Náttúruhamfarir verða yfirleitt án nokkurrar viðvörunar.  Til að bregðast sem best við þeim skaða sem náttúruhamfarir geta orsakað þurfa allir fyrirfram að undirbúa viðbrögð sín vegna þeirra.

Liður í mótvægis- og áhættuminnkandi aðgerðum felst í því að fara yfir heimili og vinnustað og athuga hvort nauðsynlegur öryggis- og neyðarbúnaður er til staðar, sem gott getur verið að hafa til taks ef hamfarir verða. Margir safna slíkum öryggisbúnaði í neyðar- eða viðlagakassa þar sem geymdir eru hlutir sem koma sér vel í hamförum. Minni útgáfu af slíkum neyðarkassa má geyma í bifreið.

Búnaður í góðum neyðarkassa getur verið : vel útbúinn sjúkrakassi og skrá yfir lyf heimilismanna, vasaljós og útvarp með rafhlöðu (eða sjálfhlaðandi), bæklingur um skyndihjálp, snúrusími, sem hægt væri að nota ef stafrænn eða þráðlaus sími verður óvirkur, auka rafhlaða fyrir farsíma og hleðslutæki sem hægt er að nota í bifreið, minnislykill með mikilvægum skjölum og ljósmyndum , flauta, upptakari, þurrmatur (pasta, súpur, kex), vatn, eldhúsrúllur, rykgrímur, eldspýtur, stór plastpoki, eitthvað reiðufé, auka bíllyklar, húslyklar, föt, svo og ýmsar sérþarfir fjölskyldumeðlima t.d. fyrir börn og gæludýr.

Einnig er mikilvægt að hafa útprentaða skrá yfir helstu símanúmer fjölskyldu og stofnana í sveitarfélaginu, lyfjaskrá auk þess sem upplagt er að setja í viðbragðsáætlun fjölskyldunnar/ vinnustaðarins   í öryggis- og neyðarkassanum. Góð verkfæri eru einnig nauðsynleg í slíkum kassa (hamar, kúbein, skófla) svo og límbandsrúlla.
Venjulegur útilegubúnaður getur komið sér þegar yfirgefa þarf heimilið, oft í flýti vegna hamfara, og auðvelt að grípa með s.s svefnpokar, teppi, hlý föt (ullarnærföt) og góðir skór, pakkamatur, vatnskútur með vatni í, snyrtidót, niðursoðinn/þurrmatur, kveikjari, upptakari, ásamt pottum og prímusum, hleðslutæki,  . Einnig spil, púsl og önnur afþreying, sérstaklega fyrir börnin

Athugið! Kynnið ykkur hvar skrúfað er fyrir vatn og hvernig rafmagn er tekið af húsinu/íbúðinni

Fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins eru almennt í skólum (sjá lista) og er þar tekið á móti þeim sem þurfa að yfirgefa heimili eða vinnustað og því mikilvægt að vita hvar næsta fjöldahjálparstöð er.   Athugið að aldraðir og/eða fatlaðir einstaklingar búa hugsanlega í næsta nágrenni við ykkur og  gætu þurft á aðstoð að halda ef það þarf að yfirgefa heimilið vegna hamfara.

Einnig gæti þurft að gera sérráðstafanir fyrir búfénað og gæludýrin. Ef rýming er yfirvofandi athugið að hafa nægt eldsneyti á bifreið og kannið hvort fjölskyldur sem ekki eiga bifreið geti ferðast saman til næstu fjöldahjálparstöðvar.

Einstaklingar, fjölskyldur, fyrirtæki og stofnanir þurfa að fara yfir þær hættur sem þau eru útsett fyrir og gera viðeigandi ráðstafanir og sína eigin viðbragðsáætlun. Viðbragðsáætlanir þessara aðila snúast um að fara yfir hugsanlegar hættur sem steðja að þeim og hvaða úrræði eru til staðar og hvað skuli gera til að vera viðbúinn. Æfið viðbragðsáætlunina reglulega og uppfærið hana eftir þörfum. Rauði krossinn á Íslandi heldur skyndihjálparnámskeið reglulega og er mikilvægt að kunna fyrstu hjálp.

Upplýsið alla heimilismeðlimi, sérstaklega börnin, um öryggismál og viðbraðsáætlanir og hvernig þurfi að bregðast við og hvert eigi að leita ef eitthvað fer útskeiðis.  Munið að 1-1-2 er númer sem allir geta haft samband við í neyð og er einnig símanúmer Almannavarna. Ef mikið álag er á 1-1-2 er hægt senda þeim SMS eða setja út hvíta veifu sem er merki um hjálparbeiðni í hamförum. Oft getur verið erfitt að hringja í hamförum – en SMS getur virkað.

Almannavarnir bregðast strax við neyðarástandi en hafa skal í huga að ef margir slasast eða verða heimilislausir getur orðið bið á því að öllum berist hjálp.  Því þarf fólk að vera undir það búið að bjarga sér sjálft, þar til hjálpin berst.

Við gerð heimilisáætlunar þá ræðir heimilisfólk saman um hugsanlegar hættur, tryggingamál, framkvæmir forvarnir, semur viðbragðs- og rýmingaráætlun og lærir að bregðast við vá.  Gefið ykkur því tíma til þess að athuga hvernig þið getið undirbúið ykkur og heimili ykkar til að takast á við áföll.  Ræðið og æfið áætlunina með reglubundnu millibili. Látið börnin taka fullan þátt, öryggis þeirra vegna.

Gera heimilisáætlun.