Áfram unnið á óvissustigi vegna kórónaveiru

Ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi almannavarna þann 27. janúar í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveiru. Ekkert smit hefur verið staðfest hér á landi. 

Á fundi sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar RLS var í morgun tekin ákvörðum um að vinna eftir landsáætlun fyrir heimsfaraldur inflúensu. frá 25.04.2016 á óvissustigi. Áætlunin styðst við lög um almannavarnir nr. 82/2008 og sóttvarnalög nr. 19/1997.  

Óvissustig almannavarna vegna heimsfaraldurs inflúensu samsvarar viðvörunarskeiði (e. alert phase) samkvæmt flokkun WHO. Nýr stofn inflúensuveiru hefur greinst í mönnum og ástæða þykir til aukinnar árvekni og ítarlegs áhættumats. Óvissustig kallar á aukið samráð/samstarf við mikilvæg innlend samtök og stofnanir. Þá er aukið samstarf við mikilvæg erlend samtök og stofnanir (WHO, ECDC og eftir atvikum aðrar stofnanir. Aukin er vöktun og farsóttagreining. Athugun er gerð á birgðastöðu matar, lyfja og annarra nauðsynjavöru svo fátt eitt sé nefnt.

Mikilvægt að þeir, sem hafa hlutverk samkvæmt áætluninni fari yfir undirbúning sinn og hlutverk á óvissustigi.