Almannavarnir fara upp á neyðarstig vegna rofs á afhendingu á heitu vatni á Suðurnesjum

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum, hafa ákveðið að fara upp á neyðarstig Almannavarna.

Heitavatnslögnin, stofnlögnin, sem flytur heitt vatn frá Svartsengi til Fitja í Reykjanesbæ er rofin sem veldur heitavatnsleysi á Suðurnesjum. Nú er mikilvægt að íbúar og fyrirtæki á Suðurnesjum spari allt rafmagn og heitt vatn.

Miðlunartankar geyma heitt vatn á svæðinu og nú þegar leiðslan er farin er það eina vatnið sem er eftir á svæðinu. Almannavarnir ítreka því mikilvægi þess að íbúar og fyrirtæki spari vatnið. Í markvissum sparnaði endast miðlunartankar væntanlega í 6 til 12 klukkustundir. Miðað við hefðbundna daglega notkun endast tankarnir í 3 til 6 klukkustundir.

Íbúar geta notað rafmagnsofn en Almannavarnir ítreka að hver eign má aðeins notast við einn rafmagnsofn. Rafkerfið þolir ekki meiri notkun. Ef öll setja ofna í gang í einu getur kerfið slegið út. Því er mikilvægt að íbúar fylgi fyrirmælum og noti aðeins einn rafmagnsofn til kyndingar.