Hraunflæðilíkön líklegra sviðsmynda

Á upplýsingafundi fyrir íbúa Grindavíkur sem haldinn var fyrr í dag kynnti Veðurstofan hraunflæðilíkön sem gerð hafa verið vegna líklegs hraunflæðis á Reykjanesi.

Á fundinum voru fjögur líkön birt en tvö þeirra ætlar VÍ að vinna betur áður en þau verða bætt við fréttina.

Tekið af vef Veðurstofunnar:

Líklegar sviðsmyndir 

Það er áfram mat vísindamanna að ef til eldgoss kemur, er líklegast að kvikan leiti frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina og að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp  til yfirborðs, koma  fram í skyndilegri, staðbundinni og ákafri smáskjálftavirkni. Ef horft er til fyrri eldgosa á svæðinu gæti eldgos hafist með litlum fyrirvara, innan við 30 mínútur, allt eftir því hvar á Sundhnúksgígaröðinni kvika kemur upp.

Á íbúafundi með Grindvíkum sem haldinn var í dag kynnti Veðurstofan hraunflæðilíkön í tengslum við líklegar sviðsmyndir sem birtar voru fyrir helgi. Líkönin gera ráð fyrir stöðugu hraunflæði upp á 600m3/s og sýnir dreifingu hraunbreiðunnar eftir 6 klukkustundir.

Líkönin sem kynnt voru sýna áætlað hraunflæði út frá mismunandi staðsetningum á gosopnun á Sundhnúksgígaröðinni. Í þessum sviðsmyndum er gert er ráð fyrir 800 m langri gossprungu. Sprungur eru merktar með svörtu striki. Hér fyrir neðan eru aðeins nokkur dæmi, en hegðun hraunbreiðunnar getur verið mjög ólík og ræðst af því hvar nákvæmlega sprunga opnast í landslaginu. Lítil tilfærsla á gossprungum getur breitt hraunflæði mikið.

Eldgos milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells – Líkt og 18. desember 2023 og 8. febrúar 2024 

  • Aðdragandi: Skyndileg, staðbundin og áköf smáskjálftavirkni. Aflögun yfir kvikuganginum. 
  • Mjög stuttur fyrirvari (innan við 30 mínútur) þar sem kvika á auðvelda leið til yfirborðs vegna fyrri umbrota. 
  • Hraun nær að Grindavíkurvegi innan við 4 klst. Í seinna hraunflæðilíkaninu hér að neðan næði hraun að varnargörðum við Grindavík á um 1 klst.

Eldgos við Hagafell – Líkt og 14. janúar 2024

  • Aðdragandi: Smáskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni sem byrjar við Sýlingarfell og færist suður. Aflögun yfir kvikuganginum. Líklegur fyrirvari um 1 – 3 klst. frá því að fyrstu skjálftar mælast og eldgos hefst. 
  • Hraun nær að varnargörðum við Grindavík á 1 klst. 
  • Kvikuinnskot sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík.

Eldgos innan varnargarða við Grindavík 

  • Aðdragandi: Smáskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni sem byrjar við Sýlingarfell og færist suður. Aflögun yfir kvikuganginum. 
  • Líklegur fyrirvari um 1 – 5  klst. frá því að fyrstu skjálftar mælast og eldgos hefst. 
  • Sá möguleiki er fyrir hendi að gossprunga opnist innan varnargarða án þess að gos sé hafið við Hagafell, eins og gerðist 14. janúar þegar ný gossprunga opnaðist rétt við bæjarmörkin um 4 klukkustundum eftir að gos hófst við Hagafell. 
  • Kvikuinnskot sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík.

Veðurstofan og Háskóli Íslands hafa tekið saman efni sem lýsir eðli umbrotanna sem hafa átt sér stað á Reykjanesskaganum síðan 2019. Sjá hér.