Alvarlegir atburðir af völdum náttúrunnar eða af mannavöldum gera jafnan ekki boð á undan sér og geta haft víðtækar afleiðingar í för með sér á íbúa og samfélag. Liður í þjálfun og æfingum viðbragðsaðila almannavarna er að líkja eftir atburðum sem gætu átt sér stað og bregðast við þeim eins og um raunatburð væri að ræða.
Viðbragðsáætlanir geta almennt ekki talist fullkláraðar fyrr en þær hafa verið æfðar, áreiðanleiki þeirra prófaður og þær jafnframt staðfestar af hlutaðeigandi aðilum.  Á hverju ári eru haldnar almannavarnaæfingar og má þar nefna flugslysaæfingar á áætlunarflugvöllum landsins,  samskiptaæfingar vegna snjóflóða á skilgreindum hættusvæðum í samvinnu við Veðurstofu Íslands, stjórnstöðvaræfingar og skrifborðasæfingar í samvinnu við stofnanir og fyrirtæki. Einnig geta ákveðnir verkþættir verið æfðir sérstaklega.

Hlutverk og ábyrgð þurfa að vera öllum ljós, sem taka þátt í æfingum og markmið með æfingunni skýr. Í lok æfingar er mikilvægt að leggja mat á hvernig æfingin tókst og þátttakendur taki þátt í rýni um framgang hennar.

Fyrsta æfing á viðbrögðum vegna Kötlugoss var árið 1973 og var þá í fyrsta skipti framkvæmd raunveruleg rýming í byggð og tóku þátt í æfingunni íbúar Víkurkauptúns, Álftavers og Meðallands. Árið 2006 var æfingin Bergrisinn haldin, þar sem æfð voru viðbrögð og rýming á áhrifasvæði Kötlu í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Hægt er að nálgast skýrslur um æfingar undir liðnum skýrslur um æfingar  hér á vefsíðunni í útgefið efni. Þar má nálgast skýrslur um hópslysaæfingar í umdæmum landsins, rýniskýrslur vegna æfinga og gátlista fyrir ráðgjafa.

Myndir frá æfingum