almenna borgara á viðkomandi svæði og settar fram nákvæmar leiðbeiningar um virkjun neyðarþjónustunnar með tilheyrandi gátlistum.

Eldgosið í Heimaey árið 1973 reyndi verulega á almannavarnastarfið á Íslandi. Það undirstrikaði nauðsyn almannavarnaskipulagsins, bæði hvað varðaði brottflutning eyjaskeggja, móttöku þeirra á fastalandið og varnaraðgerðir meðan gosið stóð. Einnig sannaði neyðarskipulagið sig í snjóflóðinu í Neskaupstað árið 1974.

Árið 1981 höfðu allar 64 almannavarnanefndir í landinu undir höndum neyðaráætlun almannavarna og var stefnt að því að endurskoða og aðlaga þær á a.m.k. 5 ára fresti. Árið 1986 fór endurskoðun fram m.a. í ljósi reynslu af Kröflueldum 1975-1984. Þá var einnig tekin upp gerð séráætlana sem tóku mið af staðbundnum áföllum og lokið var við gerð hópslysaáætlana í samvinnu við 17 sjúkrahús í landinu. Frá 1989-1991 voru almennar neyðaráætlanir einfaldaðar og staðlaðar á landsvísu og skipt upp í tvo megin hluta A-hluta, starfsskipulag og B-hluta sem er viðbragðsáætlun.

Nýjustu lög um almannavarnir eru númer 82/2008 og er markmið þeirra samkvæmt 1 grein að undirbúa, skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir og takmarka, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni, eða umhverfi eða eignir verði fyrir tjóni, af völdum náttúruhamfara eða af mannavöldum, farsótta eða hernaðaraðgerða eða af öðrum ástæðum og veita líkn í nauð og aðstoð vegna tjóns sem hugsanlega kann að verða eða hefur orðið. Mikil þróun hefur verið í starfi almannavarna síðustu ár og hefur samstarf aukist við fjöldamargar stofnanir og fyrirtæki. Stefnumótun í almannavörnum og öryggismálum er mörkuð af Almannavarna- og öryggismálaráði til þriggja ára í senn. Aðgerðaáætlun í almannavarma- og öryggismálum fyrir árin 2015 – 2017 er í 42 liðum og má nálgast undir liðnum útgefið efni.

(Stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum 2015-17)