Viðvörun vegna ferða á Vatnajökul – mögulegt hlaup – jökulsprungur

Vegna jökulhlaups sem nú er að hefjast úr Grímsvötnum vill Lögreglan á Suðurlandi vara við ferðum í og við Grímsvötn og Grímsfjall.  Sig íshellunnar í Grímsvötnum getur náð 100 metrum sem veldur því að hættulegar jökulsprungur geta myndast á ferðaleiðum.  Auk þess geta myndast sprungur yfir hlaupfarveginum sem liggur austan við Grímsfjall og niður Skeiðarárjökul.  Þegar hlaupið kemur undan Skeiðarárjökli getur gas losnað úr hlaupvatninu sem fer yfir heilsuverndarmörk.

Dæmi hafa einnig sýnt að í lok jökulhlaupa í Grímsvötnum geti hafist eldgos með tilheyrandi öskufalli.  Mjög hættulegt getur verið að vera á jöklinum ef eldgos hefst og í samráði við Jöklarannsóknarfélagið verður skálum á Grímsfjalli lokað á meðan ástandið varir.