Almannavarnastig fært niður á óvissustig vegna skemmda á lögn sem flytur vatn til neyslu og húshitunar í Vestmannaeyjum

Ríkislögreglustjóri, í samráði við Lögreglustjórann í Vestmannaeyjum, hefur ákveðið að færa almannavarnastig niður á óvissustig vegna skemmda á þeirri lögn sem flytur vatn til neyslu og húshitunar í Vestmannaeyjum.

Þegar hættustigi var lýst yfir 29. nóvember 2023 lá umfang tjóns ekki fyrir en við skoðun komu í ljós verulegar skemmdir á um 300 metra kafla lagnarinnar. Hætta er á að lögnin fari í sundur með þeim afleiðingum að rof verður á afhendingu vatns til Vestmannaeyja, til lengri tíma.  

Unnið hefur verið að margvíslegum mótvægisaðgerðum, bæði til að styrkja vatnslögnina og efla viðbragðsgetu til að halda hitaveitu gangandi þótt lögnin fari í sundur. Bakbein þess viðbragðs eru fjórar RO vélar (Reverse Osmosis Water Filtration System) sem gera kleift að vinna neysluhæft vatn úr jarðsjó sem yrði dælt inn á dreifikerfi HS Veitna. Umræddar vélar, ein hver, eru í eigu Vinnslustöðvarinnar hf., Ísfélagsins hf., Laxey ehf., og Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Þá hafa verið gerðar ýmsar viðbragðsáætlanir þar sem aðgerðastjórn lögreglustjórans í Vestmannaeyjum stýrir aðgerðum og viðbragði, m.a. um flutning drykkjarvatns til Vestmannaeyja, að tryggja órofna starfsemi mikilvægra innviða auk stuðnings við viðkvæma hópa.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja, í góðri samvinnu við samstarfs- og hagaðila, vinna áfram að framtíðarlausn og afhendingaröryggi á flutningi vatns til Vestmannaeyja.