SMS-skilaboð virkjuð vegna Skaftárhlaups

Lögreglustjórinn á Suðurlandi í samstarfi við Almannavarnir ákváðu í dag að virkja SMS-skilaboð sem verða send til fólks sem fer inn á fyrirfram skilgreint svæði nálægt Skaftá. Í skilaboðunum er fólk beðið um að yfirgefa svæðið vegna gasmengunar og vatnavöxtum við Skaftá (Skaptárkatli).

Ekki er hægt að útiloka að SMS-skilaboðin berist til fólks aðeins utan við skilgreint svæði og er almenningur beðinn um að hafa það í huga.

Fyrr í dag lýsti lögreglustjórinn á Suðurlandi og Ríkislögreglustjóri yfir óvissustigi Almannavarna vegna Skaftárhlaups. Brennisteinsvetnismengunar getur gætt þar sem hlaupvatn kemur undan jökli og getur skaðað slímhúð í öndunarfærum og augum auk þess sem árnar geta flætt yfir bakka og vegi sem liggja þeim nærri. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnaárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.

Lögreglan á Suðurlandi hefur jafnframt ákveðið að setja lokunarhlið á eftirfarandi vegi:

1# Landmannalaugar inn á Fjallabak-nyrðra inná F-208
2# Skaftártungnavegur (vegur 208) frá Búlandi
3# Inn á Álftavatnskrókinn á vegi F-210 inná F-233
4# Vestan við vað yfir Hólmsár gatnamót F-210 og F-232

Skilaboðin eru bæði á íslensku og ensku:

Vegna hættu á gasmengun og vatnavöxtum við Skaftá (Skaptárkatli) ert þú beðin/n um að yfirgefa svæðið. Búast má við umtalsverðum vatnavöxtum og því geta ár og lækir flætt yfir bakka sína og vegir farið undir vatn. Ef þú ert vestan Hólaskjóls er best að rýma í átt að Landmannalaugum.

Due to the risk of gas pollution and flooding at Skaftá (Skaptárketill) you are asked to please leave the area. Severe flooding can be expected and therefore rivers and streams might overspill their banks and roads go under water. If you are west of Hólaskjól it is best to evacuate towards Landmannalaugar.


Af gefnu tilefni þá er hér tilkynning sem send var út fyrr í sumar:

Algengur misskilningur að hægt sé að tryggja að SMS skilaboð berist í öll símtæki.

Váboðskerfi Neyðarlínunnar (sms sendingar), sem viðbragðsaðilar á Íslandi (þ.á.m. lögreglan og Almannavarnir) notar er nýtt til að koma skilaboðum til fólks þegar rétt þykir og ákveðið af þeim sem hefur forsvar aðgerða hverju sinni.

SMS kerfið virkar þannig að óskað er eftir því að skilaboð berist til fólks á ákveðnu landsvæði (hnitin send á símafyrirtækin ásamt texta). Kerfi símafyrirtækjanna reikna út hvaða símar eru á svæðinu og sendir því næst boðin í þá. Tæknin (kerfið) býður ekki upp á það að hægt sé að tryggja að öll tæki innan svæðisins fái skilaboðin og að tæki utan svæðisins fái þau ekki.

Að skilaboð berist ekki í síma innan svæðis eða í síma utan svæðis gerist og talið er að tilfellin séu um 9-10%. Þrátt fyrir þessa annmarka hafa SMS skilaboðin gagnast vel og þjónað sínum tilgangi.

Það er algengur misskilningur að hægt sé að tryggja það að SMS skilaboð berist í öll símtæki sem staðsett eru á ákveðnu landsvæði eða innan „girðingarinnar“ sem sett er upp (hnit).