Aðstoð við pökkun og flutning á innbúi heimila í Grindavík

Íbúar Grindavíkur sem telja sig þurfa á aðstoð að halda vegna pökkunar og/eða flutnings á innbúi geta nú sent inn beiðni um slíkt í gegnum island.is.

Þar er hægt að óska eftir aðstoð við pökkun búslóðar, burð, flutning og/eða geymslu á innbúi, íbúum að kostnaðarlausu.  Aðstoðin er aðeins fyrir þá sem telja sig þurfa. Umsóknum verður því forgangsraðað.

Í þessu samhengi er rétt að minna á að Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) gerir engar kröfur til íbúa í Grindavík um að bjarga innbúi og lausafé á meðan ástandið þar er enn hættulegt. Þó að ekki takist að bjarga innbúi og lausafé vegna mögulegra hamfara mun það ekki hafa áhrif á bótarétt Grindvíkinga gagnvart NTÍ að sinni.

Þegar umsókn er móttekin inni á island.is fær umsóknaraðili staðfestingarpóst þess efnis. Farið er yfir allar umsóknir í samvinnu við Félagsþjónustu Grindavíkurbæjar og þeim forgangsraðað. Því næst er haft samband við umsóknaraðila og beiðninni úthlutuð tímasetning. Tímasetningin á þessari aðstoð við flutninga á innbúi ákvarðast ekki af opnunarskipulagi hólfa í Grindavík.   

Geymsla á innbúi er með þeim hætti að innbúið er í geymslu þar til eigandi þess kemur og sækir það allt. Ekki er hægt að nálgast hluta af innbúinu á meðan á geymslu þess stendur. 

Ekki er hægt að geyma farartæki.  Varningur sem hætta getur stafað af er ekki hægt að geyma. Þetta á t.d. við um eldfim efni og gaskúta.  

Hér er um tímabundið úrræði að ræða en eigendur innbúa sem nýta sér þetta úrræði verða látnir vita með góðum fyrirvara (einhverjum vikum) þegar því lýkur. Gert er ráð fyrir að geymsla innbús muni vara í að a.m.k. 10 mánuði.

Allar umsóknir verða afgreiddar eins fljótt og hægt er og mun þessi aðstoð vera í boði alla daga vikunnar á meðan verið er að meta þörf íbúa á aðstoðinni. Athugið að þessi aðstoð er í boði fyrir heimili sem þess þurfa, en ekki fyrirtæki.

Vert er að taka fram að þættir eins og veður, breytt áhættumat og annað getur haft áhrif á tímasetningar og fyrirkomulag flutninga.