Það telst fárviðri þegar vindhraði hefur náð 33 m/sek, sem jafngildir 64 hnútum (12 vindstig).Ef Veðurstofa Íslands varar við veðri, skal taka það alvarlega. Sérstaklega ef varað er við miklum stormi/vindi, úrhelli, snjókomu, frostregni og/eða ofsakulda. Afleiðingar geta verið margs konar; manntjón, tjón á eignum og innviðum, búfénaði, uppskeru og umhverfinu.
Hlustið á tilkynningar og/eða viðvaranir sem kunna að vera gefnar í sjónvarpi eða útvarpi. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vinnur í nánu samstarfi við Veðurstofu Íslands vegna veðurvár og virkjar viðbragð ef þurfa þykir.

Nauðsynlegt viðhald
Haldið húsakosti vel við. Gangið úr skugga um að þakplötur séu tryggilega festar, einnig þakrennur, grindverk og þess háttar.

Þegar spáð er ofsaveðri eða fárviðri

Lausir munir
Heftið fok lausra muna utandyra. Trampólín, sólstólar og grill fara gjarnan af stað í ofsaroki.

Lokið gluggum og hurðum
Fullvissið ykkur um að öllum gluggum og hurðum sé tryggilega lokað.

Skólar, ferðalög og mannamót
Fylgist með veðri og tilkynningum. Aflýsið ferðalögum og mannamótum og sendið ekki börn í skóla nema í samráði við skóla. Metið hvort ferðir út á land séu nauðsynlegar og hvort fresta eigi för vegna slæmrar veðurspár.

Byrgið glugga
Byrgið glugga eða setjið öryggisfilmu á gler til að koma í veg fyrir skæðadrífu glerbrota ef rúða brotnar (notið ekki teip þar sem það  getur skapað frekari hættu og styrkir ekki rúðuna). Látið rúm ekki standa undir gluggum ef hætta er á ofsaveðri.

Neyðarkassi
Gott er að hafa neyðarkassa með nauðsynjum til taks ef búast má við ofsaveðri og ófærð.

Þegar spáð er ofsakulda
Ef hiti fer af húsnæðinu notið einungis örugga hitagjafa og klæðið ykkur vel.

Grill og hitarar geta skapað hættu innandyra ef loftun er ekki góð, myndað kolmónoxíð, eitraða lofttegund sem er lyktarlaus og myndast við ófullkominn bruna eldsneytis.

Varist kal. Ef efsta lag húðarinnar frýs kallast það yfirborðskal, en nái holdið undir henni að frjósa er um djúpt kal að ræða.

Varist ofkælingu, ef líkamshiti fer niður fyrir 35°C. Ofkæling getur lýst sér í einbeitingarleysi, deyfð, óstöðugleika og tilfinningaleysi.