Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum hefur ákveðið að færa almannavarnastig af hættustigi á óvissustig vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga.
Eldgosið sem hófst 1. apríl sl. stóð yfir í nokkra klukkutíma og var stysta eldgosið í þessari goshrinu á Sundhnúksgígaröðinni, af þeim átta sem hafa orðið frá desember 2023. Þrátt fyrir að eldgosið hafi verið stutt, er jarðskjálftavirkni enn á svæðinu og fylgst er náið með þróuninni.
Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að skýr merki eru um að landris heldur áfram undir Svartsengi og mælist það landris hraðar núna en í kjölfar síðustu eldgosa. Of snemmt er að segja til um hvernig hraði kvikusöfnunar undir Svartsengi mun þróast. Á vef Veðurstofunnar kemur einnig fram að um 30 milljón rúmmetrar fóru úr kvikuhólfinu 1. apríl sem gerir þetta stærsta kvikuhlaupið síðan 10. nóvember 2023 og á meðan kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi eru líkur á endurteknum kvikuhlaupum og jafnvel eldgosum.
Sjá frétt Veðurstofunnar Landris heldur áfram í Svartsengi | Fréttir | Veðurstofa Íslands