Sérfræðingar á almannavarnasvið ríkislögreglustjóra

Vilt þú taka þátt í að efla almannavarnir á Íslandi?
Við leitum að frábærum einstaklingum, lögreglumönnum og sérfræðingum, í teymið okkar og erum með lausar til umsóknar allt að sex stöður verkefnastjóra á ýmsum sviðum. Fyrir í teyminu eru sérfræðingar með fjölbreyttan bakgrunn sem geta varla beðið eftir liðsauka. Við leitum að einstaklingum sem búa yfir menntun, reynslu og áhuga á verkefnum á sviði almannavarna. Hluti starfanna verða unnin frá starfstöð á höfuðborgarsvæðinu en verkefni almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra ná um allt land. Öll störfin eru framtíðarstörf með 6 mánaða reynslutíma. Umsóknarfrestur er til og með 18. júní 2024.

Verkefnin sem við sinnum eru spennandi og vinnutíminn er sveigjanlegur. Þótt álagið geti verið mikið þegar náttúran ygglir sig þá verður þú hluti af öflugum hóp sem brennur fyrir öryggi samfélagsins og er tilbúinn að leggja mikið á sig svo þannig verði. Að þessu sinni er lögð áhersla á ráðningu verkefnastjóra til samhæfingu og stjórn aðgerða, þjálfun, fræðslu og æfinga. Jafnframt til stefnumótunar, umbótastarfa á sviði tæknimála ásamt gerð viðeigandi viðbragðsáætlana og verklagsreglna.

Skipulagðir, nákvæmir og jákvæðir einstaklingar með ríkan samstarfsvilja og framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum við krefjandi aðstæður eru sérstaklega velkomnir. Við leitum að margvíslegum hæfileikum, menntun og reynslu svo ekki hika við að sækja um, hver veit nema að við séum að leita að þér!

Embætti ríkislögreglustjóra er lifandi þekkingarvinnustaður sem býr að fjölbreyttum og framúrskarandi mannauði þar sem starfa rúmlega 250 starfsmenn sem sinna margbreytilegum verkefnum. Lögð er áhersla á opin og jákvæð samskipti, markvissa starfsþróun og unnið er í samræmi við stefnu embættisins um samræmingu fjölskyldulífs og vinnu.

Stefna embættis ríkislögreglustjóra í hnotskurn:

 • Okkar tilgangur er að vernda og virða
 • Okkar sýn er að vinna að öruggara samfélagi
 • Okkar markmið er að vera þjónustudrifin, framsækin og upplýsandi
 • Okkar áhersla er á þjónustu – fagmennsku – mannauð – tækni – rekstur

Helstu verkefni og ábyrgð

Markmið almannavarna er að undirbúa, skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir og takmarka, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni, eða umhverfi eða eignir verði fyrir tjóni, af völdum náttúruhamfara eða af mannavöldum, farsótta eða hernaðaraðgerða eða af öðrum ástæðum og veita líkn í nauð og aðstoð vegna tjóns sem hugsanlega kann að verða eða hefur orðið.

Hæfniskröfur

Þau verkefnasvið sem nú er verið að ráða til eru:

Upplýsingamiðlun og fræðsla
Helstu verkefni

 • Umsjón með gerð upplýsinga- og fræðsluefnis
 • Tæknilegar lausnir til upplýsingamiðlunar og samskipta. Söfnun og framsetningu gagna

Hæfniskröfur

 • Afburðaþekking á margmiðlunarlausnum
 • Góð þekking á gagnasöfnun og miðlun t.d. með BI borðum

Samhæfing og stjórn aðgerða
Helstu verkefni

 • Samhæfing og stjórn aðgerða, m.a. í Samhæfingar og stjórnstöð Almannavarna
 • Samstarf og stuðningur við umbótaverkefni í þágu þess að efla almannavarnir
 • Bakvaktir, samkvæmt vaktaplani

Hæfniskröfur

 • Góð þekking á skipulagi og stjórnkerfi almannavarna og helstu samstarfsaðila almannavarna

Gerð viðbragðáætlana, verklagsreglna, fræðsla og framkvæmd æfinga

Helstu verkefni

 • Samstarf og stuðningur við almannavarnanefndir og lögreglustjóra, um markvisst og virkt almannavarnastarf í héraði, m.a. gerð viðbragðsáætlana
 • Aðkoma og stuðningur við almannavarnaæfingar, um land allt

Hæfniskröfur

 • Góð þekking á skipulagi, stjórnkerfi og störfum viðbragðsaðila og helstu samstarfsaðila almannavarna
 • Þekking á gerð viðbragðsáætlana

Stefnumótun og miðlun
Helstu verkefni

 • Vinna að stefnumótun almannavarnasviðs og málaflokksins, í samvinnu við sviðs- og deildarstjóra
 • Kynna stefnu, áherslur og verkefni almannavarnasviðs og almannavarna
 • Samskipti og framkoma í fjölmiðlum, m.a. við aðgerðir

Hæfniskröfur

 • Þekking á vinnu við stefnumótun og markmiðasetningu
 • Góð og traust framkoma
 • Reynsla af framkomu í fjölmiðlum æskileg

Frekari upplýsingar um starfið

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og viðkomandi stéttarfélag hafa gert.

Umsóknir skulu berast í gegnum Starfatorg (www.starfatorg.is). Umsóknir sem berast eftir að umsóknarfresti lýkur verða ekki teknar til greina. Umsóknir geta gilt í 6 mánuði frá lokum umsóknarfrests. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Áskilinn er réttur til að hafna öllum umsóknum.

Umsækjendur skulu senda inn ferilskrá að hámarki 2 bls. ásamt kynningarbréfi sem er að hámarki 1 bls. á íslensku þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og hæfni umsækjanda sem nýtist til að sinna starfinu í samræmi við þær hæfniskröfur sem fram koma í auglýsingu. Umsækjendum um störf hjá embætti ríkislögreglustjóra kann að vera gert að leysa verkefni í ráðningarferlinu sem kæmu, auk annarra þátta, heildstætt inn í mat á hæfni þeirra til viðkomandi starfa.

Öll kyn eru hvött til að sækja um en í ljósi ríkjandi kynjahlutfalls innan lögreglu og jafnréttisáætlunar lögreglunnar, eru konur sérstaklega hvattar til að sækja um.

Vakin er athygli á því að samkvæmt 28. gr. a. lögreglulaga nr. 90/1996 má engan skipa, setja eða ráða til starfa hjá lögreglu sem hefur hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta. Til þess að staðreyna þetta er lögreglu heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu. Með vísan til 24. gr. varnarmálalaga nr. 34/2008 og 20. gr. reglugerðar nr. 959/2012, sbr. einnig 30. og 31. gr. reglugerðarinnar þarf starfsmaður að standast bakgrunnskoðun til að hljóta öryggisvottun vegna starfans.

Starfshlutfall er 100%

Umsóknarfrestur er til og með 18.06.2024.
Sjá auglýsingu á Starfatorgi.

Nánari upplýsingar veitir

Ágústa Hlín Gústafsdóttir, agustah@logreglan.is, sími: 4442500