Hvernig er almenningur látinn vita af hættu vegna hamfara:
Vegna hamfara eða neyðarástands á ákveðnu svæði á landinu, senda almannavarnir SMS skilaboð frá Neyðarlínunni inn á svæðið. Boðin eru send í farsíma, sem eru á því svæði sem hætta er á ferðum. Allir eiga að fá boðin hvort sem um er að ræða innlenda eða erlenda farsíma, þar sem þau eru send um farsímamöstur og því skiptir ekki máli frá hvaða símafyrirtæki farsímarnir eru. Boðin eru send á hættusvæði og þarf ekki sérstakt smáforrit eða áskrift til að móttaka þau. Kveikt þarf að vera á farsíma og hann þarf að vera inn á því þjónustusvæði, sem farsímamastrið er og boðin eru send frá. Ekki er hægt að svara skilaboðunum. Vegna tæknivanda getur það komið fyrir að einstaka farsími fái ekki boðin. Þessi boð eru viðbót við aðrar leiðir til að upplýsa íbúa um hættu, en dæmi um aðrar leiðir eru fjölmiðlar s.s. útvarp, sjónvarp og netið.
Hvernig er hægt að aðstoða íbúa með sérþarfir?
Í hamförum erum margir, sem þarfnast sérstakrar aðstoðar, t.d. aldraðir, heyrnarskertir, sjóndaprir og fatlaðir. Nágrannahjálp er mikilvæg. Ef þú veist af einhverjum sem þarfnast hjálpar í hamförum og þú getur ekki aðstoðað – hringdu í Neyðarlínuna – 1 1 2 og láttu vita.
Hvernig finn ég fjöldahjálparstöð?
Hvar er fjöldahjálparstöð þar sem ég bý? – hvert get ég farið þegar neyðarástand verður, sem hefur áhrif á mig og mína fjölskyldu? Fjöldahjálpastöðvar eru starfræktar á vegum Rauða krossins á neyðartímum og eru þær almennt í skólum eða félagsheimilum. Á vefsíðu Rauða krossins á Íslandi eru hægt að nálgast staðsetningar fjöldahjálparstöðva. Einnig eru frekari upplýsingar hér á vefsíðunni https://www.almannavarnir.is/forvarnir-og-fraedsla/fjoldahjalparstodvar/