Hvernig er almenningur látinn vita af hættu vegna hamfara:

Váboðskerfi Neyðarlínunnar (sms sendingar), sem viðbragðsaðilar á Íslandi (þ.á.m. lögreglan og Almannavarnir) notar er nýtt til að koma skilaboðum til fólks þegar rétt þykir og ákveðið af þeim sem hefur forsvar aðgerða hverju sinni.

SMS kerfið virkar þannig að óskað er eftir því að skilaboð berist til fólks á ákveðnu landsvæði (hnitin send á símafyrirtækin ásamt texta). Kerfi símafyrirtækjanna reikna út hvaða símar eru á svæðinu og sendir því næst boðin í þá. Tæknin (kerfið) býður ekki upp á það að hægt sé að tryggja að öll tæki innan svæðisins fái skilaboðin og að tæki utan svæðisins fái þau ekki.

Að skilaboð berist ekki í síma innan svæðis eða í síma utan svæðis gerist og talið er að tilfellin séu um 9-10%. Þrátt fyrir þessa annmarka hafa SMS skilaboðin gagnast vel og þjónað sínum tilgangi.

Það er algengur misskilningur að hægt sé að tryggja það að SMS skilaboð berist í öll símtæki sem staðsett eru á ákveðnu landsvæði eða innan „girðingarinnar“ sem sett er upp (hnit).

Þessi boð eru viðbót við aðrar leiðir til að upplýsa íbúa um hættu, en dæmi um aðrar leiðir eru fjölmiðlar s.s. útvarp, sjónvarp og netið.

Hvernig er hægt að aðstoða íbúa með sérþarfir?

Í hamförum erum margir, sem þarfnast sérstakrar aðstoðar, t.d. aldraðir, heyrnarskertir, sjóndaprir og fatlaðir. Nágrannahjálp er mikilvæg. Ef þú veist af einhverjum sem þarfnast hjálpar í hamförum og þú getur ekki aðstoðað – hringdu í Neyðarlínuna – 1 1 2 og láttu vita.

Hvernig finn ég fjöldahjálparstöð?

Hvar er fjöldahjálparstöð þar sem ég bý? –  hvert get ég farið þegar neyðarástand verður, sem hefur áhrif á mig og mína fjölskyldu? Fjöldahjálpastöðvar eru starfræktar á vegum Rauða krossins á neyðartímum og eru þær almennt í skólum eða félagsheimilum. Á vefsíðu Rauða krossins á Íslandi eru hægt að nálgast staðsetningar fjöldahjálparstöðva.