Mikilvægt er að fyrirtæki og stofnanir í rekstri geri áhættumat og viðbragðsáætlanir um  rekstrarsamfellu, þannig  að þegar eitthvað í ytra umhverfinu  breytist, oft eitthvað óþekkt og hætta er á rekstrarstöðvun, þá er nauðsynlegt að vera með áætlun um aðgerðir til að lágmarka tjón.  Hverjar eru áhætturnar sem fyrirtæki og stofnanir þurfa að takast á við og hversu berskjölduð eru þau gagnvart þessum áhættum.

Talað er um áfallaþol fyrirtækja og stofnana sem getu þeirra til að komast af, aðlagast, eflast og halda sér á réttri braut þegar flóknar breytingar verða, oft ófyrirséðar, og ná að komast í nýja og betri stöðu í framhaldinu.

Almannavarnir unnu árið 2008 að gátlista til að styðja fyrirtæki á Íslandi við áætlanagerð vegna skæðra inflúensufaraldra. Gátlistinn getur og hefur einnig komið að gagni við undirbúning fyrirtækja vegna annarra farsótta.

Almannavarnir hafa nú unnið frekari leiðbeiningar sem eru viðbót við gátlistann og geta í tengsl­um við Covid-19 faraldurinn veitt hagnýt ráð um hvernig fyrirtæki og stofnanir geta viðhaldið framleiðslu á vörum og þjónustu, þrátt fyrir þá alvarlegu at­burði sem nú hafa áhrif á samfélag og viðskipti.

Einnig hefur verið unnið að leiðbeiningum fyrir skipulag samskipta í áfallastjórnun.  Þær leiðbeiningar veita ráð fyrir starfsemi svo að hægt sé að útbúa áætlun fyrir samskipti í áfallastjórnun sem er aðlöguð að þörfum hvers og eins eða til þess að mögulegt sé að endur­skoða og uppfæra fyrirliggjandi áætlanir. Enn fremur gefa leiðbeiningarnar ráð um hagnýt sam­skipti eftir áföll. Opinber starf­semi og einkafyrirtæki geta nýtt sér leiðbeiningarnar, óháð þekkingu sinni á samskiptum í áfallastjórnun.

Í báðum þessum leiðbeiningunum er stuðst við efni og þekk­ingu sem Almannavarnir áttu fyrir en stór hluti af þeim er nýtt, þýtt og staðfært úr leiðbeiningum sem gefnar voru út af Direktoratet for sikkerhet og beredskap sem er systurstofnun Almannavarna í Noregi.

Leiðbeiningar um skipulag á órofnum rekstri

Leiðbeiningar um skipulag samskipta í áfallastjórnun

Þá má sjá hvernig Írar vinna að þessum málum þar sem tekið er fyrir hvernig einstaka fyrirtæki og stofnanir eins og t.d. framleiðslu-, fjármála- og tölvufyrirtæki undirbúa sig. Business Continuity Planning – Responding to an influenza Pandemic

Sveitarfélög

Mikilvægt er að sveitarfélög hugi að áætlanagerð í almannavörnum allt frá björgun mannslífa, neyðaraðstoð og uppbyggingu.

Verkefnið Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum (LVN) setti saman almennar leiðbeiningar fyrir sveitarfélög varðandi neyðaraðstoð og endurreisn í kjölfar náttúruhamfara. Þetta verkefni miðar að því að skilgreina hvernig best verður staðið að neyðaraðstoð og uppbyggingu.

Gátlistar LVN verkefnisins eru 5 talsins. Sá fyrsti snýr að stjórnsýslu sveitarfélagsins og getu starfsmanna til að bregðast við áfalli. Næsti snýr að formanni endurreisnarteymisins og þeim málum sem hann á að huga að. Þriðji gátlistinn beinist að atriðum sem eiga við alla klasana þrjá, þ.e. velferðar- umhverfis- og efnahagsklasa. Fjórði gátlistinn er þrískiptur, sérstakt blað er fyrir hvern klasa. Fimmti og síðasti gátlistinn snýr að sveitarstjórnarmönnum og stefnumótandi atriðum.

Samstarfsaðilar um verkefnið voru Háskóli Íslands, Rainrace, Almannavarnarnefnd Ísafjarðarbæjar, Rauði kross Íslands, Viðlagatrygging Íslands, Almannavarnir og fleiri.