Veðurstofa Íslands hefur lýst yfir óvissustigi vegna hugsanlegrar snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum. Samkvæmt Veðurstofunni hefur verið mjög hvasst síðan snemma í morgun og skafrenningur til fjalla frá því í gær. Búast má við því að snjóflóðahætta geti skapast í þessu veðri þar sem snjór safnast í fjöll en ekki er talin hætta í byggð eins og er.
Áfram verður hvasst og hríðarveður fram yfir miðnætti á Norðurlandi og Vestfjörðum en þá dregur úr vindi og úrkomu. Snjóflóðavakt Veðurstofunnar fylgist grannt með þessum aðstæðum í samráði við almannavarnir.