Fundur í Vísindaráði almannavarna

Vísindaráð almannavarna kom saman til fundar í dag vegna aukinnar jarðskjálftavirkni í Kötlu. Einnig var rætt um Bárðarbungu og mikilvægi vöktunar vegna náttúruvár á Íslandi. Fundinn sátu fulltrúar frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lögreglustjórunum á Suðurlandi, Vestmannaeyjum, Norðurlandi eystra, Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Fundurinn sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

  • Jarðskjálftavirkni í Kötlu hefur verið óvenju mikil frá því í ágúst 2016 með þremur skjálftum stærri en M4,0 og mörgum skjálftum stærri en M3,0. Skjálftavirknin er grunnstæð og dreifð innan öskjunnar. Enginn gosórói hefur mælst samfara þessari hrinu. Samfara þessari virkni hefur orðið dálítil aukning í jarðhita. GPS stöðvar nærri öskjubrún Kötlu gefa vísbendingar um þenslu í efstu kílómetrum jarðskorpunnar síðan 2010. Þegar virkni í Kötlu vex, eins og nú er, þá verður að telja að líkur á eldgosi séu meiri en venjulega og þetta þurfa vöktunar og viðbragðsaðilar að hafa í huga.

 

  • Í kjölfar stórgossins í Holuhrauni og öskjusigsins í Bárðarbungu lækkaði kvikuþrýsingur mikið undir eldfjallinu. Meðan á þessum atburðum stóð var mjög mikil skjálftavirkni í Bárðarbungu sem datt að mestu niður við goslok í lok febrúar 2015. Jarðskjálftavirkni hófst á ný í september 2015 og hefur hún haldist mikil frá þeim tíma með tugum skjálfta af stærðinni M3,0 til M4,5. Aflögunarmælingar sýna að þensla hófst strax í kjölfar gossins og hefur kvika verið að safnast upp jafnt og þétt undir Bárðarbunguöskjunni frá þeim tíma. Sennilega eru mörg ár þar til kvikuþrýstingur nær svipuðum gildum og var fyrir gosið 2014, en þó er ekki hægt að útiloka gosvirkni á næstu árum. Takmarkaðar mælingar eru á jarðhitavirkni, en eftir því sem best er vitað hafa litlar breytingar verið á síðustu mánuðum í Bárðarbungu. Mikilvægt er að fylgjast vel með jarðhitanum vegna mögulegrar vatnssöfnunar innan öskjunar.