Öræfajökull

Öræfajökull er eitt stærsta eldfjall landsins og jafnframt hæsta fjall Íslands. Þar gýs að meðaltali á 500–1000 ára fresti og gosefnaframleiðslan er lítil í samanburði við mikilvirkustu eldstöðvakerfi landsins. Þó hafa tvö gos orðið á sögulegum tíma, 1362 og 1727. Gosið 1362 er talið öflugasta sprengigos sem orðið hefur hér á landi á sögulegum tíma. Mat hefur verið lagt á stærðir og gerðir eldgosa sem orðið geta í Öræfajökli, stærðir jökulhlaupa vegna eldgosa auk þess sem útbreiðsla, framrásartími og vatnsdýpi á áhrifasvæði hlaupa hefur verið metið. Þá hefur verið lagt mat á líkleg áhrif á byggðir og mannvirki nærri fjallinu auk þess tíma sem það tæki að rýma byggðina á áhrifasvæðum jökulhlaupa.

Skipta má gerðum hlaupa vegna eldgosa í Öræfajökli í þrennt. Í fyrsta lagi eru hlaup vegna sprungugosa undir tiltölulega þunnum jökli í hlíðum fjallsins, í öðru lagi hlaup vegna gosa undir þykkum jökli í öskjunni og í þriðja lagi hlaup vegna bráðnunar á yfirborði jökulsins í heitum gjóskuflóðum. Metið er versta tilfelli sem einhverjar líkur eru á að geti átt sér stað. Niðurstöðurnar benda til þess að sprungugos í hlíðum geti valdið hlaupum af stærðargráðunni 3.000–6.000 m3 /s. Stórgos í öskjunni geta orsakað hamfarahlaup, stærri en 100.000 m3 /s. Stærðargráða hlaupa vegna gjóskuflóða í stórgosum er metin 10.000–20.000 m3 /s. Framrásartími hlaupa yrði í öllum tilvikum stuttur, eða að lágmarki 20–30 mínútur frá upphafi goss þar til hlaup næði að þjóðvegi 1.

Hætta vegna jökulhlaupa við eldgos í Öræfajökli er metin mikil eða geysimikil á um 340 km2 svæði sem nær yfir svo til allt láglendi austan Skaftafells austur fyrir Kvíárjökul. Bæirnir í Svínafelli, Hofi og Hnappavöllum liggja þó rétt utan þess. Fjöldi þeirra sem gista yfir nótt á svæðinu austan Skaftafells að Kvískerjum fer vaxandi með auknum ferðamannastraumi og um há-ferðamannatímann er hann langt umfram fjölda þeirra sem búa á svæðinu að staðaldri. Full rýming Öræfasveitar milli Skaftafellsár og Fjallsár við bestu aðstæður tekur að lágmarki 35–40 mínútur. Þessi tími er lengri en stysti mögulegi framrásartími hlaupa sem undirstrikar nauðsyn þess að forboðar séu greindir rétt. Ef forða á heimafólki og ferðamönnum áður en hlaup næði niður á láglendi þarf að hefja rýmingu áður en gos hefst.

Nánari upplýsingar um jökulhlaup í Öræfajökli vegna eldgoss undir jökli má nálgast undir útgefið efni hér á vefsíðunni eða  https://www.almannavarnir.is/utgefid-efni/jokulhlaup-i-oraefum-og-markarfljoti-vegna-eldgosa-undir-jokli-forgreining-ahaettumats/?wpdmdl=22466