Áhættumat vegna jarðhræringa á Reykjanesi – 2. júlí 2025

Forsendur
Samkvæmt c-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 40/2024 um framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ fer nefndin með stjórn, skipulag og framkvæmd gerðar áhættumats í þéttbýli í Grindavíkurbæ í samvinnu við ríkislögreglustjóra. Áhættumatið er unnið af ÖRUGG verkfræðistofu ehf., fyrir framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ. Framkvæmdanefndin hefur fjallað um áhættumatið og samþykkt útgáfu þess.

Samantekt áhættumats
Margir þættir hafa áhrif á áhættumat svæðisins, en sérstaklega er litið til hættumats Veðurstofu Ísland frá 18. júní 2025, stöðu innviða og þeirra varna sem eru til staðar. Þar með talið eru framkvæmdir við innviði til að auka öryggi. Jafnframt er tekið mið af tilkynningu lögreglustjórans á Suðurnesjum frá 7. maí sl. Enn er landris og kvikusöfnun undir Svartsengissvæðinu og því auknar líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi með haustinu skv. Veðurstofu Íslands.

Reykjanesskagi er nú á óvissustigi samkvæmt ákvörðun Almannavarna sem hefur áhrif á viðveru
viðbragðsaðila í Grindavík, ásamt því að færri dvelja í Grindavík en áður en gos hófst. Há áhætta er metin í
Grindavík fyrir ytri aðila og ferðamenn að nóttu til þar sem þeir þekkja síður til aðstæðna eða viðbragðs. Aðrir hópar falla undir miðlungs áhættu þar bæði dag og nótt þar sem góðar varnir eru til staðar en nokkur óvissa er þó ríkjandi. Ferðamenn í umsjón fyrirtækja á svæðinu búa almennt við lægri áhættu en þeir sem ferðast á eigin vegum, séu öryggisáætlanir virkar. Löggæsla er til staðar í Grindavík á virkum dögum frá klukkan 8:00 til 15:30. Slökkvilið og sjúkraflutningum er sinnt frá Reykjanesbæ og Reykjavík. Skert þjónusta viðbragðsaðila hefur áhrif á niðurstöður áhættumatsins.

Bent er á mikilvægi þess að ekki sé farið inn á hættusvæði sem girt hafa verið af í Grindavík vegna hættu á
falli ofan í sprungu. Fyrirtæki eru jafnframt hvött til að uppfæra sínar öryggisáætlanir m.t.t. áhættumats, hafa tiltækan nauðsynlegan öryggisbúnað og æfa rétt viðbrögð með sínum starfsmönnum reglulega.
Ferðaþjónustufyrirtæki þurfa sérstaklega að stýra öryggi gesta með eigin áhættumati og miðlun upplýsinga. Tryggja skal að húsnæði sem nota á fyrir atvinnustarfsemi og til gistingar séu örugg fyrir viðveru. Enn á eftir að kanna til hlítar ástand jarðvegs m.t.t. sprungna í austurhluta Grindavíkursvæðis, og þar með er óvissa enn til staðar.

Á Svartsengissvæðinu er áhætta metin miðlungs að nóttu til fyrir ytri aðila og ferðamenn, að öðru leyti er
áhætta metin lág á svæðinu. Ferðamenn í umsjón fyrirtækja á svæðinu búa þó almennt við lægri áhættu en þeir sem ferðast á eigin vegum. Viðvera viðbragðsaðila í Grindavík hefur áhrif á niðurstöður áhættumatsins. Bætt aðgengi, birtuskilyrði og veðurfar vegna árstíma hefur jákvæð áhrif á niðurstöður áhættumatsins.

Á gos og sprengjusvæði er áhætta metin óásættanleg fyrir ytri aðila og ferðamenn en mjög há fyrir
viðbragðsaðila, ráðgjafa og verktaka. Gengið er út frá því að ytri aðilar og ferðamenn séu verr útbúnir og átti sig síður á hættum á svæðinu.

Áhættumatið gildir þar til nýtt áhættumat er gefið út.