17. mars 2022, kl. 9:00-11:00. Fundurinn haldinn á Grand hótel (Gallerí)

Fimmtudaginn 17. mars verður haldinn fundur um áhættuskoðun almannavarna og greiningu á áfallaþoli.
Tilgangur fundarins er að kynna fyrir ráðgjöfum á sviði áhættustjórnunar og áhættugreininga verkefni Almannavarna um greiningu á áhættu og áfallaþoli sem verið er að hrinda af stað.

Búið er að útbúa heildstæðar leiðbeiningar fyrir stjórnsýsluna og vefgátt sem opnað var fyrir á málþingi fyrir ráðuneytin 10. mars s.l. Í vefgáttinni er annars vegar haldið utan um gögn vegna greininga á áhættu og áfallaþoli og valdar niðurstöður sýndar í mælaborði á vefsíðu Almannavarna auk þess sem eigendur gagnanna geta skoðað ýmsar samanteknar niðurstöður á sínum greiningum í vefgáttinni. Hins vegar er haldið utan um eftirlit Almannavarna með stöðu almannavarnastarfs í héraði og á landsvísu og niðurstöður eftirlitsins sýndar í mælaborði á vefsíðu Almannavarna.

Verkefnið byggir á áherslum í stefnu stjórnvalda í almannavarna og öryggismálum þar er m.a. fjallað um forvarnir og einn af þeim þáttum sem þar er dreginn fram er gerð greininga á áhættu og áfallaþoli. Lögð er áhersla á grundvallarreglur almannavarna, sviðsábyrgðar-, samkvæmnis-, grenndar- og samræmingarreglu og þar með á hlutverk ráðuneyta, stofnana, sveitarfélaga og þeirra einkafyrirtækja sem falla undir kröfu um að gera greiningu á áhættu og áfallaþoli samkvæmt lögum um almannavarnir. Hlutverk Almannavarna er að drífa verkefnið áfram en innihaldið og áherslurnar koma frá þeim sem bera ábyrgð á málefnasviðum og verkefnum.

Við innleiðingu á aðferðum áhættustjórnunar og samræmt mat á áhættu og áfallaþoli er líklegt að einhverjir af þeim fjölmörgu aðilum sem ber að vinna greiningu á áhættu og áfallaþoli muni þurfa á aðstoð sérfræðinga á sviði áhættustjórnunar og áhættugreininga að halda til að koma á þeirri samræmdu aðferðafræði sem lögð er fram með leiðbeiningaefni Almannavarna.

Iðan fræðslusetur mun í samstarfi við Almannavarnir halda utan um námskeið þar sem notkun leiðbeiningaefnisins og vefgáttarinnar verður kennd. Námskeiðin verða þrenns konar og miðuð að þörfum ráðuneyta, stofnana og sveitarfélaga. Þessi kynningarfundur er haldinn til að kynna fyrir ráðgjöfum á sviði áhættustjórnunar og greininga á áhættu og áfallaþoli, hvað felst í verkefninu, hvernig leiðbeiningarnar og vefgáttin eru uppsett sem og hvað felst í því að taka þátt sem leiðbeinandi á námskeiðum Iðunar fræðsluseturs.

Við hlökkum til að sjá ykkur fimmtudaginn 17. mars nk.

Skráning á fundinn er á netfangið hg01@logreglan.is, skráningarfrestur er til kl. 16:00 16. mars nk.  Í skráningunni þarf að taka fram nafn, fyrirtæki, starfsheiti, netfang og símanúmer. Allar frekari upplýsingar er hægt að nálgast hjá Hjördísi Guðmundsdóttur, samskiptastjóra Almannavarna (hg01@logreglan.is).

Dagskrá

Hefst klukkan kl. 9:00

Opnun fundar
Víðir Reynisson sviðstjóri og yfirlögregluþjónn Almannavarna


Kynning á sjónarhorni ráðuneyta

Haukur Guðmundsson, dómsmálaráðuneytið


Kynning á sjónarhorni sveitarfélaga

Kjartan M. Kjartansson, Bæjarstjóri Reykjanesbæjar

Kaffihlé um klukkan 9:50

Kynning á Leiðbeiningum, stuðningsritum og vefgátt Almannavarna
Elísabet Pálmadóttir, verkefnastjóri Almannavarna

IÐAN fræðslusetur
Ólafur Ástgeirsson, Sviðsstjóri bygginga- og mannvirkjasviðs

Fundi lýkur um klukkan 11:00.