Á meðan á gosinu í Holuhrauni stóð var oft á tíðum veruleg gasmengun frá gosinu sem hafði áhrif bæði á menn og dýr. Ljóst er að töluvert af mengandi efnum hefur fallið til jarðar á landinu með úrkomu, ýmist í formi rigningar eða snævar. Mengunarefnin geta hæglega safnast fyrir í snjó og losna svo þaðan þegar snjóa leysir. Þessi efni geta haft áhrif á yfirborðsvatn, jarðveg og plöntur ef þau safnast upp. Ekki er vitað hvort eða hvernig efnin safnast fyrir í náttúrunni. Til að komast að því hafa fjöldi stofnana sett saman rannsóknaráætlun sem hrint verður að mestu í framkvæmd í sumar en sum verk eru þó hafin. Rannsóknirnar snúast um að kanna hvort mengandi efni frá gosinu safnist upp í náttúrunni og hvort þau leysi hugsanlega önnur efni sem geta verið hættuleg heilsu manna og dýra úr bergi og jarðvegi. Kanna þarf hvers lags mengandi efni geta safnast fyrir í fæðu bæði manna og dýra, það verður gert á komandi mánuðum með því að taka sýni úr yfirborðsvatni, grunnvatni, gróðri og jarðvegi og efnagreina þau. Þessar rannsóknir munu standa fram á haustmánuði.
Þann 23. mars síðastliðinn var haldin málstofa um áhrif mengunar frá eldgosinu í Holuhrauni á gróður og lífríki. Málþingið var haldið á vegum Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Bændasamtaka Íslands, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Sjá má glærur frá málstefnuinni og hlusta á erindin á vef atvinnuvegaráðuneytisins.