Íbúafundir

Mjög fjölmennir íbúafundir voru haldnir í gær á Flateyri vegna snjóflóðanna 14. janúar og á Suðureyri vegna flóðbylgju sem myndaðist sama dag, þegar snjóflóð féll handan fjarðarins úr Norðureyrargili og bylgja lenti á Suðureyri

Fulltrúar sveitarfélagsins, snjóflóðavakt Veðurstofunnar, Náttúruhamfaratryggingar Íslands og Samráðshóps um áfallahjálp á Vestfjörðum ávörpuðu fundinn og svöruðu spurningum, Einnig svöruðu spurningum á fundinum fulltrúar frá Ofanflóðastjóði, Heilbrigðissofnun Vestfjarða, Rauða krossinum, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Umhverfisstofnun og Svæðisstjórn björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Margar spurningar brunnu á fundargestum, sem leitast var við að svara. Á Flateyri voru spurningar um öryggi snjóflóðavarnavirkja, flóttaleiðir þegar Flateyrarvegur er lokaður, mikilvægi þess að hafa útibú frá heilbrigðisstofnun á staðnum, umfang og öryggi hættumats, og almennur öryggisviðbúnaður svo fátt eitt sé nefnt. Áhersla var lögð á að styrkja þyrfti innviði samfélagsins á Flateyri.

Á fundinum á Suðureyri kom fram að Veðurstofan væri að vinna sjávarflóðahættumat víðsvegar á landinu og flóðbylgja í Súgandafirði vegna snjóflóða myndi falla þar undir. Íbúar töldu mikilvægt að viðbragðsáætlun vegna hgsanlegrar flóðbylgju yrði unnin í samvinnu við íbúa. Eins þyrfti að hækka sjóvarnagarða.

Þá er mikilvægt að kynna aðstæður fyrir nýjum íbúum á svæðinu og fræða börnin um hugsanleg snjóflóð og sjávarflóð, svo og viðbúnað og viðbrögð við þeim

Í dag þriðjudaginn 21. janúar, 2020 verða haldnir íbúafundir í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði kl. 17:00 og í Súðavíkurskóla, Súðavík klukkan 20:00.

Þjónustumiðstöð almannavarna er starfrækt á Flateyri og Suðureyri þessa viku og þar eru að störfum fulltrúar Rauða krossins, Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sveitarfélagsins og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.