Áhættumat vegna eldgoss og afleiðinga jarðhræringa sem hófust um kl. 04:00 þann 16. júlí 2025.
Strax að morgni miðvikudagsins 16. júlí hófst vinna við að uppfæra fyrirliggjandi áhættumat sem dagsett var 1. júlí 2025 og birt á vef Almannavarna þann 2. júlí sl. Áhættumatið sem lögum samkvæmt er unnið fyrir Framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavík í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra er unnið samkvæmt alþjóðlegum stöðlum af verkfræðistofunni Örugg.
Forsendur áhættumatsins byggja á fjölbreyttum gögnum og upplýsingum og meta líkur á áhættu. Gagna- og upplýsingaöflun við uppfærslu áhættumatsins er viðvarandi á meðan atburði stendur og forsendur og mat breytist eftir því sem framvinda verður í atburðarrásinni.
Áhættumatið metur aðstæður bæði vegna íbúabyggðar í Grindavík en einnig vegna mikilvægra innviða við Svartsengi. Aðstæður annars vegar innanbæjar í Grindavík og hins vegar í Svartsengi eru ekki þær sömu. Á meðan mikil aflögun og hreyfing á jarðvegi í Grindavík hefur skapað þar hættur þá hefur engrar aflögunar orðið vart í Svartsengi.
Mikið starf hefur verið unnið til að bæta öryggi innan Grindavíkur en nauðsynlegt er að endurmeta aðstæður í kjölfar ákafrar jarðskjálftahrinu sem varð í nágrenni Grindavíkur í aðdraganda eldgossins sem nú er yfirstandandi. Aflögun getur tekið tíma að koma fram og því mikilvægt að jarðvegsskoðun sérfræðinga fari fram nú og næstu daga. Fyrir liggur að sérfræðingar ÍSOR munu framkvæma jarðvegskönnun með mælitækjum innan Grindavíkur þann 18. júlí.
Áhættumatið hér að neðan gildir þar til nýtt áhættumat er gefið út